iPhone SE umfjöllun

iPhone SE er nýr iPhone snjallsími frá Apple sem kom út í vor. Þegar ég skrifa nýr, þá er það ekki alveg rétt. Þetta er í raun iPhone 5S skjár og umgjörð með iPhone 6S innvolsi og aftari myndavél. Sem gerir hann hraðasta 4″ snjallsímsann, bara ef einhver annar væri að framleiða 4″ snjallsíma.. Mörgum finnst fáranlegt að Apple sé að púkka upp á svona lítinn síma, enda margir sem elska risastóru skjáina sína. Ég myndi giska að Símon hópurinn sé einmitt skiptur til helminga í þessum málum.

Hvað er svona sniðugt við iPhone SE?

Stýrikerfið er sniðið fyrir þessa skjástærð. Það er þægilegra að fara til baka í mörgum öppum efst til vinstri, því þú nærð miklu betur þangað með minni skjá.  Minn fyrsti iPhone var einmitt 6S og ég gat ekki teygt mig upp í þetta horn og það fór verulega í taugarnar á mér, sérstaklega þar sem swipe-to-back virkar ekki alls staðar.

Það er þægilegt að nota símann einhendis. Þessi stærð á síma er frábær fyrir þá sem pirra sig yfir því að nota tvær hendur til að nota símann sinn. Það gerir hann líka tilvalinn í sportið. Það fer minna fyrir honum í vösum og hann er léttur.

Síminn er sjúklega hraður. iPhone SE keyrir á sama örgjörva og 6S, en er með færri pixla. Hann er því hraðari en 6S.

Myndavélin er mjög góð. Bara jafngóð og á iPhone 6S. Sem er mjög gott. Það eru líka Live Photos, sem er nokkuð skemmtilegur bónus.

Rafhlaðan er góð. Rafhlaðan var örlítið stækkuð frá iPhone 5S og þar sem hann er með færri pixla til að sýna fær hann betri endingu en iPhone 6S!

Verðið er gott. Þetta er fyrsti síminn frá Apple sem kemur inn á $399 í USA. iPhone 5C, sem allir héldu að myndi verða fyrsti ódýri síminn, kom inn á $499 úti. Hann var bara of dýr og með áföstu ljótu hulstri sem er ekki hægt að skipta út.

Það er nýr litur. Það er mjög mikilvægt að fólk viti að þú sért með nýjasta iPhone símann, þess vegna kemur hann í bleikum (e. rose gold).

apple-iphone-se-press-2

Hvað gekk ekki upp?

Skjárinn er lítill miðað við aðra síma. Það er mun verra að horfa á myndbönd, skoða myndir, spila leiki og fjölverkavinna (gerir það samt einhver á snjallsíma?). Ég gat varla skoðað fasteignahlekki almennilega án þess að pirrast og færa mig á stærri skjá. En það er nóg af þeim í kringum mig. Hér er hægt að sjá samanburð við aðra iPhone síma, sem og annarra síma hjá kollegum okkur hjá PhoneArena.

Stærðarsamanburður iPhone SE

Fremri myndavélin er mjög slöpp. iPhone SE fékk kannski 12 megadíla myndavélina frá 6S, en fremri myndavélin er úr 5S (1,2 megadílar). Þú sérð verulegan mun á sjálfum á milli 6S og 5S. Kjánalegur sparnaður ef þú spyrð mig.

Ekkert 3D touch. iPhone 6S býður upp á 3D touch, sem er mjög áhugaverður fídus sem hefur ekki náð flugi. Með því að þrýsta fastar á skjáinn færð um flýtiaðgerðir eða aðrar aðgerðir (t.d. peek & pop).  Það hefði verið gaman að fá þennan fídus líka, en til þess þarf að koma fyrir búnaði inn í símanum sem tekur smá pláss (haptic engine).

Niðurstaða

Ég man þegar ég var með minn Nexus 5, á meðan bræður mínir voru með þessar litlu rækjur sínar, iPhone 5 og 4S. Ég sá ekkert á skjáina hjá þeim þegar þeir sýndu mér myndir og fasteignaskráningar. Þessi 5″ stærð á Nexus 5 skjánum var alveg frábær. Flestir geta notað 5″ síma einhendis og þú nýtur vefsins og margmiðlunarefnis betur. En nú er heimurinn öðruvísi. Það er næstum ekkert flaggskip undir 5″ stærðinni í dag. Flestir símar eru bara of stórir.

IMG_20160508_135740

Ég kann mun betur við 4″ stærðina í þessum stóra-síma-heimi. Sérstaklega því ég hef mjög gott aðgengi að mun stærri skjám. Ég nota spjaldtölvuna miklu meira þessa dagana. Lítill sími er allt í einu farinn að “meika sens” fyrir mig. Það er hrikalega þægilegt að halda á símanum, taka hann með í skokk eða hjólaferð. Ég fór í prófanir með fyrirfram mótaða skoðun um þetta væri bara ekkert spennandi sími. Nú langar mig í iPhone SE.

Simon gefur iPhone SE fimm stjörnur af fimm mögulegum.

iPhone SE 16GB kostar 69.990 kr. hjá Nova og 74.990 kr. hjá Símanum og Vodafone.

iPhone SE 64GB kostar 74.990 kr. hjá Nova og 89.990 kr. hjá Símanum og Vodafone.