Google I/O í dag klukkan 16
Google I/O hugbúnaðar ráðstefnan hefst í dag klukkan 16:00 að íslenskum tíma og er hægt að horfa á hana í beinni útsendingu hér. Hér er það helsta sem við munum líklega sjá í dag.
Nýtt Android
Það eru góðar líkur á að ný útgáfa af Android verði kynnt í dag með stuðningi við 64-bita örgjörva eins Apple kynnti fyrir iOS 7 síðasta haust. Það er ekki mikil breyting fyrir notendur heldur er meira verið að hugsa um framtíðina til að gera hugbúnað auðveldari í keyrslu og opna fyrir möguleika á öflugri vélbúnaði. Til viðbótar má búast við minniháttar útlitsbreytingum á Android stýrikerfinu.
Android Wear
Það fer að líða að því að fleiri en bara nördar og líkamsræktarfólk beri snjalltæki um úlnliðinn því í dag fáum við meiri upplýsingar um Android Wear sem var kynnt í mars síðastliðnum. Blaðamenn fá loksins að komast í snjallúrin Moto 360 og LG G Watch sem eru fyrstu vörurnar sem keyra Android Wear stýrikerfið.
Android TV
Google fór ýmsar leiðir til að reyna að komast í sjónvarpið þitt og það sem heppnaðist best var líklega Google Chromecast. Chromecast er lítill sendir á stærð við USB lykil sem þú stingur sjónvarpið sem spilar svo efni frá Google. Í dag kemur líklega í ljós hvert næsta skref verður varðandi framtíð Android TV.
Framtíð Nexus
Eins og við höfum fjallað um áður þá bendir flest til að Google muni hætta framleiðslu á Nexus tækjum og í staðinn kynna eitthvað sem þeir kalla Android Silver. Hvað það er nákvæmlega vitum við ekki en mögulega verða símar frá öðrum vélbúnaðar framleiðendum með hreinu Android stýrikerfi (stock Android).
Hver er framtíð Nest og snjall heimilisins? Hvað ætla þeir að gera með þessi vélmenni frá Boston Dynamics? Hvernig verður Android í bílnum? Þessum spurningum verður vonandi svarað í dag en við verðum með beina textalýsingu á Twitter og tökum svo upp hlaðvarp sem verður komið inn á Alvarpið síðar í vikunni.
Hitaðu þig upp fyrir Google I/O með því að hlusta á síðasta hlaðvarp þar sem Gunnlaugur, Atli og Axel veltu fyrir sér framtíð Android.
Trackbacks & Pingbacks
[…] kynnti næstu útgáfu af Android á I/O ráðstefnunni í sumar, en útgáfan fékk aldrei annað nafn en Android L. Google hefur haft þá […]
Comments are closed.