Já.is appið – Já takk!

Já.is hefur gefið út nokkur öpp í gegnum tíðina og sum eru betri en önnur. Nýja Já.is appið er hinsvegar stórgott og eitt best útlítandi íslenska app sem við höfum séð.

Já.is appið er einfalt, það spyr “Hvað viltu finna?” og þú stimplar einfaldlega inn það sem þú vilt finna (með því að draga fingurinn lárétt eftir skjánum í iOS er skipt á milli lyklaborða, eftir því hvort maður ætlar að slá inn bókstafi eða tölustafi). Appið leitar í gagnagrunni Já og birtir niðurstöðuna. Vörur og þjónustu birtast efst og einstaklinga fyrir neðan. Hægt er að smella á tiltekna niðurstöðu fá upp spjald með þeim upplýsingum sem má finna á Já.is. Þaðan er hægt að hringja eða senda tölvupóst (sé netfang skráð) og er framsetningin til fyrirmyndar.

simon-jais-1

Hægt er fara á Facebook og Twitter síður þeirra fyrirtækja sem eru með þau skráð og er mjög ánægjulegt að sjá að þeir tenglar leiða mann ekki bara í vafra, heldur opnast prófílarnir í Facebook eða Twitter appinu, sé það uppsett á símanum. Hægt er að vista spjöld beint í símaskrá símans og færast þá allar upplýsingarnar sjálfkrafa yfir.  Í appinu birtist einnig staðsetning heimilsfangs á Google Maps korti í Android og Apple Maps korti í iOS, sem er svo hægt að smella á til þess að fá nánari niðurstöðu. Ég var hálf hissa á að þeir skuli ekki nota sín eigin kort í appinu, en við nánari eftirgrenslan er þetta ekki alveg svona einfalt. Já notar nefnilega kortin frá Google og Apple, en allar niðurstöður eru með GPS hnitum frá Já og notast við upplýsingarnar úr þeirra kortagrunni. Þannig má segja að kortaniðurstöðurnar í Já.is appinu séu nákvæmari en má fá frá Google eða Apple. Vegvísirinn er þó ekki kominn inn ennþá, en hann er á teikniborðinu hjá þeim og mun vonandi koma í náinni framtíð.

simon-jais-2

Appið gerir nákvæmlega það sem er ætlast til af því. Það flettir upp í gagnagrunni Já og nýtir möguleika snjallsímans til þess að birta upplýsingar á þægilegan hátt. Já er nú þegar með mjög góða vefsíðu sem aðlagast fullkomlega að snjalltækjum, en tengingar í öpp símans gera appið betri kost en vefinn. Það eina sem ég hefði viljað sjá væri að Stjörnur væru innbyggt í appinu og myndu ekki fara með mann á annan vef, en það er afar smávægilegt atriði. Já fær sérstakt lof frá mér fyrir að hafa appið ekki eins útlítandi á iPhone og Android. Hönnuðir appsins hafa tekið sér tíma til þess að fylgja útlitsreglum iPhone og Android og passa öppin því við stýrikerfin sem þau eru á.

Appið er að sjálfsögðu frítt og má nálgast á Android í Google Play Store og á iPhone í App Store. Appið er ekki komið á Windows Phone, en Já vildi ekki útiloka að það kæmi einhvern tímann þangað. Því fleiri ábendingar sem þeir fá um að það sé eftirspurn fyrir appinu á Windows Phone því meiri líkur eru á því að það verkefni verði sett af stað.