PS Vita – Umfjöllun


Þrátt fyrir að Simon.is  fjalli aðallega um snjallsíma og spjaldtölvur þá stóðumst við ekki freistinguna að prufukeyra nýjustu leikjatölvu Sony, PS Vita. Við lifum líka á tímum þar sem allir þessir markaðir eru að renna saman og í raun er stærsti samkeppnisaðili Sony ekki aðeins gamla Nintendo heldur einnig Apple og aðrir framleiðendur snjallsíma og tækja.

 

Á miðvikudaginn síðasta kom nýjasta leikjatölva Sony, PS Vita í almenna sölu. Tölvan er arftaki PlayStation Portable (PSP) sem kom á markað árið 2004. Á þessum átta árum hefur margt breyst. Ekki aðeins er Microsoft orðinn stór keppandi á leikjatölvumarkaðnum heldur hefur orðið bylting í leikjum fyrir snjallsíma og snjalltæki með tilkomu iPhone og iPad. Þetta gerir það að verkum að PS Vita er ekki eins augljós valkostur og  PSP var árið 2004. Stóra spurningin er því hvort það sé pláss eða þörf fyrir sérhæfða leikjatölvu á markaðnum. Til að svara þessu skulum við skoða hvað PS Vita hefur upp á að bjóða.

 

 

Hönnunin, skjárinn og innvolsið

Hönnun PS Vita er ekki mjög frábrugðin forveranum. Hún er þó bæði þykkari og áþreifanlega stærri. Einnig er hún þyngri eða 260 gr. á móti 189 gr. (PSP 3000). Tölvan er í raun það stór að hún fer ekki vel í vasa því “analog” hnapparnir standa aðeins út úr. Þetta þýðir þó ekki að hönnunin sé slæm því Sony nýtir plássið vel. Skjárinn stækkar í 5“ úr 4.3“. Skjárinn er Super AMOLED+ frá Samsung með tvöfaldri upplausn PSP. Hann er mjög bjartur og skarpur með frábærum litum. Þetta er án efa einn besti skjár sem ég hef séð á nokkru snjalltæki. Þó vekur athygli að upplausnin er “aðeins” 960 × 544 og hann því ekki með háskerpu upplausn. Einn meðlimur Simon.is kvartaði yfir því að hann sæi einstaka pixla. Ég verð að viðurkenna að upplausnin truflaði mig ekkert hvort sem ég horfði á HD myndband, vafraði á netinu eða spilaði tölvuleiki.

PS Vita tekur tvennskonar minniskort sem eru bæði sérstaklega hönnuð af Sony fyrir tölvuna. Annars vegar eru leikjakort sem eru ekki ósvipuð hefðbundnum SD kortum að stærð og eru einungis fáanleg með leikjum. Hin kortin eru fyrir efnið sem þú vilt setja inn á tölvuna, tónlist, kvikmyndir og “save” í leikjum.  Þau kort eru svipuð að stærð og Micro SD. Ókosturinn við þetta fyrirkomulag er að kortin eru aðeins fáanleg frá Sony og því líklegt að þau verði dýr.

Tölvan hefur tvær myndavélar. Báðar eru með VGA upplausn og hvorug þeirra er neitt til að hrópa húrra fyrir. Þær eru heldur ekki hugsaðar fyrir landslagsljósmyndun heldur fyrir Skype og leiki. Tölvan styður kvikmyndaupptöku en gæðin eru svipuð og á myndunum.

Tölvan er fáanleg með eða án 3G og er 3G útgáfan einnig með GPS skynjara. Ég prufaði Wifi útgáfuna og saknaði þess ekki sérstaklega að komast ekki á netið hvar sem er þennan tíma sem ég prufaði vélina.  Á Elko.is er Wifi útgáfan á 49.995 kr. en 3G útgáfan er tuttuguþúsund krónum dýrari.

Tölvan er með fjögurra kjarna ARM örgjörva með klukkuhraða upp á 800-2.000 MHz eftir þörfum. Vinnsluminnið er 512 MB. Einnig er sérstakur 200 MHz skjáhraðall með 128 MB minni. Á pappírunum á PS Vita að vera nálægt PS3 í vinnslugetu. Erfitt er að bera það saman því ekki eru komnir út margir leikir sem eru á báðum tölvunum. Þegar þú spilar leiki á borð við Uncharted: Golden Abyss þá er lítill útlitslegur munur á honum og fyrri leikjum seríunnar sem komu út á PS3. Þegar leikir PS Vita eru bornir saman við það besta á Android og iOS þá er munurinn mikill.

