iPhone 5 umfjöllun

Apple gaf út sjötta iPhone símann núna í september, eða iPhone 5. Síminn er með nýju útliti og stærri skjá en fyrri útgáfur. Hver iPhone verður vinsællri en sá sem var á undan og er iPhone 4S söluhæsti sími Apple í dag (og líklega söluhæsti snjallsími heims). iPhone 5 mun þó taka fram úr honum á næstunni og sló út forsölumet Apple með 2 milljónum seldra tækja innan sólarhrings. Síminn hefur fengið góðar móttökur þrátt fyrir orðróma um að síminn rispist auðveldlega og ekki sú bylting sem beðið var eftir. Simon fékk iPhone 5 að láni í mánuð frá Epli og hér er okkar umfjöllun.

Hönnun

Síminn er það flottur, í báðum litum, að hann flokkast eiginlega sem skartgripur. Ég fékk svarta símann og hann er án efa fallegasti snjallsími sem ég hef notað. Það eru tvær stórar breytingar á ytri hönnun símans: bakhliðin er nú úr áli og skjárinn hefur verið “hækkaður”. Skjárinn er núna 4″ horn í horn en iPhone 4S  var 3,5″. Síminn breikkar ekkert við þessa stækkun, en skjárinn hinsvegar hækkar eða lengist. Hann er því núna í svipuðum hlutföllum og allir aðrir snjallsímar. Skerpan á skjánum er sú sama, en skjárinn fær aukapláss og hefur Apple nú bætt við aukalínu af öppum í viðmóti símans.

Það eru einnig aðrar góðar breytingar eins og nýja Lightning tengið, sem er mun minna og þægilegra (skiptir ekki máli hvernig þú tengir það) en 30 pinna tengið, minni heildarþyngd (úr 140 g. í 112 g.) og þynnri sími (úr 9,3 mm í 7,6 mm). Síminn passar því vel í hendi og er fisléttur. Mér finnst reyndar allar línur á símanum mjög hvassar og án hulsturs þá skera þær aðeins í (ekki bókstaflega).

Mikið hefur verið talað um að síminn rispist auðveldlega. Apple er nú að skipta úr því að vera með Gorilla hert gler báðum megin yfir í álbaklhið. Það sést mjög lítið á gleri þegar það rispast og er líklegra að það verði máð. Álið á iPhone 5 er auðvitað málað og þegar síminn dettur í gólfið er mjög líklegt að álið gefi eftir og málningin detti af. Ef maður setur símann í sama vasa og lykla þá er mjög líklegt að síminn muni rispast. Þetta er auðvitað eðlilegt og ég er vanur þessu eftir að hafa notað marga HTC síma (sem margir eru úr áli). Fyrir iPhone 4/4S eigendur þá er þetta breyting. Ég notaði minn í mánuð og það sást varla á honum, enda fór hann aldrei með lyklum í vasa. Ef fólk passar sig aðeins þá mun síminn endast vel. Ef fólk vill geta sett símann í vasann með lykli eða misst hann í gólfið þá er hulstur algerlega málið.

Hugbúnaður

Apple gaf út nýlega nýja útgáfu af iOS stýrikerfinu sínu og þar má finna margar breytingar. Sumar breytingar voru ekki betrumbætur, heldur stór skref afturábak. Apple tók út Google maps og setti inn sína eigin kortalausn. Sú lausn hefur fengið afgerandi lélega dóma alls staðar. Ég prófaði að leita að nokkrum stöðum, bæði hér og erlendis og fékk oftast ekki niðurstöður eða mjög lélegar niðurstöður. Ég nota nú ekki mikið kortalausnir hér á landi, en þegar ég ferðast þá nota ég þetta mjög mikið. Það er því alveg hægt að lifa með þessu hérlendis og vonandi mun Apple bæta úr þessu á næstunni.

Það margt gott við iOS 6, eins og t.d. Do Not Disturb, Facebook tenging, SMS þegar lagt er á innfarandi símtal, hringja seinna og iCloud vöfrun. Do Not Disturb virkar eins og “silent” en getur hleypt mikilvægum símtölum í gegn.  Með Facebook tengingunni þá getur þú sett inn stöðuuppfærslur auðveldlega úr tilkynningargardínunni, eins og var áður hægt inn á Twitter. Þegar þú leggur á símtal sem þú hefur ekki svarað, getur þú sent SMS á viðkomandi (“Ég er á fundi”) og sett inn áminningu um að hringja í viðkomandi aftur seinna meir. Þetta er þægilegt, en sannarlega engin nýjung og í boði á mörgum öðrum símum. iCloud vöfrun býður upp á að opna glugga sem eru opnir á iPad eða Mac tölvunni þinni sem er tengd við iCloud aðgang þinn. Mjög þægilegt en er hægt á mörgum öðrum tækjum með Chrome, Firefox og fleiri lausnum.

iOS 6 býður upp á ótrúlega mörg flott og sniðug öpp. Leikirnir sem eru í boði eru margir hverjir árum á undan því sem Android eða Windows Phone bjóða upp á. Þetta er því besti síminn til af sér upp á app markaðinn. Það má hinsvegar benda á að hann er því aðeins dýrari en þekkist hjá Google Play og Windows Marketplace.

