Lögregluþjónninn – Nýtt app frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sennilega ekki farið framhjá neinum á samfélagsmiðlum. Þeir hafa verið einstaklega duglegir og frumlegir að nýta sér samfélagsmiðla til þess að bæta ímynd sína og koma ýmsum skilaboðum til landsmanna. Þeir ætla sér ekki að láta deigan síga og er nýjasta útspil þeirra að gefa út app fyrir Android og iPhone.

Lögregluþjónninn er app sem kemur út á næstu dögum og er hannað af Veflausnir.is. Appið er fyrir þá sem vilja fylgjast með lögreglunni og er hægt að nálgast alla prófíla sem lögreglan hefur á samfélagsmiðlum á einum handhægum stað. Þannig má sjá tilkynningar frá lögreglunni, Facebook, Twitter, Instagram, FLickr, óskilamuni á Pinterest og YouTube rásina þeirra. Einnig er hægt að fá lista yfir lögreglustöðvar með tengla yfir á Já.is kort. Eitt það sem lögreglan leggur áherslu á með þessu appi er að þeir geta nú sent skilaboð á þá sem eru með appið uppsett, sem mætti til dæmis nota þegar leitað er eftir týndum einstaklingum.

simon-logregluthjonninn-1

Fyrsta útgáfa af appinu inniheldur allt þetta en lögreglan ætlar sér að bæta við fleiri nýjungum í framtíðinni. Þeir leggja þá helst áherslu á að auðvelt verði að komast í samskipti við lögregluna. Þannig mætti mögulega senda lögreglunni myndir og myndbönd beint úr snjallsímanum eða ábendingar sem gætu þá verið með GPS staðsetningu. Það verður áhugavert að fylgjast með viðtökum á appinu og þróun þess. Eins og stendur er það frekar einfalt í útliti og notkun en það mun vonandi breytast með tíð og tíma.

simon-logregluthjonninn-2

Lögregluþjónninn er ekki kominn út formlega, en er þó komin fyrir Android á Google Play Store og má sækja hann hér. Lögregluþjónninn er væntanlegur á iOS á næstu dögum og munum við skella inn tengli þegar það gerist. Aðspurð sagðist lögreglan vonast til þess að geta gefið appið út á Windows Phone en það verður skoðað síðar.