Ég er ekki bara að tala um grafík heldur miklu frekar smáatriði, frágang, söguþráð og dýpt. Þegar þú spilar það besta sem í boði er á PS Vita þá er augljóst að tíminn, orkan og já peningurinn sem hefur farið í að þróa þessa leiki er í öðrum klassa en annað sem er í boði á snjalltækjum. Þá er ég líka að tala um það besta. Ég prófaði líka leiki á borð við ModNation Racers: Road Trip sem kostar 10-20 sinnum meira en “sambærilegur” leikur á iOS án þess að vera svo miklu betri.

Sony er meðvitað um þennan verðmun og hóf sölu á “PS Mini” leikjum sem eru margir hverjir gerðir upprunalega fyrir snjallsíma og hafa svo verið færðir yfir á PSP og núna PS Vita.

PS Vita mun hinsvegar ekki seljast vegna “Plants Vs. Zombies” heldur miklu frekar vegna leikja á borð við Uncharted. Leikir sem færa leikjaspilun í allt annan klassa en snjalltækin ráða við ennþá.

 

Allar heimsins leiðir til að stýra leikjum

Þegar kemur að stýrimöguleikum þá ákvað Sony að leggja allt undir. Tölvan býður upp á nánast allar leiðir sem til eru. Í fyrsta lagi eru hefðbundnir stýritakkar eins og eru á SixAxis stýripinnanum og PSP. Unnendur skotleikja geta glaðst því PS Vita er með tvo analog pinna. Þessu til viðbótar er skjárinn snertiskjár og á bakhlið tölvunnar er snertiflötur sem er beint fyrir aftan skjáinn (og er nánast jafn stór). Þessi möguleiki er í raun óskrifað blað og verður gaman að sjá hvernig leikjaframleiðendur munu nýta þetta. Þeir leikir sem ég prófaði með vélinni nýttu þetta a.m.k. ekkert sérstaklega vel og bætti þetta ekki miklu við spilunina.

Tölvan er með snúðvísi (e. gyrosope) og hröðunarmæli (e. accelerometer) ásamt rafrænum áttavita.

Kosturinn við alla þessa stýrimöguleika er ekki að geta notað þá alla í öllum leikjum heldur frekar að með þessu ræður tölvan við nánast alla gerðir leikja. Þegar ég hef spilað flókna leiki eins og skotleiki á snjallsímum eða spjaldtölvum þá sakna ég alvöru takka til að stýra með. Það er verra að þurfa að treysta á snertihnappana á skjánum eða skrítna aukahluti. PS Vita getur því boðið upp á bestu mögulegu stjórntækin hverju sinni, óháð því hver leikurinn er.

 

Stýrikerfið og rafhlöðuending

Notendaviðmót PS Vita kallast “LiveArea”. Það kom skemmtilega á óvart hversu vel útfært það er. Það virkar mjög slípað og alveg sama hvað ég reyndi þá tókst mér aldrei að fá það til að hökta á nokkurn hátt. Ekkert mál er að hoppa út úr leikjum í valmyndina og svo aftur til baka. Reyndar er ekki ennþá hægt að nota vafrann á meðan leikur er í gangi en Sony hefur gefið út að þeir muni laga það í næstu uppfærslu. Sony hefur einnig gefið út að þeir séu að hugleiða að nota stýrikerfið fyrir önnur tæki á borð við sjónvörp og spjaldtölvur. Nú veit ég ekki hvort markaðurinn þurfi annað snjalltækjastýrikerfi eða þá neytendur en það verður gaman að sjá hvernig það þróast.

Án þess þó að hafa gert ítarlegar prófanir á rafhlöðunni þá er ekki yfir neinu að kvarta þar. Hún dugði í sirka 3-4 klukkutíma með Wifi á og skjáinn í 80%. Rafhlaðan er einnig tiltölulega fljót að ná hleðslu.

 

Leikirnir

Fyrstu leikirnir á PS Vita eru, heilt á litið, yfir meðallagi. Uncharted mun án efa verða keyptur af mörgum þeim sem kaupa tölvuna í fyrstu atrennu. Hann er langstærsti leikurinn og eini leikurinn sem gefur manni PS3 upplifun. En það eru nokkrir aðrir ágætir leikir í boði. Ásamt Uncharted prófaði ég: Little Deviants, ModNation Racers: Road Trip, Fifa Football, Reality Fighters, Ultimate Marvel Vs. Capcom og Unit 13. Fifa var vel útfærður og miklu líkari Fifa 12 á PS3 en iPhone/iPad útgáfa leiksins er. Ultimate Marvel Vs. Capcom er einnig mjög flottur og mjög líkur PS3 útgáfunni.

