WWDC 2014: Nýjungar fyrir iPhone og Mac kynntar

ios8

Hinn árlegi World Wide Developers Conference (WWDC) viðburður Apple byrjaði í dag og stendur yfir út þessa viku. Á viðburðinum sem var sýndur áðan voru helstu nýjungarnar í Mac OS og iOS kynntar. Þar ber helst að nefna Mac OS X Yosemite (10.10) sem kemur með uppfærðu og stílhreinu útliti og iOS 8 sem mun kynna til leiks miklar breytingar eins og ný lyklaborð, skjágræjur og ýmsar uppfærslur á öpp. Hér má finna smá samantekt á því helsta sem var kynnt í dag.

OS X Yosemite

Nýjasta útgáfan af OS X stýrikerfinu fyrir Mac var kynnt og er einungis í boði fyrir hugbúnaðarframleiðendur núna, en verður frítt fyrir alla síðar í haust. Það helsta sem uppfærslan felur í sér er ferskara útlit sem er líkara iOS og svokallað “Continuity” sem auðveldar þér vinna á mismunandi Apple tækjum. Sem dæmi veit Mac tölvan þín að þú byrjar að skrifa tölvupóst á iPhone og þú getur haldið áfram að skrifa póstinn með einum smell á Mac borð- eða fartölvu. Tölvan getur líka tekið við símtölum sem þú færð á iPhone. Ef það er ekkert netsamband er hægt að setja upp 3G eða 4G hotspot á iPhone símanum þínum og Mac OS tölvan getur tengst sjálfkrafa við hann. Það er miklu minna vesen en Wifi eða Bluetooth hotspot. Þetta er enn eitt skrefið í áttina til þess að festa notendur í Apple umhverfinu.

overview_design_hero

Útlitið er orðið mun flatara eins og þekkist á iOS 7 og fá flest öpp og forrit nýjar táknmyndir (e. icon). Gegnsæi er ríkjandi í útlitinu og má sjá að flest Mac forritin og stýrikerfið sjálft eru með einhverskonar gegnsæi í gluggunum þannig að bakgrunnurinn sést í gegn ekki ósvipað og þeir væru gerðir úr sandblásnu gleri. Finder fær uppfærslu og verður enn nothæfari og fær Spotlight margar nýjungar eins og tengingu við netið. Þannig verður hægt að leita að hlutum á Wikipedia beint úr Spotlight eða tengjast við Apple Maps.

iCloud Drive var einnig kynnt til leiks sem er beinn samkeppnisaðili við skýjaþjónustur eins og Dropbox, Google Drive og Skydrive. Apple ákváðu að reyna ekkert að vera frumlegir og skelltu Drive viðbótinni aftan á iCloud. Með iCloud Drive birtist mappa í Mac OS tölvunni þinni sem getur geymt öll þau gögn sem þú vilt í skýinu og verða þau aðgengileg á öllum Apple tækjunum þínum. Verðið á iCloud breytist í 20GB á $0.99 og 200GB á $3.99. Nokkuð samkeppnishæf verð en Google Drive er ennþá með vinninginn með 1 TB á $9.99. 

iOS 8

Stýrikerfið fékk ekki jafn miklar breytingar í dag eins og þegar iOS7 var kynnt en núna er betri stuðningur við iCloud og fyrirtækjanotendur.

extra_large_continuity_hero

Uppfærð tilkynningagardína
Tilkynningagardínan (e. notifications panel) hefur alltaf verið mjög slæm á iOS. Núna hefur Apple aðeins bætt hana með því að gera notendum kleift að framkalla aðgerðir um leið og tilkynning berst. Þannig er hægt að svara SMSi beint úr tilkynningunni eða af læsiskjánum.

QuickType
Lyklaborðið er það versta við iPhone. Windows Phone og Android eru ljósárum á undan en í dag komst Apple skrefi nær með QuickType. Síminn þinn lærir á þig og stingur upp á 0rðum sem þú skrifar og veit í hvaða samhengi ákveðin orð eru notuð. Ef þú ert að svara yfirmanni þínum stingur það upp á “fundur / aflýst / skjöl” en við vini þína stingur það upp á “matarboð / bíó / snilld”.

Önnur lyklaborð
Tim Cook rétt minntist á það að nú væri hægt að setja upp ný lyklaborð frá þriðja aðila á iOS. Þetta er gríðarlega stór breyting að okkar mati, því nú verður hægt að setja lyklaborð eins og SwiftKey á iOS. Það verða vafalaust margir sem hugsa um að skipta úr Android yfir í iOS við þessa breytingu.

extra_large_quicktype_hero

Healthkit
Healthkit verður einskonar miðstöð heilsuupplýsinga fyrir iOS. Appið getur tekið saman upplýsingar úr allskonar öppum frá þriðja aðila og birt á einum þægilegum stað. Það mun einnig geta gripið upplýsingar frá tækjum eins og Nike Fuelband og Fitbit.

Family sharing
Enn einn sigurinn fyrir barnafólk því núna er mun auðveldara að deila efni sem er keypt í gegnum App Store. Kvikmyndir, tónlist og öpp sem keypt eru á sama kreditkorti virka nú á 6 iOS tækjum. Ef barnið þitt vill kaupa app í símanum sínum þá færð þú tilkynningu á þínum síma sem hægt er að samþykkja eða neita.

