Ebækur.is: íslenskar bækur í spjaldtölvur og síma
Ebækur.is er nýr íslenskur vefur sem opnaði 5. október síðastliðinn. Vefurinn er í eigu D3 miðla sem reka einnig vefinn Tónlist.is. Það sem veitir vefnum sérstöðu á íslenskum markaði er að allt efni á honum er einnig hægt að lesa á snjallsímum og spjaldtölvum. Ebækur gáfu út app sem er gert af Bluefire Productions og er bæði fyrir iOS (iPhone og iPad) og Android. Appið sjálft er við fyrstu sýn ekki mjög tilkomumikið. Liturinn í þemanu er ekki ósvipaður mjólkurkaffi og að mínu mati ekki sérlega aðlaðandi. Aðalvalmyndin á appinu blasir við, tóm og kaffibrún og gefur manni fjóra valmöguleika neðst á skjánum; efnið mitt, í lestri, sækja bækur og upplýsingar. Á þessu stigi málsins eru fyrstu tveir valmöguleikarnir óvirkir. Til að þeir virki þarf að skrá sig inn, en appið biður ekki um það við ræsingu. Það er heldur enginn valmöguleiki sem ber heitið „Innskráning“, heldur þarf að fara í „Sækja bækur“ til þess. Þar fer maður inn í vafra sem er inni í forritinu og þar er hægt að skrá sig inn á vefinn. Ég ætlaði að ná í allar þær bækur sem voru á mínu svæði, 5 fríar og 3 sem ég hafði bætt við sjálfur, en það var enginn möguleiki til þess að sækja allar bækurnar í einu. Ég þurfti því að smella á hverja bók fyrir sig, sem er frekar óþægilegt en ekkert stórmál.
Því næst gat ég loksins farið í það að lesa bækurnar. Það er gert einfaldlega með því að fara í “Efnið mitt” og velja bók. Það kom mér skemmtilega á óvart hvað skrárnar sjálfar eru smáar að stærð, en ég náði mér í fjórar bækur sem voru ekki nema 7 MB á stærð, sem gerir appið vel nothæft á 3G neti. Viðmótið við lesturinn er nokkuð gott. Það er þægilegt að lesa bækurnar og hver blaðsíða skýr og læsileg. Ef að maður ýtir á miðjan skjáin kemur upp valmynd sem gefur möguleika á því að fletta, skoða bókamerki, leita í bókinni, fara í kaflayfirlit og velja stillingar. Í stillingunum má stilla birtu, stækka eða minnka letur, breyta tegund flettinga og einn virkilega ánægjulegur möguleiki sem er næturstilling. Með þeirri stillingu verður bakgrunnurinn svartur og stafirnir gráir og því töluvert þægilegra að lesa bækur upp í rúmi. Það er þó eitt sem að fer óheyrilega í taugarnar á mér við lesturinn í þessu appi og það er hvernig flettist. Það þarf alltaf að vera einhverskonar grafík við flettinguna, að blaðsíðan hverfi og önnur blörrist inn, að það komi sýndarblaðsíða sem er flett eða eitthvað á þann veg. Það eru fjórar tegundir af flettingum; flip, slide, fade og cut, en enginn valmöguleiki um að það skiptist bara yfir í næstu síðu.
Ég var mjög spenntur þegar ég sá að ebækur.is býður bæði upp á rafbækur og hljóðbækur. Það sem kom mér því virkilega á óvart var að appið sjálft spilar ekki hljóðbækur. Það er einungis hægt að ná í þær á .m4b formi, sem virka á iPod (og því væntanlega öðrum iOS tækjum) en ekki á Android. Það er víst möguleiki að breyta því í einhverskonar annað form, en við það tapar maður möguleikanum á því að setja bókamerki í skjalið. Ég varð því fyrir miklum vonbrigðum, enda finnst mér afar þægilegt að grípa í hljóðbók á símanum þegar ég er á ferðinni.
