iPhone 4S umfjöllun

Í dag gera flestir ráð fyrir því að Apple kynni arftaka iPhone 4S, sem mun mögulega kallast iPhone 5. Af þessu tilefni tókum við saman smá umfjöllun um 4S símann og biðjumst velvirðingar á því hversu seint þetta kemur. Jafnframt gefum við það loforð að nýji síminn fær umfjöllun á vefnum okkar um leið og við fáum tækifæri til að skoða hann.

Það var 4. október 2011 sem Apple kynnti símann. Miklar vangaveltur höfðu verið uppi um hvernig sími yrði kynntur og verður að segjast eins og er að kynningin olli mörgum (flestum?) nokkrum vonbrigðum.  Kynntur var uppfærður iPhone 4 sími, með nýjum og betri örgjörva ásamt betri myndavél að ógleymdri aðstoðarkonunni Siri.

Innvols

Ein aðal breytingin frá iPhone 4 var nýji A5 örgjörvinn, tveggja kjarna og 800 MHz. Örgjörvinn er enn í dag, nærri ári síðar, einn besti snjallsímaörgjörvinn og var hann grundvöllurinn fyrir aðstoðarkonunni Siri sem ku þung í vinnslu. Örgjörvinn er nærri tvöfallt hraðari en A4 örgjörvinn í iPhone 4 allt að sjö sinnum hraðvirkaði þegar kemur að myndvinnslu.
Síminn er með 512 MB vinnsluminni sem er með minna móti. Mætti gjarnan vera 1GB en þetta kemur ekki að sök eins og er, því síminn er mjög snarpur. Skjárinn er 3,5″ sem er sama stærð og aðrir iPhone símar hingað til. Upplausnin er 960X640 og að sjálfsögðu er skjárinn Retina, eins og iPhone 4. Símann er hægt að fá með 16, 32 eða 64 GB geymsluplássi.

Rafhlaða

Síminn er með innbyggða 1.430 mAh rafhlöðu. Samkvæmt Apple á síminn að endast í allt að 200 klukkustundir í bið, 7 klukkustundir í notkun yfir 3G og 14 tíma yfir 2G, 6 klukkutíma á internetinu yfir 3G og 10 stundir á þráðlausu neti. Þessar tölur líta alls ekki illa út. Ég held það sé þó óhætt að segja að staðreyndin sé önnur. Rafhlöðuending símans er ekkert sérstaklega góð. Við venjulega notkun  á venjulegum degi endist síminn frá morgni til kvölds og jafnvel er einhver hleðsla afgangs, þó ekki nóg til að nota símann nema brot úr næsta degi.* Þegar síminn kom upphaflega á markað kom jafnframt ný útgáfa af iOS stýrikerfinu, númer 5. Einhver galli var í upphaflegu útgáfunni sem leiddi til þess að rafhlöðuending símans var hreint hræðileg. Apple brást skjótt við og gaf út uppfærslu fyrir stýrikerfið sem lagaði endinguna að einhverju leyti. Þá fylgdi viðbótinni möguleiki á að slökkva á 3G tengingu símans, sem sparar talsverða orku.

Í samanburði við aðra snjallsíma er rafhlöðuending símans nokkur veginn á pari. Um leið og notkun símans verður meiri en meðalnotkun þá getur staðið tæpt að hann verði enn á lífi þegar eigandinn háttar sig og leggst til hvílu.

Mynd og hljóð

Skjárinn er 3,5″ eins og áður hefur komið fram. Allir iPhone símarnir hingað til hafa verið með þessa skjástærð. Það verður að segjast eins og er að í dag er þetta með minnsta móti. Upplausn skjásins er 960×640 með 326 ppi og að sjálfsögðu er retina tæknin til staðar svo upplausnin er enn betri en í skjám með sömu upplausn. Þessi skjár var án efa sá besti hvað varðar upplausn og liti þegar síminn kom á markað fyrir tæpu árin síðan. Í dag er þetta enn einn besti snjallsímaskjárinn á markaðnum.

8 megadíla myndavél símans er að mínu mati einstök. Þegar síminn kom á markað var þetta einfaldlega besta snjallsímamyndavélin sem var í boði. Nú nærri ári síðar stenst myndavélin samanburð við flesta yngri snjallsíma. Nokia 808 Pureview og Samsung Galaxy SIII eru klárlega keppinautar þarna (við verðum einmitt með 808 Pureview umfjöllun innan skamms).

Hönnun

Eins og svo margar vörur Apple er hönnun símans nokkuð góð. Síminn er fallegur og fer mjög vel í hendi. Eitthvað hlýtur Apple að hafa gert rétt við hönnun iPhone símanna því þeir hafa í raun lítið breyst í útliti frá 2G (sbr. til dæmis þessi mynd) og stefnir ekki í neina afgerandi breytingu með tilkomu iPhone 5. Símarnir eru jú orðnir örlítið þynnri, breiddin hefur lítið breyst og nánast ekki neitt. Þá segir það eitthvað um hönnunina samkeppnisaðilar Apple á snjallsímamarkaðnum hafa sumir hverjir gert sitt besta til að þróa sem líkasta síma og sumir jafnvel verið dæmdir fyrir það (lesist Samsung). Að mínu mati er þessi stærð á síma næstum fullkomin. Ég sé fyrir mér örlítið stærri síma en vil ekki sjá hann með stærri skjá en 4″ (nú veit ég að margir eru ósammála mér).

iPhone 4S og Siri kerfið

Niðurstaða

Þetta er virkilega flottur og góður sími með frábærri myndavél. Mjög mikið úrval af góðum öppum í App Store. Á móti kemur að það voru viss vonbrigði að fá ekki nýjan iPhone í stað uppfærslu fjarkanum. Örgjörvinn er hraðvirkur, Retina skjárinn er einn sá besti og Siri er þarna til þjónustu reiðubúin fyrir þá sem þora.

Kostir

  • Frábær myndavél.
  • Öflugur örgjörvi sem skilar sér í hröðum síma.
  • Góður Retina skjár.
  • Síminn fer vel í hendi.
  • Frábær hönnun.
  • Vegleg smíði, ekkert plast.

Gallar

  • Er nánast eins og iPhone 4 (ekki hægt að sjá mun þegar síminn er með bumper).
  • Slök rafhlöðuending.
  • Síminn er heldur dýr.

Simon.is gefur iPhone 4S 8,5 af 10 mögulegum í einkunn.

*Þetta miðast við að sú tækni og þeir möguleikar sem síminn býður upp á séu í notkun. Það er vissulega hægt að kreista lengri tíma úr rafhlöðunni með því að slökkva á hinum og þessum fídusum. Að mínu mati er það vitleysa því auðvitað vill maður nota þá tækni sem síminn býður upp á.