Nova býður nú upp á Ljósleiðarann

Nova hefur ákveðið að fara inn á fastlínu netmarkaðinn og býður nú upp á 500 megabita nettengingar um Ljósleiðarann.

Hægt er að fá 100 gígabæta gagnamagn fyrir 3.990 kr. og 1000 gígabæti fyrir 5.990 kr. Netbeinir kostar 690 kr. sem er nokkuð algengt verð. Hver 100 gígabæt umfram innifalið kosta 990 kr. Þetta er nokkuð gott verð á gagnamagni, miðað við að þetta séu 500 megabita hraðar tengingar.

Screenshot_040616_014224_PM

Nova hefur fram að þessu einblínt á farsíma- og netþjónustu um 3G og 4G með aðgang að 2G í gegnum Vodafone (og nú miðlægt rekstrarfélag þeirra oft kallað Novafone). Þetta er því mikil stefnubreyting hjá Nova. Hvað hefur breyst? Sjónvarpsmarkaðurinn og þörfin á heimasíma.

Með tilkomu streymandi sjónvarpsþjónusta eins og Netflix, YouTube, Hulu og fleiri er að verða til heimili sem þurfa ekki lengur myndlykil. Mörg ný sjónvörp eru með öpp til að nálgast þessar nýju þjónustur. Apple TV gerir þetta allt með sóma. Myndlyklar Vodafone og Símans hafa lengi verið límið sem selur þér nettenginguna. Til að fá sjónvarpsþjónustu frá þeim félögum, þurftir þú netsamband frá þeim. Nú skiptir það ekki máli og þú getur sleppt því að borga 2.000-2.500 kr. fyrir myndlykil á mánuði.

Notkun á heimasíma hefur hrunið síðastliðin árin samkvæmt tölfræðiskýrslum Póst- og Fjarskiptastofnun. Fjöldi símanúmera fækkar per haus. Fólk fær sér ekki heimasíma fyrr en fyrsta barnið þarf að hringja að heiman í foreldra.

Þetta tvennt leggur Nova áherslu á í markaðssetningu sinni. Á lendingarsíðu nettenginga þeirra um Ljósleiðarann kemur eftirfarandi fram:
Ljósleiðari hjá Nova er fyrir þá sem vilja öfluga háhraða tengingu inn á nútímaheimilið. Einfaldaðu þér lífið, slepptu heimasímanum og sjónvarpsboxinu og horfðu á sjónvarpið yfir netið.

Verðsamanburður

Það eru bara tvö áskriftarverð:

  1. 3.990 kr fyrir 100 gígabæti gagnamagn og 500 megabita hraða
  2. 5.990 kr. fyrir 1000 gígabæti gagnamagn  og 500 megabita hraða

Skoðum fyrst minni pakkann:

  • Hringdu selur ótakmarkað gagnamagn fyrir 3.990 kr. en mun lakari hraða, eða 50 megabita hraða.
  • Síminn selur þér 50 gígabæti og lakari hraða á 4.400 kr., eða 100 megabita hraða.
  • Vodafone kemur næst þessari áskrift, með 75 gígabæti af erlendu niðurhali og 500 megabita hraða á 4.190 kr.
  • 365 selur einungis ótakmarkað og 500 megabita hraða á 7.490 kr.

Svo stærri pakkann:

  • Hringdu fer upp í 100 megabita hraða og ótakmarkað fyrir 5.990 kr.
  • Síminn fer upp í 250 gígabæti og 100 megabita fyrir 5.990 kr.
  • Vodafone fer upp í 250 gígabæti af erlendu magni og 500 megabita fyrir 6.290 kr.
  • 365 selur einungis ótakmarkað og 500 megabita hraða á 7.490 kr.

Umframmagnið kostar 990 kr. fyrir hver 100 gígabæti. Það er nokkuð gott verð.

Það er spennandi að það bætist í hóp þeirra sem selja fastlínunettengingar. Það mun auka samkeppni og þar með hag heimila sem hafa kost á ljósleiðara.