Bose Soundlink Mini umfjöllun

Soundlink Mini er öflugur ferðahátalari frá bandarísku hljóðgræjumeisturunum Bose. Þetta er 670 gramma hátalari með fallegu gráu grilli á sitthvorri hliðinni vafin inn í stílhreina álumgjörð. Með hverju tæki fylgir hulstur í ákveðnum lit til að verja þetta fallega ál frá hnjaski sem hann gæti orðið fyrir á ferðinni. Hönnunin minnir aðeins á ákveðið fyrirtæki frá Cupertino kennt við ávöxt og er mjög falleg. Undir hátalaranum er þykkt grátt gúmmí til að koma í veg fyrir hristing og truflanir.

Hljóðið

Hljóðið í hátalaranum kemur virkilega á óvart. Þrátt fyrir að hátalarinn sé aðeins 18×5,1×5,8 cm er rosalegur kraftur í honum. Það er bassi í þessu tæki, sem og frábær Bose hljómgæði. Mér hálf brá þegar ég heyrði í honum fyrst. Þetta er mjög nettur hátalari en maður nær að blasta vel með honum.

Tæknin

399123151

Hátalarinn er hugsaður fyrir snjalltæki og er hægt að tengjast honum bæði með Bluetooth og mini jack-tengi. Bose  hannaði bassakeiluna sérstaklega til að ná sem mestum bassa úr þessu litla tæki. Hleðslan dugir yfir sjö tíma og er hátalarinn þrjá tíma að ná fullri hleðslu. Það er ekkert mál að tengjast hátölurunum. Ég prófaði símann, spjaldtölvuna og nokkrar tölvur, og það tengist allt án vandkvæða.

Niðurstaða

Ég var einmitt að flytja í nýja íbúð og var að spá í að kaupa mér útvarp fyrir eldhús og baðherbergi, sem eru of langt frá öllum hátölurum. Þessi græja smellpassaði í það hlutverk, því það er auðvelt að færa hátalarann milli herbergja. Svo er allt útvarp komið í snjallsímann, sem og podcast þættir og tónlist (Spotify). Þannig að þetta hentaði mjög vel fyrir mig. Hljóðið er frábært og bassinn öflugur. Verðið er hinsvegar nokkuð hátt.

Simon gefur Bose Soundlink fjórar stjörnur af fimm.