Síminn telur alla netumferð – Hvað þýðir það fyrir okkur?

siminn

Síminn var rétt í þessu að gefa út fréttatilkynningu um fyrirhugaðar verð- og þjónustuleiðabreytingar sem taka gildir 1. september. Verðbreytingar eru nú orðnar árlegur viðburður, en að þessu sinni eru breytingarnar gríðarlegar.

Öll umferð nú talin

Síminn mun nú telja allt gagnamagn sem fer um nettengingar þeirra, ólíkt því að telja bara erlenda umferð eins og venjan hefur verið. Þetta þýðir að öll netumferð, óháð því hvort um upphal eða niðurhal sé að ræða verður talið. Til þess að koma til móts við notendur hefur gagnamagnið verið aukið verulega í pökkunum: 1 GB verður 15 GB, 10GB verða 75 GB, 50 GB verða 150 GB, 100 GB verða 300 GB og 200 GB verður að gríðarlegum 600 GB.

Þessi breyting felur í sér að notendur þurfa nú að fylgjast með allri umferð um netið hjá sér, hvort sem það er á ruv.is eða bbc.com.

Er þessi breyting slæm eða góð?

Í fyrstu bregðast flestir við að þessi breyting sé af hinu slæma. Nú sé enn frekar verið að takmarka netumferð Íslendinga og að síðasta hálmstráið í íslenskri netmenningu sé nú farið. Með því að hækka gagnamagnið verulega á móti er Síminn hinsvegar að verja þessa ákvörðun. Ég leyfi mér að efast um að netumferð hins almenna Íslendings innanlands sé mjög þung. Flestir skoða fréttasíðurnar nokkrum sinnum á dag, skoða uppáhalds bloggin sín og tómstundasíður. Sú umferð er hinsvegar það lítil að það ætti varla að teljast inni í gagnamagninu, það verður í mesta lagi örfá GB. Notendur eru hinsvegar mun duglegri að skoða efni á síðum eins og YouTube, Vimeo og Netflix, sem krefst mun meira gagnamagns. Vissulega minnkar gagnamgagnsumferðin með tilkomu netspegla (eins og er fyrir YouTube á Íslandi), en það eru ekki öll myndbönd þar.

Breytingin mun koma sér vel fyrir flesta almenna netnotendur, sem nota einungis brot af gagnamagninu sínu í innlenda umferð og fá nú stóraukið gagnamagn til þess að eyða á erlendum netveitum. Þetta mun hinsvegar koma sér mjög illa fyrir stórnotendur sem þurfa að flytja mikið af gögnum á vefþjónum, þar sem að nú er upphal einnig talið. Þeir sem munu sérstaklega finna fyrir þessu verða þeir sem eru að hýsa vefþjóna þar sem að stórar skrár t.d. til myndbandsvinnslu eru fluttar á milli. Svo er það að sjálfsögðu einn jaðarhópur sem mun finna hvað mest fyrir þessu; torrent notendur. Íslendingar eru duglegir að sækja sér ólöglegt efni og hafa margir þeirra skýlt sér á bak við síður eins og deildu.net, þar sem að allir notendur eru innan Íslands og telur gagnamagnið því ekki. Þessir notendur þurfa líka að halda uppi jákvæðu hlutfalli og deila því frá sér í miklu magni, sem verður núna talið. Ég ætla að giska á að flestir þeir notendur muni flytja sig annað.

Aðrar breytingar

Aðrar þjónustuleiðir Símans munu hækka í verði. Ber þar helst að nefna að netið í símann mun hækka um 100 kr. og mun mínútu-, upphafs- og smsgjald hækka um 1 kr. í gömlu þjónustuleiðunum og fyrir frelsisnotendur. Reikisímtöl innan Evrópusambandsins mun lækka til muna, en það er vegna nýrrar Evrópusambandsreglugerðar og má því gera ráð fyrir að verðin þar verði svipuð og hjá öðrum fjarskiptafélögum.

Heimild: Síminn – Verð- og þjónustubreytingar 1. júlí