Google Nexus 5x umfjöllun
Nexus 5x er einn af tveimur nýjum símum frá Google sem voru að koma út og er framleiddur af LG. Hinn síminn heitir 6p og er framleiddur af Huawei. Báðir símarnir eru kærkomnir arftakar Nexus 6, sem hefur eiginlega ekkert selst. Enda er hann of stór. Nexus 5x er ódýrari en 6p og með aðeins minni skjá. Nexus 5x kemur í þremur litum: dökkgráum, hvítum og ljósmintugrænum.
Spekkar
Nexus 5x er með 5,2″ FullHD IPS LCD skjá sem er stór og bjartur, 12 megadíla myndavél að aftan með tvítóna flassi, 5 megadíla myndavél að framan, 32GB geymsluplássi (það er til 16GB útgáfa sem kemur ekki til Íslands), Snapdragon 808 örgjörva (1,44 GHz fjórkjarna og 1,82 GHz tvíkjarna örgjörvum), 2GB vinnsluminni, fingrafaralesara, USB-C rauf og 2700 mAh rafhlöðu. Sem er nokkuð góður pakki miðað við verð. Þetta er sama myndavél og er í nexus 6p, en ódýrari örgjörvi, minna vinnsluminni og talsvert minni rafhlöðu.
Hönnun
Síminn er mjög einfaldur í hönnun og er búinn til úr plasti sem er nokkuð stammt. Hornin á símanum eru rúnuð og er síminn fínn í hendi. Hann er þó nokkuð stór og erfitt að nota símann einhendis. Síminn er nokkuð léttur miðað við stærð og það kemur skemmtilega á óvart (136 grömm). Það eru þrír takkar á símanum og þeir eru allir á hægri hlið símans. Þeir eru ekki sérstaklega fallegir en virka ágætlega. Aftan á símanum er fingrafaralesi til að aflæsa símanum sem virkar ekkert smá vel og er ótrúlega snöggur að lesa. Svipað snöggur og lesinn á iPhone 6s. Ég fer aldrei aftur í síma án fingrafaralesa eða einhverjar sambærilegrar auðkenningar.
Mér fannst Nexus 5 nokkuð aðlaðandi sími, einfaldur og stílhreinn með þægilegu baki. Hann fór vel í hendi og virkaði vel einhendis. Nexus 5x er það einnig. Fallegur, einfaldur og stílhreinn. En bakið er ekki alveg eins stammt, en síminn er þó ekki sápustykki eins og iPhone 6 línan. Ég er alltaf skíthræddur þegar ég held á iPhone 6 síma án hulsturs. Ég hefði viljað sjá lituðu símana (græna og hvíta) koma alveg einlita, en framhliðin er alltaf svört.
Skjár
Skjárinn er mjög fínn, stór, bjartur og skarpur. Þetta er 5,2″ stór skjár, eða 0,25″ stærri en á Nexus 5. Maður finnur aðeins fyrir því, og það er aðeins erfiðra að nota símann einhendis. Síminn er nefnilega aðeins breiðari en forveri sinn, eða 72,6 mm og var áður 69,2 mm. Ég hefði viljað sjá þá halda þessari breidd, því það gerir manni kleift að nota símann meira einhendis. Hann er þó aðeins grennri en nexus 5.
Þetta er IPS LCD skjár, þannig hann er ekki með þessa ýktu liti OLED skjáa sem margir vilja en er þó með góða liti. Birtan er líka frábær, en ekki að það reyni mikið á hana í þessu veðurfari. Upplausnin er FHD (1080×1920 dílar) sem er feykinóg og er skjárinn mjög skarpur. Myndbönd er mjög skemmtileg í spilun og eru hátalarnir nokkuð sterkir. Hljóðið er hátt en það er lítil dýpt í því.
Myndavélar
Aftari myndavélin er með 12,3 megadíla skynjara, tvítóna flassi, geislafókus og f.2/0 ljósopi (vítt). Hún tekur mjög skarpar myndir við góð skilyrði. Hún metur skilyrði við lítil birtuskilyrði áður með því að flassa stutt áður en mynd er tekin. Það getur tekið smá tíma. Ég bar myndavélina mikið saman við iPhone 6s við ýmis skilyrði, sem er einmitt með sama megadílafjölda. Við eðlileg birtuskilyrði þá eru myndavélarnar nokkuð sambærilegar. Fremri myndavélin á iPhone 6s er aðeins betri, og þá þökk sé flassinu (skjánum). Hér er hægt að bera saman myndir af iPhone 6s og Nexus 5x við góð birtuskilyrði. Báðar myndavélar koma mjög vel út. Ég er þó aðeins hrifnari af iPhone 6s myndavélinni. Ég næ betri litum við góða birtu, betri sjálfur og hún er sneggri.
