HTC One (M8) umfjöllun

Closeup.top.

HTC One fékk fína dóma hjá okkur á síðasta ári og nýlega kom út nýr og uppfærður HTC One (M8). Samkeppnin meðal framleiðenda sem selja snjallsíma á hæsta verðbilinu er mikil og Samsung Galaxy S5, LG G3, iPhone 6 og Nokia Lumia 930 eru allt frábær tæki. Við prófuðum hinn nýja og endurbætta HTC One (M8) og spáðum í hvort hann hafi eitthvað fram yfir hin flaggskipin.

 

 

Hönnun

HTC One (M8) er eitt fallegasta Android tækið á markaðnum í dag. Síminn er úr áli sem er töluvert fallegra en plasthönnun Samsung og LG að margra mati og kemur í gráum, silfur og gull lit. Það er auðvitað smekksatriði hvort síminn sé fallegri en önnur svipuð tæki en það er nokkuð ljósta að HTC sparaði ekki þegar kom að hönnun HTC One (M7) á sínum tíma því ekki órökrétt að hinn nýji sími sé nánast eins. Á framhliðinni eru áberandi stórir hátalarar sem hljóma ótrúlega vel og það verður erfitt að venja sig aftur á að hlusta á Símon.is Hlaðvarpið í öðrum farsímahátölurum eftir að hafa hlustað á þessa. Spauglaust þá eru þeir ótrúlega góðir! Bakhliðin er ávöl og því fer síminn mjög vel í hendi. Bakhlið HTC One er ekki ósvipuð bakhlið iPhone 6 séu silfurlituðu eintökin skoðuð en miðað við umtalið sem loftnetsböndin á iPhone 6 hafa fengið þá má ætla að HTC One þyki fallegri. En aftur er það smekksatriði. Það versta við hönnun símans er ræsitakkinn efst á símanum. HTC þrjóskast enn við að hafa takkann þarna í stað þess að setja hann á hægri hlið símans eins og flestir aðrir framleiðendur byrjuðu að gera eftir að skjáir snjallsíma urðu 4,3” eða stærri. Það er þó hægt að sneiða framhjá þessum pirring með ýmsum aðgerðum HTC Sense 6 viðmótinu.

Closeup.bottom.cropped

Innvols og skjár

Örgjörvi símans er fjögurra kjarna 2,3GHz með Snapdragon 801 kubbasetti. Innra minnið er 2GB og geymslurými símans 16 eða 32GB. Rafhlaðan er 2600 mAh sem er feykinóg til að halda símanum gangandi í meira en sólarhring í venjulegri notkun. Gamla útgáfa símans frá 2013 tók ekki SD kort en á HTC One (M8) er rauf fyrir kort upp í 128GB að stærð. Skjárinn er super LCD3 og 5” að stærð í Full HD upplausn (1080×1920, 441ppi) sem er örlítið stærri en á fyrirrennaranum M7. Allra kröfuhörðustu snjallsímanotendur gætu gagnrýnt símann fyrir að skarta ekki qHD upplausn (1440×2560) eins og LG G3 en fyrir hinn almenna notanda skiptir þetta engu máli. Hærri upplausn reynir meira á rafhlöðuna og bætir ekki upplifunina það mikið að það taki því að tala um það.

Viðmót

Það er seint hægt að segja að HTC Sense viðmótið hafi verið það fallegasta í gegnum tíðina en sjötta útgáfan á HTC One er alls ekki svo slæm og er splæst ofan á Android KitKat 4.4.4. Í stuttu máli býður Sense upp á margar sniðugar bendingar (gestures) til að aflæsa símanum, ágætis fréttaveitu á heimaskjá sem kallast Blinkfeed og viðmót sem er aðeins minna aðlaðandi en stock Android viðmótið beint frá Google. Síminn er stór og ræsihnappurinn er staðsettur kjánalega en með Sense er hægt að komast hjá pirringnum sem fylgir því að seilast í hnappinn efst á símanum og aflæsa með því að strjúka yfir læstann skjáinn frá hægri til vinstri. Sé strokið frá vinstri til hægri kemur Blinkfeed fréttaveitan upp og einnig er hægt að kalla fram voice dialing flýtiskipun með því að strjúka niður skjáinn. Það virkar samt ekkert sérstaklega vel fyrir íslensk nöfn. Heilt yfir er viðmótið mjög smekklegt og HTC Sense verður betra með hverri útgáfu.

P1060129

Myndavél

HTC fór sérstaka leið með myndavélina sem þeir kalla ultrapixel. Myndflagan er stór og tekur inn mikið ljós en myndavélin er einungis 4 megapixlar. Það hljómar ágætlega og fyrir vikið skilar síminn ágætum myndum – ekki meira en það. Við léleg birtuskilyrði fást skýrar myndir en það er oftast vandamál að ná jafnvægi milli birtu og skugga. Dökkir fletir eru of dökkir og ljósir of ljósir en með því að pikka á viðfangsefnið á skjánum er oftast hægt að komast framhjá þessu vandamáli. Myndir teknar utandyra voru oft þokukenndar ef óvenju mikið ljós var á ákveðnum stað á myndinni, t.d. frá loftljósum. Einn skemmtilegur eiginleiki kallast UFocus og gerir þér kleift að breyta fókus á myndum eftir að þær eru teknar. Taktu mynd, farðu í edit og veldu UFocus undir effects. Þetta er pínu “gimmick” en samt alveg mjög skemmtilegt að fikta í myndum þó þetta virki ekki alltaf fullkomlega. En ef viðfangsefni myndarinnar er augljóslega aðgreinanlegt frá bakgrunninum er hægt að fá mjög flottar myndir.

Samantekt

HTC One (M8) er einn besti snjallsíminn á markaðnum í dag. Skjárinn er mjög stór, 5” sem er alls ekki fyrir alla. En ef þú ert að íhuga snjallsíma í þessari stærð er þetta góður valkostur ef þú vilt ekki framúrstefnulega hönnun LG G3, takmarkað iOS viðmót iPhone 6 eða plast skel Samsung Galaxy S5. Síminn er á verðbilinu 116.900-129.000 kr. á Íslandi og með dýrari símum í þessum flokki en vel þess virði að athuga ef þú ert á þeim buxunum að kaupa Android síma í hæsta verðbilinu.

Kostir Frábær skjár og hátalarar Góð rafhlöðuending Eitt best hannaða Android tækið

Gallar Ræsihnappur illa staðsettur

Simon gefur HTC One (M8) 4,5 af 5 stjörnum mögulegum.