Angling iQ nýtt íslenskt app fyrir stangveiðimenn

Angling iQ er nýtt íslenskt app fyrir stangveiðimenn. Appið gefur notendum kleift að skrá aflann í snjallsíma og deila upplýsingum eins stærð fiska og á hvaða agn þeir bitu. Einnig heldur appið utan um vatnasvæði, veiðiferðir og myndir úr veiðinni.

Angling_iq-1-8

Þegar maður opnar appið í fyrsta sinn byrjar maður á að búa sér til notanda-aðgang. Auðveldast er að nota Facebook en einnig er hægt að nota hefðbundu leiðina með netfang og lykilorð. Þegar innskráningarferlinu er lokið tekur við klassískt og fallegt samfélagsmiðla-útlit. Þetta er í raun ekkert ósvipað fyrirkomulag og Instragram. Myndir sem notendur hafa hlaðið upp úr veiðiferðum sem hægt er að líka við, skrifa við athugasemd eða deila áfram.

iPhone_CatchÞegar notandi setur inn mynd getur hann meðal annars sett inn upplýsingar um lengd og þyngd fisks, kyn, tegund, beitu, í hvaða á hann veiddist og á hvaða veiðisvæði fiskurinn er veiddur. Þá er hægt að setja minnispunkta við myndina þegar maður vistar hana. Notandinn hefur frjálst val um hvort hann birti myndina þannig að aðrir notendur geti séð hana eða hvort hann hafi veiðidagbókina bara út af fyrir sig.

Þegar maður skoðar myndir annarra notenda getur maður ýtt á viðkomandi mynd og þá birtast ítarlegri upplýsingar um aflanna á myndinni, þ.e. þær helstu upplýsingar sem viðkomandi notandi setti inn með myndinni.

Fyrir veiðinörda verður að segjast að þetta er magnað app. Það er ótrúlega gaman að rúlla í gegnum veiðimyndir annarra og sjá fallega fiska og geta jafnframt séð ýmsar upplýsingar umfram það sem myndin sjálf sýnir t.d. hvort laxinn veiddist á Sunray Shadow eða Rauðan Francis o.s.frv.

Heilt yfir má segja að appið sé bæði flott og vel hannað. Það þjónar bæði sem veiðidagbók og samfélagsmiðill og á eflaust eftir að verða mikið notað af stangveiðimönnum hérlendis og vonandi erlendis einnig.

 

 

Angling iQ í App Store

Angling iQ í Google Play

Heimasíða Angling iQ