Umfjöllun: Nokia Lumia 920 – Bjargvættur Nokia?

Nýlega kom á markaðinn nýjasta flaggskip Nokia, Lumia 920. Síminn sem tjaldar til ótal nýjungum sem fengið hafa umtalsverða athygli. Bæði hvað varðar innvols og getu stýrikerfis. Miklar vonir eru bundnar við símann um að hann nái að blása lífi í sölutölur Nokia. Síminn hefur selst vel í kringum jólin og fær góðar viðtökur erlendis. Síminn er uppfullur af spennandi eiginleikum, er það nóg til þess að bjarga Nokia úr kuldanum?

700-nokia-lumia-920-yellow-2-devices

Hönnun

Nokia Lumia 920 er stór og þungur sími í samanburði við samkeppnina í dag. Hann vegur heil 185 gr sem er umtalsvert meira en t.d minn fyrri sími Samsung Galaxy S3, sem vegur rétt rúm 130gr. Í fyrstu fannst mér síminn áberandi þungur, en ég vandist þyngdinni fljótt. Stærðin og þyngdin á Lumia 920 er samt sem áður stærsti gallinn við símann.

Lumia 920 skartar byltingakenndri myndavélalinsu, sem er langtum betri en það sem þekkist á öðrum símum. Þessi linsa hefur þó þann ókost að vera fyrirferðameiri en hefðbundnar linsur. Nokia hefur ekki komist lengra með þróunina en svo að síminn er rúmur centimeter á þykkt (10,7mm) sem er aftur mun þykkari sími en samkeppnin býður upp á.

Nokia hafa gert sitt besta í að pakka þessum sverleika inn í aðlaðandi hulstur. Síminn skartar 4.5“ skjá, og hægt er að fá hann í nokkrum mismunandi háglansandi litum (rauðum, hvítum, gulum o.sv.frv) en einnig er hann til í möttu svörtu og gráu. Bakhliðin er örlítið kúpt í kringum linsuna en mér finnst Nokia hafa náð að nýta sér þá sveigju til að láta símann falla betur í hendi.

Bakhliðin er úr heilsteyptu plasti, sem á engan hátt virkar ódýrt eða ljótt.

700-nokia-lumia-920-grey-front

Hugbúnaður og Viðmót

Síminn keyrir á Windows Phone 8 (WP8), sem er nýjasta útgáfa af farsímastýrikerfi Microsoft. WP8 er mikið uppfærð útgáfa frá síðasta stýrikerfi þeirra, Windows Phone 7.5. Hér má sjá umfjöllun Simon um Windows Phone 8.

WP8 er því miður enn töluvert á eftir samkeppninni hvað varðar fjölda forrita sem hægt er að ná í. Microsoft Store býður í dag upp á um 120 þúsund forrit í heildina sem er langt frá Google og Apple samkeppninni með sín 700 þúsund forrit. Ég verð samt að segja að fyrir mitt leyti háði þetta mér ekki mikið. Eina forritið sem ég sakna frá Samsung Galaxy S3 er Instagram. WP8 er með öll hin forritin sem ég notaði líkt og Facebook, Twitter, Whatsapp, Viber, Skype, Endomondo , Foursquare, Tunein Radio. Ég myndi vilja sjá Drobbox forrit en Boxfiles hefur fyllt það skarð fullkomnlega.

Eitt lykilforritið sem er sérstakt fyrir Nokia síma er Nokia Drive. Nokia Drive er að mínu mati besta „turn-by-turn“ raddstýrða leiðsögukerfi sem er í boði fyrir síma í dag. Forritið byggir á hinum frábæra kortagrunni Nokia Maps (áður Ovi Maps). Ég notaði kerfið í þau skipti sem ég þurfti að rúnta um borgina og ég verð að segja að ég sé lítinn tilgang í að fjárfesta í hefðbundnu leiðsögutæki, svo gott er Nokia Drive. Appið fann öll heimilisföng fljótt og örugglega og lóðsaði mig aldrei í neina vitleysu. Hægt er að hlaða niður kortum frá mismunandi löndum (Íslandskortið var um 50MB) og þá þarf forritið ekki að nota gagnatenginguna. Einnig er hægt að hlaða niður mismunandi raddbrygðum, fyrir þá sem eiga erfitt með að láta seiðandi kvennmansrödd segja sér til vegar.

700-nokia-lumia-920-yellow-portrait

Innvols

Lumia 920 keyrir á 1.5GHz Snapdragon dual core örgjörva og er með 1GB í minni. Þessi öflugi örgjörvi skilar sér í virkilega viðbragðssnöggu viðmóti og varð ég aldrei var við hökt meðan ég var með símann.