Vefurinn sjálfur virðist hafa verið nokkuð fljótgerður og mættu D3 alveg hafa gert fleiri notendaprófanir á honum. Til dæmis er verðið á öllum hljóðbókum sem er einnig hægt að kaupa sem rafbækur rangt. Til dæmis er bókin Eldar kvikna auglýst á 2.210 krónur undir hljóðbóka hluta síðunnar, en það verð á í raun við rafbókina og hljóðbókin kostar 3.990 krónur. Ég keypti mér bók í gegnum inneign sem ég átti á síðunni, en inneignin virkaði ekki og var kortið mitt straujað fyrir allri upphæðinni.
Appið er í rauninni bara epub lesari með tengingu við Rafbækur.is. Lesarinn er reyndar nokkuð góður í samanburði við aðra fría lesara. Appið er líka mjög ótilkomumikið í útliti og er hannað eftir mjög stöðluðu útliti, einfalt iOS þema með einföldum lit án mikillar pælingar. Það hefur ekki verið lagður mikill metnaður í útlitið og virðist þetta nánast vera bara fyrirfram gert form sem að var svo sniðið að Ebækur.is. Til dæmis eru sumir takkarnir ekki á íslensku sem bendir til þess að það hafi upphaflega verið hannað á ensku.
Það eru gríðarlega miklir möguleikar í bæði appinu og vefnum sem er ekki verið að nýta. Það er engin gagnvirkni á milli tækja, ef ég set bókamerki í símanum mínum þá kemur það ekki inn á spjaldtölvuna mína. Það er ekki hægt að kaupa bækur í gegnum appið, sem væri einmitt sá vettvangur sem fólk kaupir helst rafbækur, uppi í sófa eða á ferðinni. Fólk með Amazon Kindle rafbókalesara kaupir bækurnar beint í gegnum tækið hvar og hvenær sem er og það er nákvæmlega það sem ég myndi vilja gera með spjaldtölvunni minni. Ég vil ekki þurfa að fara í tölvu og skrá mig inn á síðuna í hvert skipti sem mér dettur í hug að kaupa bók og fara svo í spjaldtölvuna og ná í bókina. Mig langar að geta flett í gegnum úrvalið af bókum, smellt á einhverja bók og fengið hana strax í spjaldtölvuna. Ástæðan fyrir þessu er hinsvegar frekar einföld því öll sala sem fer fram í öppum á iOS tækjum flokkast sem in app purchase og Apple tekur sinn hefðbundna 30% hlut. Ebækur hafa greinilega (og skiljanlega) ekki áhuga á því að deila sínum tekjum en fyrir notendur er þetta bagalegt. Annað sem mætti laga er að Það mættu vera sýnishorn af bókum þannig að hægt væri að sjá hvernig hún er áður en maður kaupir hana. Svona mætti lengi telja, en rauði þráðurinn er í rauninni sá að til þess að appið hafi eitthvað virði verður það að virka vel. Það má ekki bara vera einfaldur epub lesari í dulargervi.
Niðurstaða:
Hefði getað verið betur gert og á enn svolítið í land, en það er hægt að fínpússa bæði vefinn og appið til þess að gera þetta nothæfara. Svolítil vonbrigði, en er í þróun og verður vonandibætt í framtíðinni. Útgefendur appsins höfðu samband og vildu koma því til lesenda að það eru uppfærslur væntanlegar bæði á appinu og vefnum, eins eru þeir með vefverslun fyrir Android appið á teikniborðinu sem mun koma í náinni framtíð. Það verður því mjög spennandi að fylgjast með þessu appi.
Kostir
– Íslenskt efni aðgengilegt í snjalltækjum
– Samkeppnishæft verð miðað við aðra sambærilega miðla
– Ágætis rafbókalesari í samanburði við aðra fría
– Rafbækurnar taka lítið pláss
Gallar
– Staðlað og ófrumlegt útlit
– Óþarfa grafík í flettingum
– Ekki hægt að kaupa bækur í gegnum appið
– Hljóðbækur virka ekki
Ebækur appið má finna á og App Store