Garmin Vivoactive sportúr

Garmin eru stærsti staðsetningartækjaframleiðandi heims. Þeir framleiða tæki fyrir alls konar sport eins og göngur, hlaup, sund og hjólreiðar. Í kjölfar snjallúrbyltingar þá hafa þeir byrjað að framleiða sportúr, með möguleika á tengingu við snjallsíma. Eitt af þeim úrum er Garmin Vivoactive.

Garmin Vivoactive

Þetta er létt og nett (mun nettari en önnur hlaupaúr Garmin) úr sem hentar fyrir hlaup, sund og hjólreiðar. Tækið er látlaust og kemur í svörtu eða hvítu. Hægt er að fá gúmmíólar sem halda úrinu pikkföstu eða leðurólar ef þú vilt fá eitthvað fallegra. Úrið er nefnilega frekar smekklegt líka, miðað við að vera sportúr.

Skjárinn er snertiskjár og er í lit. Gæði skjásins eru ekkert sérstök, en það er alltaf hægt að sjá vel á skjáinn þrátt fyrir mikla birtu. Viðmótið er nefnilega mjög contrastað, svona eins og á flestum þeirra vörum. Hægt er að kveikja á baklýsingu til að sjá betur í myrkri.

Úrið er mjög vatnsþolið og það er hægt að synda með það. Það telur sundhögg og mælir hraða. Það getur líka tengst ANT+ mælum, eins og ég er með á hjólinu mínu til að mæla hraða og slög. Einnig getur það tengst hjartsláttarmæli frá Garmin. Tækið er með Bluetooth tengingu og getur tengst snjallsímum (Android og iOS tækjum). Þannig fær það netsamband og getur birt tilkynningar af símanum. Það er mjög skemmtileg viðbót. Það er einnig hægt að setja upp einföld öpp á tækið og fleiri eru á leiðinni.

Hleðslan dugir mjög lengi og getur úrið verið lifandi heillengi án þess að nota GPS. Það þolir alveg nokkrar skokkferðir eða hjólaferðir annars og ég þurfti sjaldan að hlaða það ólíkt Apple úrinu sem ég hleð daglega, en þetta vikulega.

Úrið fæst hjá Garmin Búðinni og kostar 46.900 kr.

Þetta er sniðugt úr, en það væri gaman að sjá frekari útgáfur af því í framtíðinni.

Kostir

  • Gott sportúr
  • Góð hleðsla
  • Birtir tilkynningar frá snjalltækjum

Gallar

  • Slappur skjár

Simon.is gefur Garmin Vivoactive fjórar stjörnur af fimm mögulegum.