Samsung Series 9 15" umfjöllun
Samsung Series 9 er ótrúlega falleg ultrabook með stórum 15″ skjái, sem er ólíkt öllum öðrum ultabook tölvum sem eru oftast með 13″ skjái. Tölvan er greinilega hönnuð til þess að vera Macbook Air 13″ samkeppnisvara útlitslega sem og tölulega séð. Tölvan kemur útbúin með Windows 8 og fæst hjá Samsung Setrinu og BT á 350 þúsund krónur.
Innvols, hljóð og mynd
Útgáfan sem fæst hér á landi gefur ekkert eftir hvað varðar innvols og hraða í sínum flokki. Tölvan er með Intel i7 (3517U) tvíkjarna örgjörva, 8GB vinnsluminni, 256GB hröðu SSD geymsluplássi og Intel HD 4000 skjástýringu. Þessi tölva er hönnuð samkvæmt ultrabook stöðlum Intel og er því útbúin sparneytnum i7 örgjörva og skjástýringu frá Intel, sem eru aðeins hægari en er boðið upp á í þykkari fartölvum með fullbúin skjákort. Tölvan afskastar mjög vel við algenga notkun og vöfrun, en hentar illa í flotta tölvuleiki og myndvinnslu. Það er mjög gott úrval tengja og eru þau staðsett á hliðunum. Á hægri hlið eru tvö USB3 tengi ásamt micro-display skjátengi. Á vinstri hlið er rafmagn, USB2 hleðslutengi, heyrnatóls- og hljóðnematengi (3,5mm jack-tengi), micro HMDI og netkortstengi (sem þarf tengiskott sem fylgir með). Þessi tengi eru til fyrirmyndar á svona þunnri fartölvu. Hátalarnir eru undir tölvunni og hljóma þeir nokkuð hátt. Hljóðið er samt mjög tómt og býður upp á lítinn bassa. Það er þannig á flestum fartölvum og við mælum með góðum heyrnatólum eða hátölurum til að sprússa upp á hljóðið. Skjárinn kemur í mjög sérstakri stærð eða nákvæmlega 15 tommur. Algengasta stærðin í þeim flokki er 15,6″ og því vélin nettari en aðrar vélar með svona skjá. Upplausnin er til fyrirmyndar á Windows tölvu og er 1600×900 punktar. Skjárinn er líka örþunnur og það fer ekkert fyrir honum. Hann er líka fáranlega bjartur og mattur, sem er frábært í birtu. Skjárinn er samt ekki nógu vel stilltur og litirnir of ýktir. Það er lítið mál að fikta sig fram úr því samt. Þessi stærð er mjög góð og gerir tölvan enn færanlegri.
Rafhlaða
Þetta er besta ending af rafhlöðu sem við höfum nokkurn tímann upplifað á fartölvu í þessum flokki. Fullt hús stiga og yfir 7 klukkustunda ending í vinnu með litla birtu. Endingin er reyndar óþægilega nálægt 8 klukkustunda vinnudegi.. (svokallað lúxus vandamál).
Hönnun og viðmót
Series 9 tölvurnar eru búnar til úr sterku meðhöndluðu áli sem er djúpblátt á litinn. Á hliðunum sést glitta í hrátt ál sem hefur verið pússað niður. Lyklaborðið er með góðum en nokkuð grunnum tökkum og er það baklýst með grænu ljósi með stillanlegri birtu.Tölvan er örþunn (16,26 mm) og létt (1,27 kg). Snertimúsin er risastór og úr þægilegu gleri. Hún gefur eftir neðst þannig að hægt sé að smella til vinstri eða hægri. Allt við þessa tölvu öskrar gæði. Það eru þó tveir hlutir sem virka ekki nógu vel. Takkarnir á lyklaborðinu gefa frá sér smá skelli sem lætur lyklaborðið hljóma frekar hávært og illa byggt. Hjarirnar eru ekki nógu stífar og skjárinn gefur eftir þegar maður fer með tölvuna milli staða. Þetta eru í raun smátriði þegar maður skoðar heildina. Tölvan kemur uppsett með Windows 8 og fullt af forritum frá Samsung sem maður þarf ekki. Norton Internet Security, fullt af Samsung forritum og margt fleira sem þarf að slökkva á eða taka út. Það er samt mikilvægt að nota SW updater forritið frá Samsung til að uppfæra tölvuna. Við lentum í því við prófanir að tölvan “bláskjáaði” (e. bluescreened) og þá þurfti að uppfæra rekla frá Samsung með SW updater. Samsung Recovery getur líka verið sniðugt. Flestir Simon meðlimir hafa ekki enn þá náð að skilja Windows 8 start-skjárinn, sem er klárlega hannaður fyrir snertiskjái (modern UI). Það er ekki snertiskjár á þessari tölvu, né flestum fartölvum og nær öllum borðtölvum. Við mælum með Windows+X valmyndinni, sem kemur aðeins til móts við gamla start-takkann. Desktop appið er mjög vinsælt hjá okkur, og er það í raun “gamla viðmótið” frá Windows 7 án start-takkans. Leitin er óþægileg og sýnir niðurstöður eftir flokkum og sjálfgefinn flokkur er “apps” þegar þú vilt langoftast “files” eða “settings”. Start-skjárinn og öll forrit hönnuð fyrir Windows 8 viðmótið taka alltaf allan skjáinn og óþægilegt er að skipta á milli þeirra og desktop forrita. Windows 8 er þó margfalt hraðara en Windows 7 og er þessi tölva einungis örfáar sekúndur að vakna úr dvala og ræsa sig.
Niðurstaða
Þetta er ótrúlega vel hönnuð og falleg fartölva. Hún er líka hröð og býður upp á fullt af tengjum. Þetta er ein besta vélin sem við höfum fengið í prófanir. Klárlega ein sú besta í sínum flokki. Kostir
- Frábær hönnun
- Yfir 7 tíma rafhlaða
- Nett og létt
Gallar
- Dýr, en mögulega réttlætanlegt verð
- Grunnt og slappt lyklaborð
- Lausar hjarir
Samsung Series 9 15″ fær 4,5 stjörnur af 5 stjörnum mögulegum.
Hvað með samkeppnina?
Tölvurnar sem Series 9 keppir við eru Macbook Air 13″, Lenovo X1 Carbon og Zenbook UX31. Ótrúlegt en satt þá er Air ódýrari á Íslandi en þessi vél (334 þúsund með i7, 8GB minni og 256GB SSD plássi), en býður upp á færri port, minni skjá og lægri upplausn. X1 Carbon kostar 430 þúsund með i5, 8GB minni og 256GB SSD plássi, en þolir allt og er aðeins þykkari. Fyrir sama verð fær maður Zenbook UX31A með 13,3″ snertiskjá með svipuðum spekkum, hærri upplausn, en færri USB portum. Simon hefur hinsvegar ekki prófað Zenbook tölvu enn þá, en nokkrir í hópnum eiga Air (sem og restin af þessum tæknibloggsgeira) og við höfum séð X1 neglt í gólfið án þess að það sæist á henni.