Homekit
Með Homekit verður bókstaflega hægt að stjórna heimilinu úr símanum. Þar verður til dæmis hægt að hækka og lækka hita, slökkva og kveikja á ljósum og læsa og aflæsa hurðum. Heimilið þarf að sjálfsögðu að vera snjallvætt og það með tækjum sem að virka vel á Homekit.

extra_large_health_hero

Skjágræjur
Nú verður hægt að bæta við skjágræjum (e. widgets) frá þriðja aðila á iOS, en aðeins í tilkynningargardínuna. Þær eru líka orðnar gagnvirkar og uppfærast sjálfkrafa, þannig mátti t.d. sjá Ebay skjágræju sem að fylgdist með þeim uppboðum sem notandinn var með í gangi. Skjágræjurnar eru ágætis viðbót fyrir iOS, en eiga enn langt í land.

Photos
Myndaappið fær margar nýjar viðbætur. Þar ber helst að nefna að öll album fara sjálfkrafa í iCloud og er hægt að nálgast þau í Photos appinu á öllum iOS (og bráðum Apple) tækjunum þínum. Ný leit bætist við í appið sem gerir notendum kleift að leita eftir staðsetningum eða heiti mynda. Ein helsta viðbótin fyrir einhverja er sú að nú verður hægt að breyta myndum beint inni í Photos appinu. Stillingar og filterar, ekki ósvipað og finnst í Snapseed eða Google Photos, eru nú komin í Photos og fara myndirnar beint inn í iCloud eftir að þeim er breytt.

iMessages, Mail og Spotlight uppfærsla
iMessages fær uppfærslu sem bætir við enn betri stuðningi fyrir hópsamtöl. Núna er hægt að slökkva á ákveðnum samtölum og minnka áreitið í símanum. Einnig bættust við nýjungar eins og að setja myndir og myndbönd beint í hópsamtöl og að senda hljóðbúta. Hægt verður að láta gögnin hverfa eftir ákveðinn tíma og er því komið einskonar Snapchat beint í iMessage.

Mail fær uppfærslu og verður núna hægt að renna tölvupóstum í burtu til þess að eyða þeim. Sé þeim ekki rennt alveg út í hliðina koma upp aðrir valmöguleikar. Mail mun einnig tengjast enn betur við dagatalið. Nú verður hægt að færa tölvupóst sem verið er að vinna til hliðar og skoða aðra tölvupósta á meðan.

Spotlight mun núna leita í öppum á tækinu, netinu og beint í þjónustur eins og Wikipedia og Apple Maps.

extra_large_design_hero

Siri uppfærsla
Siri bregst núna við skilaboðunum ‘Hey Siri’ þrátt fyrir að vera ekki í gangi, ekki ósvipað og er hægt að gera með ‘Ok Google’ á Android. Hún tengist einnig beint við Shazam og getur þekkt lög sem er hægt að kaupa beint í iTunes. Sala á tónlist í gegnum iTunes fer dvínandi og því gæti þetta aukið söluna og spyrnt á móti samkeppninni við streymiþjónustur eins og Spotify. Einnig mun koma stuðningur fyrir 22 ný tungumál sem Siri mun skilja, en ekki var gefið út hvaða tungumál það voru nákvæmlega en það er frekar ólíklegt að íslenska verði með í því.

App Store uppfærsla
App Store fær uppfærslu sem að gerir notendum enn auðveldara með að finna ný öpp. Útgefendur appa geta einnig sett öppin sín í hópa og þannig selt mörg öpp í einu á afslætti. Einnig verður settur sérstakur “Editor’s Choice” stimpill á öpp sem eru í þeim flokki, ekki ósvipað því sem finnst á Google Play Store.

Metal og nýtt forritunartungumál
Seinni hluti kynningarinnar fór aðallega í hluti sem forritarar og útgefendur hafa áhuga á, en þar ber að nefna tvennt mjög áhugavert. Fyrst er það Metal, sem er ný leið sem leikir geta nýtt sér aflið í A7 örgjörvanum. Öpp geta nú sótt mun meiri kraft úr tækjunum og er allt að 10x betri afköst með þessari nýju leið. Þannig mátti sjá leiki sem eru að koma út á Xbox 360/PS3 eins og Plants vs. Zombies: Garden Warfare spilaða á iPad án nokkur hökts. Það má því búast við sprengingu í nýjum leikjum á iOS í haust og munu sennilega fleiri titlar koma út bæði á leikjatölvum og á iOS.

Hitt áhugaverða er að Apple skiptir ut Objective C forritunarmálinu fyrir nýtt mál sem kallast Swift. Það er mun einfaldara að kóða í Swift og afkastagetan er mun meiri. Þannig munu öpp keyra enn hraðar og forritarar munu eiga mun auðveldara með að hanna ný öpp.

Fyrir allar nýjungarnar sem Apple kynnti má finna upplýsingar á Apple.com 

1 reply

Trackbacks & Pingbacks

  1. […] iOS stýrikerfisins var sú stærsta frá upphafi og sást það best á gjörbreyttri hönnun. iOS8 var kynnt á WWDC fyrr í sumar og hefur verið í beta prófunum síðan þá. Þegar iPhone 5S […]

Comments are closed.