LG G4 umfjöllun
LG G4 er flaggskip LG þessa dagana. Þetta er 5,5″ snjallsími í qHD upplausn sem keyrir á Android Lollipop með öllum bestu spekkunum. Laser fókus myndavél með 16 mp gæðum, Snapdragon 808 örgjörva, 3GB vinnsluminni, 32GB pláss, mSD minniskortarauf, 3000 mAh rafhlöðu og nokkrar bakhliðir í boði. Simon fékk símann í prófanir og hér eru okkar niðurstöður.
Hönnun
G4 er frekar stór snjallsími með stóran skjá, en er samt mun fyrirferðaminni en aðrir svipaðir símar. Framhliðin er nokkuð látlaus. Engir takkar og LG lógó neðst fyrir neðan skjáinn. Efst er myndavél, skynjari og hlust. Myndavélin er með afburða góð og tekur 8 mp myndir. Í kringum framhliðina er létt krómaður kantur sem er aðeins fyrir ofan skjáinn. Við fengum svarta leðurbakhlið með okkar, en með þeim fylgir alltaf plastbakhlið líka. Þetta er alvöru leður og virkar þannig viðkomu. Yfir mitt bakið ganga tveir saumar, sem ég hefði nú sleppt. Annars er leðrið nokkuð aðlandi og það er mjög þægilegt viðkomu. Ég var mun svartsýnni eftir að hafa séð myndir, en það létti yfir mér eftir að hafa handleikið leðrið sjálfur. Hægt er að fá síminn í sex mismunandi leðurlitum og svo gráum, hvítum og gulllituðu plasti. Ég mæli með svarta leðrinu.
Aftan á símanum eru takkar fyrir hljóðstyrk og læsingu. Ég get ekki sagt að mér líki vel við þá takka, en þeir spara breiddina á símanum. Ég ýti oft á hljóðið þegar ég vil aflæsa símanum. Hátalari er neðst á baki símans og er öflugur, en ætti samt að vísa fram (sem á við á flestum símum).
Síminn er nokkuð breiður, eða 76,1 mm, og er erfitt að nota hann einhendis fyrir flesta. Hann er þó aðeins mjórri en iPhone 6 plus sem er einmitt með 5,5″ skjá líka. Maður er þó löngu búinn að átta sig á því að flesta síma þarf að nota tvíhendis. Það þýðir þó ekki að manni líki það. En það er óneitanlega skemmtilegt að vera með stóran skjá. Myndir og myndbönd fá vel að njóta sín og þú sérð meira.
Viðmót
Viðmótið er nokkuð gott, svona miðað við sérhönnun frá LG. Við erum hrifnastir af hreinu Android viðmóti beint frá Google (e. material design). Hér erum við með veika liti, flöt tákn og beinar línur. Þetta er stílhreinara en það hefur verið hjá LG fram að þessu og skref í rétta átt.
Skjár
LG G4 er með frábæran 5,5″ IPS skjá í qHD upplausn (1440 x 2560). Hann er með frábæra liti og er mjög bjartur. Einn sá besti sem við höfum prófað ásamt Galaxy S6 og iPhone 6 plus. Topp einkunn.
Myndavél
Myndavélin er frábær, eða ein sú besta á markaði. Myndirnar eru skarpar. Myndavélin snögg að ná fókus. Hægt er að smella tvisvar á hljóðtakka (lækka) aftan á til að myndavélin starti sér. Mér fannst samt pirrandi að við þetta tekur hún einnig mynd strax. Ég hefði sleppt því. Þetta atriði er einmitt stillanlegt á Sony Xperia símum (myndavélartakkinn getur aflæst síma og opnað myndavél, eða það + taka mynd). Myndir teknar á ferð koma vel út, þökk sé snöggum fókus. Annars er þetta mín uppáhalds myndavél þessa dagana.
Rafhlaða
Síminn er með útskiptanlega og risastóra rafhlöðu. Hún getur tekið 3000 mAh hleðslu. Endingin er samt ekki nógu góð og endist síminn mun skemur en Galaxy S6 og iPhone 6 plus. Hann styður þó snögghleðslu sem er alger snilld, eða 60% hleðsla á 30 mínútum. Svo er hann einn af fáum símum sem styður þráðlausa hleðslu (Qi) sem er líka snilld. Ikea er einmitt byrjað að selja þannig græjur, lampa og náttborð sem eru með þráðlausa hleðslu.
Niðurstaða
LG G4 er frábær Android sími sem tekur flottar myndir og er nokkuð góður í hendi þrátt fyrir stóran skjá. Við hefðum viljað betri hleðslu (og söknum LG G2 endingunnar) og þægilegra viðmót. Við getum klárlega mælt með LG G4.
Simon gefur LG G4 fjóra og hálfa stjörnur af fimm mögulegum.
Gott
- Ein besta myndavélin í dag
- Snöggur
- Góður skjár, en í stærri kantinum
Slæmt
- Ending rafhlöðu undir væntingum
- Viðmót mætti vera fallegra / þægilegra