Allt sem þú þarft að vita um Apple Watch
Apple Watch snjallúrið er væntanlegt í sölu í apríl næstkomandi. Úrið mun kosta frá $349 (~45.000 kr.) og kemur í tveimur stærðum, 38mm og 42mm. Til þess að geta notað úrið þarf að para það við iPhone 5 eða nýrri síma.
Stærsta spurningin varðar líklega rafhlöðuendinguna en það er óvíst hversu lengi það dugar þó að Apple hafi gefið í skyn að það þurfi hleðslu á hverjum degi.
Hönnun
Úrið kemur í þremur línum: Watch, Watch Sport og Watch Edition.
Hver lína kemur í tveimur litum. Watch línan er úr ryðfríu stáli, Watch Sport úr áli og Watch Edition úr gulli. Ekki gullhúðuðum málmi heldur 18 karata gegnheilu gulli.
Hægt er að skipta um ól á úrinu og fá ólar úr mismunandi efnum með margskonar spennum eða festingum.
Viðmót
Viðmótið er ekki eins og við þekkjum á iPhone vegna skjástærðar úrsins. Á hægri hlið úrsins er lítil skífa sem Apple kallar Digital Crown. Hún er notuð til að stýra ýmsum aðgerðum á úrinu eins og að stækka og minnka sýnilegt svæði á korti eða í aðal valmynd úrsins. Stafræna krúnan virkar líka sem heima takki eins og er á framhlið iPhone síma.
Viðmótið er nokkuð framúrstefnulegt miðað við önnur snjallúr og er hannað sérstaklega fyrir lítinn skjá.
Eiginleikar
Minna úrið kemur með skjá í upplausninni 272×340 en stærra úrið í 312×390. Force Touch er tækni sem gerir greinarmun á léttu banki og “long press” snertingu. Þetta mun virkar svipað og vinstri- og hægrismellur á venjulegri tölvumús.
Úrið kemur með NFC og því verðu hægt að nota það með Apple Pay. Hjartsláttarmælirinn í úrinu verður notaður sem auðkenni fyrir Apple Pay og því er ómögulegt fyrir óprúttna aðila að greiða með úrinu þínu.
Úrið er hlaðið með Magsafe tengi eins og á Macbook fartölvum. Það er þó ekki eins og þetta hefðbundna tengi sem við þekkjum heldur er það stór skífa sem fer á bakhlið úrsins.
Heilsumælingar
Úrið er ekki bara úr heldur mælir það ýmsar heilsufarsbreytur.
Það eru tvö heilsu (fitness) öpp í úrinu. Annað kallast Activity minnir þig á að standa upp í eina mínutu á klukkutíma fresti (stand), hvetur þig til að hreyfa þig og brenna kaloríur (move) og klára 30 mínútur af æfingum (exercise) á dag. Workout er hitt appið sem gefur þér ítarlegar upplýsingar um vegalengdir, hversu margar kaloríur þú brenndir og fleira ásamt því að gefa þér yfirlit yfir æfingar.
Siri verður að sjálfsögðu mætt og getur tekið við skipunum á úrinu sem eru svo framkvæmdar á iPhone eins og að senda skilaboð eða hringja í tengiliði. Hægt er að nota úrið til að stjórna Apple TV og önnur öpp eins og Maps, Camera, Photos, Calendar, Passbook, Weather, Clock og Settings verða að sjálfsögðu uppsett þegar úrið kemur úr kassanum.
Þetta er það helsta sem við vitum um úrið. Ítarlegri umfjöllun á Símon.is kemur að sjálfsögðu um leið og við fáum Apple Watch í hendurnar.