Viðmót

Apple iOS 6 er mjög þægilegt og þróað snjalltækjastýrikerfi. Það hefur alltaf verið skrefi á undan öðrum kerfum en núna finnst mér Apple vera byrjað að elta Android. Þeir eru byrjaðir að bæta við litlum hlutum sem er að finna í öðrum kerfum (Facebook tenging er í boði á Windows Phone, SMS þegar þú skellir á í boði á Android) og uppfæra hægar en aðrir (Android uppfærir tvisvar á ári, iOS einu sinni og Windows Phone einu sinni). Apple er líka með mun íhaldssamari stefnu og miklu ólíklegra að þeir taki áhættu með einhverju nýju og betra. Þeir eru orðnir Nokia snjallsímana. Nokia hélt lengi vel í sama viðmótið og sama hleðslutækið og nýtt sér það sem sölupunkta (ég notaði þessa punkta sjálfur við sölu á símum í gamla daga).

Viðmótið er mjög þægilegt og staðlað, en núna er maður farinn að skilja af hverju Steve Jobs vildi ekki stækka skjáinn. Öll öpp staðsetja takkann til að fara til baka efst vinstra megin. Með hækkun skjásins er nú erfiðra fyrir puttastutta að smella á þann takka einhendis, sem hefur einmitt verið helsta gagnrýni margra á stóru Android símana. Fyrstu dagana reyndi ég oft að smella á ímyndaðan “til baka” takka neðst framan á símanum og saknaði hans allan tíman á meðan ég prófaði iPhone.

Annað sem er eiginlega “dealbreaker” fyrir mig er iOS lyklaborðið. Til að skilja þann pirring vil ég benda á að Apple bannar lyklaborð frá þriðja aðila, einungis Apple má breyta hönnun þess og bæta við orðabókum. Apple er nýlega búið að bæta við íslenskum stöfum og orðabók. Ég skil núna loksins alla þessar myndir með vandræðalegum AutoCorrect SMS skeytum. Íslenska orðabókin er ótrúlega slöpp og AutoCorrect virknin þeirra enn þá slappari. Fyrir mann sem er mjög vanur Swift Key á stærra lyklaborði þá er þetta næstum ærandi. Fyrir fólk sem svarar ekki póstum á ferðinni eða skrifar ekki mörg SMS þá skiptir þetta litlu máli, en væri gaman að sjá lagfært.

Innvols

Apple leggur aldrei áherslu á að tala um innvols í tækjunum sínum. Þetta tæki ber þó af og er að mjög ofarlega í öllum mælingum (Geekbench og Sunspider). Síminn er með nýjan og sérframleiddan Apple A6 örgjörva með 1GB vinnsluminni og svakalegri skjástýringu. Þetta skilar sér frábærlega í allri vinnslu. Viðmótið er viðbragðssnöggt og allir leikir keyra ljúft. Auðvelt er að hoppa á milli appa með því að tvísmella á heim-takkann.

Síminn er með fast geymslupláss og ekki er hægt að bæta við minni með minniskorti. Hægt er að fá símann í þremur mismunandi útgáfum: 16, 32 og 64GB. 16GB dugar langflestum eins og t.d. mér. Fyrir þá sem hafa ekki uppgvötað skýjaborgirnar eða vilja ferðast með mikið af tónlist/myndefni með sér þurfa líklega aukið pláss og þurfa að borga 20 þúsund fyrir 32GB útgáfuna og 30 þúsund fyrir 64GB útgáfuna.

Ég rakst á eitt mjög áhugavert. Síminn er með mekanískan hallamæli (óstaðfest), sem hringlar í þegar ýtt er lauslega aftan á símann til hliðar við myndavélina. Mér var sagt af hörðum iPhone notanda að þetta væri fullkomnlega eðlilegt og væri einnig á iPhone 4S. Mér fannst hringlið pirrandi.

Hljóð og mynd

Síminn er með fínasta hátalara neðst undir símanum sem heyrist vel í. Enn og aftur skilur maður ekki af hverju hátalarinn vísar ekki að fólki, til að auðvelda fólki að hlusta á myndbönd, sem er líklega algengasta notkun okkar á hátölurum snjallsíma. Það eru örfáir símar sem hafa boðið upp á þetta og þetta er að detta í tísku fyrir spjaldtölvur.

