Alto’s Adventure: Snjóbrettaleikur fyrir Sigurrósar aðdáendur

Ef þú liggur reglulega uppi í sófa og horfir á sjónvarpið með öðru auganu og spilar tölvuleiki á iPad með hinu, lestu þá lengra. Alto’s Adventure kom út í dag og er frábær leikur fyrir þá sem vilja grípa í góðan leik á óhátíðlegum stundum. Í stiklunni hér að neðan má sjá brot úr leiknum sem inniheldur lagið Kolniður með Jónsa úr Sigurrós.

Leikurinn svipar til Ski Safari sem er nákvæmlega sama hugmynd en munurinn á leikjunum er að Alto’s Adventure leggur mikið upp úr því að leikurinn líti vel út. Ski Safari bauð upp á frekar barnalega grafík og frábæra spilun. Hér er grafíkin stórglæsileg og spilunin sú sama; snjóbrettakappi rennir sér niður fjall og þú lætur hann hoppa eða fara í heljarstökk með því að þrýsta á skjáinn.

Alto's Adventure

Leikurinn kostar $1.99 ($2.47 ef skattmann fær sitt) í App Store og er einungis fáanlegur fyrir iOS tæki. Það eru engar auglýsingar í leiknum og ekki þörf á að kaupa neitt í leiknum sjálfum (in-app purchases).

Alto’s Adventure í App Store [$1.99/$2,47]