Apple kynnir iPad mini
Eftir margra mánaða vangaveltur, orðróma og fullt af óskýrum myndum þá hefur Apple loksins svipt hulunni af iPad mini sem er nýr valkostur fyrir þá sem vilja minna, léttara og/eða ódýrari iPad spjaldtölvu. iPad Mini kemur með 7,9″ skjá með sömu upplausn og fyrstu tvær iPad spjaldtölvurnar (1024 x 768). Tölvan mun nota sama örgjörva og iPad 2, eða Apple A5. Sama gildir um skjákortið þannig að hún ætti að ráða vel við nýjustu leikina. Facetime háskerpumyndavél á framhliðinni og 5MP iSight myndavél á bakhliðinni. Tölvan er mun minni og léttari (53% léttari) en iPad 3 og vegur aðeins 308 gr. Geymslupláss verður frá 16 og upp í 64 GB og hægt er að fá iPad Mini með eða án farsímanettengingu. Tölvan verður í tveimur litum, í svörtu og hvítu.
Ódýrasta útgáfan kostar $329 í Bandaríkjunum. Það væri gaman að sjá verðið hér undir 50.000 kr en það á eftir að koma í ljós seinna meir. Á kynningunni var iPad Mini borin saman við Nexus 7 tölvuna frá Google og Asus. Það var lögð sérstök áhersla á það að flest öpp fyrir Android spjaldtölvur eru uppsköluð öpp fyrir Android síma. Það er í raun áhugavert skot, því fleiri iPhone öpp eru til en iPad öpp, en hægt er að ná í iPhone útgáfurnar fyrir iPad og eru þau sköluð upp (og koma verr út en á Android spjaldtölvum). Það eru þó til mun fleiri öpp sem eru sérstaklega gerð fyrir iPad en Android spjaldtölvur.
Ekki bara var iPad Mini kynntur til leiks, heldur var nýi iPad einnig uppfærður (heitir hann þá nýi nýi iPad?) með nýrri örgjörva og Lightning tenginu. Það kom einnig ný flóra af tölvum: 13 tommu Macbook Pro með Retina skjá, nýjar Mac Mini og að lokum nýjar iMac vélar. Þetta virðist vera öflug jólalína hjá Apple og mun vonandi koma vel út í gjafaflóðinu.