Það heyrist ágætlega í viðmælendum og enn betur í iPhone 5 notendum. Síminn er með auka hljóðnema til að staðsetja óæskileg hljóð úr umhverfinu og taka þau burt úr símtölum. Þetta er í boði á flestum dýrari símtækjum en er einhverra hluta vegna aðalpunktur Apple í nýrri markaðsherferð. Heyrnatólið í símanum (sem þú hlustar á í símtölum) getur útilokað umhverfishljóð (e. noise cancellation). Sú útilokun virkar þannig að þegar hljóðneminn skynjar hávaða úr umhverfinu þá sendir hann hljóðbylgjur inn í eyrað á þér í miðju símtali. Það tók mig smá tíma að fatta að ég væri ekki veikur eða með sjóriðu og að grafa upp þennan eiginleika. Þetta er vægast sagt óþægilegt og ég skil ekki hvernig þetta komst í gegnum prófanir hjá Apple.

Það fylgja með ný heyrnatól með hljóðnema. Apple kallar þau “Earbuds” og þau eru mun betri en þau sem hafa fylgt með fram að þessu. Þau eru hinsvegar óþægileg og duttu oft út úr eyrunum á ferð (ræktinni). Ég er meira fyrir in-ear heyrnatól sjálfur, en fyrir ókeypis heyrnatól þá er þetta bara fínt.

iPhone hefur verið þekkt fyrir framúrskarandi skjátækni og þar svíkur iPhone 5 ekki lit. Þetta er einn besti snjallsímaskjárinn á markaði í dag. Hann býður upp á frábæra skerpu (640 x 1136 upplausn), fallega (og rétta) liti og virkar ágætlega í mikilli birtu. Ég hef mikið notað stærri Android síma og ég saknaði þess aðeins á meðan ég prófaði iPhone. Sérstaklega þegar ég var að vafra, lesa stór skjöl, skoða myndbönd eða nota lyklaborðið (portrait). iPhone 5 til varnar þá er heildarstærðin mjög þægileg, það er auðvelt að nota símann einhendis og það fer ekkert fyrir honum í vasa.

Myndavél

Það eru tvær myndavélar á iPhone 5: ein 8 MP að aftan og 1,2 MP að framan fyrir myndsamtöl. Spekkarnir hafa kannski lítið breyst, en aðalmyndavélin býður nú upp á panorama og tekur nú betri myndir í lítilli birtu (e. backside illumination). Hún er líka mjög snögg, en þó þarf marga smelli til að komast að því að taka mynd. Ef það væri takki sérstaklega fyrir myndavélina þá væri maður mun sneggri og myndi því fanga augnablikið. Það er mjög lítið hægt að stilla myndavélina eða myndbandsupptökuna. Myndavélin er mjög einföld en það skilar sér í mjög jöfnum og góðum gæðum. Þar er því miður ekki hægt að deila myndum strax og myndin hefur verið tekin. Maður þarf að fara út úr myndavélar-appinu og opna Photos-appið til að geta deilt þeim áfram. Nema maður taki allar sínar myndir í Instagram. Ég náði mörgum skemmtilegum myndum og var mjög ánægður með þessa myndavél. Þetta er besta myndavélin sem ég hef notað ásamt Samsung Galaxy S3 myndavélinni.

Niðurstaða

Þetta er frábær sími og góð uppfærsla á iPhone. Þetta er fyrsti iPhone síminn sem ég myndi mögulega kaupa og  fallegasti sími sem ég hef nokkurn tímann séð. Stýrikerfið er mjög þróað, þægilegt og býður upp á ótrúlega mörg öpp. Síminn er léttur og einn þynnsti sími heims (ekki sá þynnsti samt). Öll öpp keyra ljúft og ekkert mál að opna stórar vefsíður.

Kostir

 • Fallegt tæki
 • Góður einhendis og í vasa
 • Fullt af öppum í boði
 • Þægilegt viðmót
 • Ein besta myndavélin í dag

Gallar

 • Rosalega dýr (180 þúsund á Íslandi)
 • Skrítið hringl útaf mekanískum hallamæli
 • Óþægilegt útilokun umhverfishljóða
 • Hræðilegt lyklaborð
 • Næstum ónothæf orðabók (AutoCorrect)

Þetta eru engir alvarlegir gallar (fyrir utan verðið!), og auðveldlega hægt að uppfæra þessa tvo síðustu í lag. Kostirnir eru hinsvegar framúrskarandi.

iPhone 5 fær 8,8 af 10 mögulegum í einkunn frá Simon.

1 reply

Trackbacks & Pingbacks

 1. […] leiðist. Fallegur, góð myndavél, fín hleðsla, geðveikur skjár en rándýr. Hann fékk okkar hæstu einkunn á sínum tíma. Síminn er til í karlmennlegum svörtum og kvenlegum hvítum. Þitt er […]

Comments are closed.