Skjárinn er enn ein byltingin frá Nokia. Þeir hafa uppfært næmni snertiflatarins umtalsvert þannig að hægt er að stýra viðmótinu með ótrúlegustu hlutum. Ég náði að nota símann með hnífapörum, penna, munnhörpu og í þykkum vettlingum. Það síðastnefndna var vel til fundið þegar ég tók göngutúr í frostinu til að taka myndir. Í samanburði við vinsælasta síma 2012, Samsung Galaxy S3, er Nokia klárlega með vinninginn hvað næmni varðar. Hann er í raun það næmur að sumum gæti þótt það um of. Þessvegna er hægt að slökkva á næmninni í stillingunum.

Skerpan í skjánum er líka frábær. Upplausnin er 768×1280 punktar sem gerir punktaþéttleika upp á 332ppi sem er með því hæsta sem þekkist. Skjárinn notar nýja tækni sem Nokia kallar Puremotion-HD þar sem þeir fullyrða að þeir hafi náð að nánast helminga þann tíma sem tekur að skipta um lit á punktum. Væntanlega spilar það inn í hversu viðbragðsfljótt viðmótið birtist manni. Eina sem ég hef út á skjáinn að setja er að svarti liturinn er ekki alveg jafn svartur og á AMOLED skjám. Munurinn er samt lítill og ég sá hann í raun ekki nema bera saman tæki hlið við hlið.

Lumia 920 kemur með innbyggt 32GB geymslupláss. Við það bætist ókeypis 7GB Skydrive. Hægt er að kaupa sér meira Skydrive geymslupláss. Galli við símann er að það er engin SD rauf til staðar fyrir minniskort, þrátt fyrir að WP8 styðji það.

Af öðru innvolsi má helst nefna Gorilla Glass til að verja símann fyrir rispum og falli, 2G, 3G og LTE stuðningur fyrir allar fyrirsjáanlegar tíðnir sem verða notaðar á Íslensku 4G kerfi, 8.7MP myndavél á bakhlið, 1.3MP myndavél á framhlið að ótöldum stuðningi við þráðlausa hleðslu.

Þráðlausa hleðsla fór fljótt úr því að vera „ódýrt trikk“ yfir í ómissandi hlut með því að nota þetta. Maður einfaldlega leggur símann á lítið hleðslutæki og síminn byrjar að hlaða. Mér sýnist hann ná fullri hleðslu á u.þ.b. 165mín í stað 150mín gegnum USB kapal. Þegar maður hefur vanist þessu þá finnst manni eins og að stíga aftur í tímann að þurfa alltaf að stinga Samsung símanum í samband. Þráðlausa hleðslan byggir á staðlaðri tækni svo hægt verður að hlaða símann á fleirri stöðum þegar tækninn verður útbreiddari.

Rafhlöðuending var góð. Síminn er með innbyggt 2000mAh Li-Ion rafhlöðu sem skilaði mér rúmri sólahringsnotkun eftir að hafa fullhlaðið símann. Þá var ég tengdur 3G allan tímann með allt í gangi. GPS, Messenger, Skype og alltaf að kveikja á skjánum til að prófa eitthvað nýtt.

Hljóð og mynd

Nokia Lumia 920 er með lang-bestu myndavél sem fáanleg er á síma í dag.

Hér er enn ein byltingin frá Nokia. Linsan í Lumia 920 er með svokallaða fljótandi linsu, sem þýðir það að linsan helst mun stöðugri í óstyrkum höndum heldur en þekkst hefur hingað til. Þessi stöðugleiki á linsunni gerir Lumia 920 kleift að hafa ljósopið lengur þegar verið er að taka myndir, sem skilar sér í mun skýrari og skarpari myndum, og þá sérstaklega þar sem birtuskilyrði eru slæm. Gæðamunurinn er minni við björt skilyrði.

Ég fór í stuttan göngutúr og tók samanburðarmyndir milli Lumia 920 og Samsung Galaxy S3 (sem hefur verið talinn einn besti myndavélasíminn til þessa. Allar myndir voru teknar af sama staðnum. Fyrst í myrkri, og svo í dagsbirtu. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum er munurinn gífurlegur. Allar myndirnar tók ég líkt og um hefðbundna „tækifærismynd“ væri að ræða, þ.e. ég kveikti á myndavélinni og tók myndina án þess að vanda mig eitthvað sérstaklega.

Lumia 920 tekur einstaklega góðar ljósmyndir en það er í myndbandsupptöku þar sem fljótandi linsan fær að njóta sín til fulls. Þar sem linsan er svona stöðug skilar hún af sér miklu stöðugra video. Hægt er að taka upp í 1080p upplausn á 30 ramma á sekúndu. Meðan maður var vanur að þurfa að halda myndavélinni eins stöðugri og maður gatur með öðrum símum er óhætt að rölta um með Lumia 920 án þess að fá óþægilega hrist video. Linsan skilar einnig bjartara video og víðara sjónarhorni en ég hef séð hjá öðrum símum sem að skilar aftur af sér skarpari fókus, og þá sérstaklega við slæm birtuskilyrði.