Viðmót
Nexus viðmótið er eitt það besta í bransanum. Einfalt, þægilegt, stílhreint. Material hönnunin þykir mjög góð. Ég sakna þó að geta breytt flýtivísunum í tilkynningarstikunni. Ég nota heita reitinn mjög reglulega, sem er einmitt ekki í stikunni nema til að slökkva á honum. Það er líka mjög hratt, en ég tók þó eftir smá hiksti á sumum stöðum sem ég man ekki eftir á nexus 5. Það á líklega aðeins eftir að slípa þennan síma til með hugbúnaðarþróun, en hann fær örugglega stöðugar uppfærslur næstu tvö árin. Svo fá nexus símar auðvitað nýjar Android uppfærslur á undan öllum öðrum (nema þegar Moto var á undan einu sinni).
Það er nýr fídus í þessum síma sem svipar til tilkynninga á iOS, sem kveikja á skjánum. Þetta er samt aðeins þróaðri fídus og mun skjárinn kveikja á sér þegar þú nálgast hann og það eru tilkynningar í boði. Ég fann smá villu þegar ég var að nota þetta, og þegar þú ert með fasta tilkynningu sem er að uppfæra sig reglulega (toggl tímateljari) þá mun skjárinn kveikja mjög reglulega á sér (og strauja rafhlöðuna þína). Vonandi verður það lagfært bráðlega.
Ég saknaði frekar mikið Siri á meðan ég prófaði þennan síma og finnst það mjög svekkjandi að Google hafi lokað fyrir Google now. Þeir þurfa að opna á að geta nýtt sér Google now á Íslandi, jafnvel þó maður þurfi að tala ensku (eins og iOS notendur gera). Íslenskan er að verða okkur þungbær. Viðmótið kemur þó einmitt á íslensku, sem er nýtt fyrir Nexus!
Rafhlaðan
Rafhlaðan er nokkuð góð og er að endast mér daginn. Það eru tveir nýir fídusar sem lengja lífið í hleðslunni: doze og rafhlöðusparnaður. Doze svæfir forrit þegar síminn hefur ekki verið í notkun lengi. Mjög svipað og iOS gerir. Rafhlöðusparnaður dregur úr samhæfingu og notkun forrita á gögnum þegar kveikt er á honum. Ég prófaði þetta nokkrum sinnum, meðal annars fyrir hádegi í vinnunni (þegar ég þarf símann lítið). Frá 9-12 þá notaði síminn 2% hleðslu. Það er alger snilld. Þetta er auðvitað eitthvað sem hefur verið til lengi á öðrum Android símum og stýrikerfum, en er flott að fá inn í Nexus pakkann.
Síminn styður snögghleðslu og fylgir með hleðslutæki fyrir það. Síminn er ótrúlega hraður að hlaða. En ef þú notar hann á meðan þú hleður, þá hleður hann mjög hægt. Að setja hann í hálftíma hleðslu gefur þér alveg heilan helling. Síminn er hlaðinn með USB-C sem er með nýja tegund af
Niðurstaða
Þetta er frábær sími og þá sérstaklega ef horft er til verðs. Þarna ertu að fá næstum flagskip fyrir 80 þúsund krónur með 32GB geymsluplássi. Síminn er ekki sá fallegasti og er úr plasti sem virkar ódýrt (og er ódýrt). En hann er þó stílhreinn og einfaldur. Myndavélin kom mér mjög á óvart og ég var ánægður með hana við flestar aðstæður. Ég var svo ánægður með þennan síma að ég er búinn að kaupa nokkra fyrir vini og vandamenn.
Kostir
- Góður skjár
- Mjög fín myndavél
- Mitt uppáhalds viðmót
- Íslenskt viðmót
Gallar
- Lokað fyrir Ísland á Google now
- Ytra byrði úr ódýru plasti
- Ljótir takkar
- Hefði viljað 5″ skjá, til að auðvelda notkun einhendis