Eini leikurinn sem ég spilað eitthvað af ráði var Uncharted: Golden Abyss. Fyrir þá sem hafa spilað aðra leiki í seríunni þá er þetta kannski ekkert nýtt. Klifur, þrautir, slagsmál og skotbardagar en hann virkar mjög vel á 5″ skjá. Eina sem hægt er að pirra sig á er að í stað þess að nota hefðbundna takka til þess að slást þá notar hann snertiskjáinn með lélegum árangri. Í stað þess að bæta einhverju við upplifunina þá verða þau aldrei neitt meira en ýttu upp, til hliðar og niður og óvinurinn er rotaður. Burtséð frá þessu þá er Uncharted fínn leikur ég mæli með honum við alla sem eru að íhuga að fá sér PS Vita.

Eitt sem pirraði mig við leikina var hversu lengi þeir eru að hlaðast inn. Tíminn frá því að þú startar leik og þar til að þú getur byrjað að spila er mældur í mínútum, ekki sekúndum.

 

Vafrinn, Forrit og netverslunin

PS Vita kemur með besta netvafra sem ég hef prófað á leikjatölvu. Hann er ekki í sama klassa og á iOS/Android en þó ekki langt frá. Vafrinn réð við allar helstu síður sem ég prófaði en hann styður þó ekki Flash sem er hvort eð er á útleið í öllum öðrum snjalltækjum.

Tölvan er með tónlistar- og kvikmyndaspilara og með henni fylgir hugbúnaður til að færa efni yfir á tölvuna af PC eða PS3. Mac stuðningur er væntanlegur. Ég sótti nokkur myndbönd í verslunina. Þau spiluðust frábærlega og nutu sín vel á þessum frábæra skjá.

Í versluninni er hægt að sækja prufur af leikjum, myndbönd af leikjum og kvikmyndum og margt fleira. Sony er ekki búið að opna fyrir sölu á neinu efni á Íslandi og ekkert hefur verið gefið upp hvenær það breytist. Hægt er að kaupa alla leiki sem koma út á Vita kortum í versluninni og hala þeim niður á minniskortið. En hafið í huga að leikirnir geta verið mjög stórir. Ég sótti nokkrar leikjaprufur og sem voru oft vel yfir 1.500 MB. Í versluninni er einnig hægt að kaupa PSP leiki og svokallaða PS Minis sem eru ódýrir leikir sem eru svipaðir í gæðum og flestir snjallsímaleikir enda rata margir vinsælir leikir af iOS og Android þar inn.

 

Niðurstaða

Eins og ég sagði í byrjun þá á PS Vita á brattann að sækja. Ekki nóg með að Nintendo 3DS tölvan sé ódýrari heldur eru leikirnir fyrir þá vél yfirleitt um 20% ódýrari. Það ber þó að nefna að með einfaldri uppflettingu á Elko.is þá sé ég ekki að þessi munur skili sér hingað til lands. Þannig að okur á 3DS leikjum núllar þennan punkt út. Viðmiðið erlendis er hinsvegar að stærstu leikirnir á PS Vita kosta 50$ en 40$ á Nintendo 3DS. Þessu til viðbótar eru margir komnir með snjallsíma sem styðja tugþúsundir af leikjum sem margir hverjir eru ekki mjög langt frá því sem PS Vita býður upp á fyrir brot af kostnaðinum.

Það er hinsvegar ekki hægt að horfa fram hjá því að það besta sem PS Vita býður upp á er í öðrum gæðaflokki en nokkuð annað sem er í boði á snjallsíma eða spjaldtölvur. PS Vita er einfaldlega öflugasta lófaleikjatölvan á markaðnum og eini valkosturinn fyrir þá sem vilja spila “console leiki” á ferðinni. Þegar listinn yfir væntanlega leiki er svo skoðaður þurfa menn ekkert að óttast því mikill fjöldi af áhugaverðum leikjum er væntanlegur. Þannig að já, það er klárlega pláss og þörf fyrir sérhæfða lófaleikjatölvu á markaðnum. Hversu stór þörfin er á hinsvegar eftir að koma í ljós.

 

Kostir: Frábær skjár, ræður við allar tegundir af leikjum, takkar einfaldlega betri í sumum leikjum,  grafíkin með því besta sem í boði er, margir spennandi leikir væntanlegir

Gallar: Tölvan er dýr og leikirnir einnig, netverslunin virkar ekki á Íslandi, leikir lengi að hlaðast inn.

Einkunn: 8.8 af 10