Til að styðja við upptökur og að sjálfsögðu talgæði hefur NOKIA innleitt þriggja punkta hljóðnemakerfi sem skilar sér í einhverju bestu hljóðupptökum sem ég hef heyrt í síma. Tal skilaði sér hátt og skýrt í símtölum og hljóð sem fylgdi myndbandsupptökum skilaði djúpum tónum. Það sannreyndi ég þegar ég laumaðist til að taka upp part af einum jólatónleikum sem ég fór á.

Hátalarar símans skiluðu ágætis hljómi. Ekkert afgerandi góðum en á pari við aðra síma sem ég hef prófað.

Það þarf ekki að staldra meira við þetta. Nokia Lumia 920 er stjarna myndavélasímanna. Viljir þú geta tekið nothæfar tækifærismyndir við öll tækifæri er þetta síminn fyrir þig. Það er enginn furða að allir flaggskipssímar sem eru væntanlegir á næsta ári muni koma með fljótandi linsu.

700-nokia-lumia-920-color-range

Niðurstaða

Nokia hefur ekki gengið vel undanfarin ár með að sannfæra almenning um að kaupa Nokia snjallsíma. Eftir mikinn taprekstur í langan tíma og ákvörðun um að veðja á Windows Phone sem stýrkerfi þurftu þeir að tjalda öllu til, ætluðu þeir sér að vera með í leiknum. Með því að koma með þrjár byltingarkenndar nýungar í Lumia 920 finnst mér sem þeir séu komnir með hetjutækið sem þeir þurfa svo nauðsynlega á að halda.

Þetta er persónulega besti sími sem ég hef prófað og ég mun skipta úr síma ársins, Samsung Galaxy S3, fyrir þennan við fyrsta tækifæri. Þeir sem eru til í að fórna kröfum varðandi stærð og framboð á forritum fyrir frábæran skjá, flott og persónulegt stýrikerfi og bestu myndavélina sem er í boði, ættu að skoða Lumia 920 vandlega.  Nýjungagjarn sími á samkeppnishæfu verði.

Síminn hefði fengið 5 stjörnur hefði það ekki verið fyrir ósjálfbærni stýrikerfisins sem og app markaðar Windows Phone. Eins og staðan er í dag þá er Microsoft að styðja við app markaðinn með því að kaupa öpp frá hönnuðum og sölutölur benda ekki til þess að fólk sé að flykkjast yfir á Windows Phone. Margir brenndu sig á því áð kaupa Windows 7.5 síma með von um að fá uppfærslu í Windows Phone 8. Það þarf mikið til til þess að fá þá aðila til þess að treysta Micrsoft aftur.

Nokia Lumia 920 fær 4,5 stjörnur af 5 mögulegum.

Kostir:

 • Besta myndavélin, bæði í mynd og video.
 • Windows Phone 8 er loks orðið alvöru samkeppnishæft.
 • Frábær talgæði.
 • Nokia Maps og Nokia Drive.
 • Frábær samtvinning við Windows tölvur, Office og Xbox.
 • Þráðlaus hleðsla.

Gallar:

 • Stór og þungur.
 • Skortur á öppum.
 • Enginn SD rauf.
 • Ekki jafn opið kerfi og Android.
 • Enginn VPN stuðningur eins og er en er væntanlegur í næstu uppfærslu (OTA).

 

3 replies

Trackbacks & Pingbacks

 1. […] tækniupplýsingar eru fljótt á litið svipaðir og á Lumia 920 en Lumia 925 er þynnri, léttari og með hýsingu úr […]

 2. […] sú besta sem við höfum séð, nema þegar myndir eru teknar við slæm birtuskilyrði. Þar bera Nokia Lumia 920 og HTC One af. Í öllu öðru á S4 sigurinn. Myndirnar eru ótrúlega skarpar og góðar og er […]

 3. […] Á laugardaginn verður flott dagskrá og fullt af sýningarbásum með nýjustu tækni og tölvum. CCP mun kynna nýjan leik DUST514, hægt verður að prófa að forrita á staðnum og það verður í boði að spila leikinn Minecraft á Raspberry Pi tölvunni.  Microsoft á Íslandi stendur að baki APPmessu, þar sem besta íslenska appið verður valið og besta hugmyndin að nýju appi. Atli Stefán Yngvason, ritstjóri Simon (ég) verður einn af dómurum í APPmessunni ásamt Halldóri Jörgensson, Rósu Stefánsdóttir (meðlimur Simon) og kollega okkar Árna Matt (mbl). Sigurverarnir fá að launum glænýjan Nokia Lumia 920. […]

Comments are closed.