Nova fyrst í 4,5G

Í ár verða tíu ár síðan Nova fór af stað, eða 1. desember næstkomandi. Það er því við hæfi að Nova stígi skref í átt að 5G og bjóði upp á 4,5G samband á árinu. Í morgun kynntu forstjóri Nova, Liv Bergþórsdóttir, og tæknistjóri Nova, Jóakim Reynisson uppbyggingu 4,5G dreifikerfis Nova. Nova er þá fyrst íslenskra dreifikerfa að bjóða upp á 4,5G.

Hvað er 4,5G?

4,5G eða LTE Advanced Pro er talsvert uppfærð útgáfa af 4G sambandi sem býður upp á aukinn hraða. 4G samband styður allt að 150 megabita kerfishraða, sem er mesti mögulegi hraði og miðað við fullkomnar aðstæður. 4G+ sem hefur verið í notkun hér á landi styður 250 megabita kerfishraða. 4,5G styður allt að 1000 megabita kerfishraða. Nova telur að þetta muni tvöfalda raunhraða notenda og hann verði frá 80 og upp að 120 megabitum miðað við eðlilegar aðstæður. Við fengum að mæla hraðan nokkra metra frá sendi og fengum í kringum 500 megabita hraða, sem er stórkostlegur munur.

Af hverju skiptir 4,5G máli?

Eftirspurn á hraða er talsverð og það skiptir miklu máli að fyrirtækin haldi í við notkun snjallsímanotenda. Frá því að 4G kom til Íslands hefur notkun margfaldast samkvæmt skýrslum Póst- og fjarskiptastofnun. Hver Nova notandi notaði 2,9 GB hvern mánuð árið 2016 og eru nýjustu tölur að sýna aukna notkun. Nova er með circa 75% af öllu gagnamagni um farsímanet á Íslandi.

Hvar er 4,5G?

Nova var að kynna uppbyggingu 4,5G. Það er nú þegar komnir 10 turnar sem styðja 4,5G í Reykjavík þar sem mest þörf er á. Nova telur sig þurfa 3 ár til að breyta öllu kerfinu í 4,5G, en höfuðborgarsvæðið mun vera orðið mjög þétt sitthvoru megin við áramótin.

Hvaða símar ná 4,5G hraða?

Til að fá yfir 450 megabita hraða þurfa símar að styðja LTE Cat9. Það eru til dæmis iPhone 7 og upp úr, Samsung Galaxy S7 og upp úr, Samsung Galaxy Note 8 og LG G6.

Háskerpusímtöl og myndsímtöl um 4,5G

Samhliða þessari breytingu ætlar Nova að bjóða upp á símtöl og myndsímtöl í háskerpu, eða VoLTE (Voice over LTE). Ákveðin símtæki sem styðja VoLTE geta þá nýtt sér háskerpu í hefðbundum símtölum (HD Voice) og myndsímtöl um 4G Þessi símtöl munu kosta það sama og önnur símtöl og falla inn í ótakmarkaða pakka Nova. Til að byrja með munu Samsung Galaxy S7 og Note 8 styðja VoLTE, en fleiri símtæki munu fá stuðning í gegnum hugbúnaðarbreytingu á næstunni.

Hvað þýðir þetta?

Þetta er frábær þróun fyrir þá sem vilja fá meiri hraða. Þeir sem eru með nýjustu símtækin og vilja mikinn hraða geta nýtt sér kerfi Nova. Þetta er líka nauðsynleg þróun til að svara eftirspurn á gagnamagni um snjalltæki. Við munum sjá samkeppnisaðila Nova svara mjög hratt og þá sérstaklega Símann. Það er ekki víst að myndsímtöl fari á flug, en margir munu nýta sér það að þau séu innifalin í sinni áskrift, á meðan Facetime símtöl nota gagnamagn.