Er Galaxy SIII besti snjallsími í heimi ?

Fáir Android símar hafa vakið jafn mikla eftirvæntingu og Galaxy SIII. Hann var kynntur með miklum látum 3.maí síðastliðinn í London og er að detta í sölu á Íslandi  núna í júní. Samsung leggur ríka áherslu á hugbúnaðinn en hann hefur verið talsvert þróaður síðan Galaxy SII. Þar má helst nefna S-Voice, sem svipar mjög til Siri frá Apple.  Fylgiorð símans eru “designed for humans”, sem mætti þýða  “hannaður fyrir fólk”. Hvað ætli þeir hafi hannað fyrir áður? Samsung er nú orðið stærsti framleiðandi farsíma í heiminum eftir að hafa selt fleiri tæki en fyrrum finnski risinn Nokia. Samsung þarf því að standa undir miklum væntingum með þessum snjallsíma. Simon.is fékk síma til prufu og hér eru okkar niðurstöður.

Innvols

Áður en við byrjum á því mikilvæga, þá skulum við skoða tölurnar sem trylla nördana. Síminn er með fjórkjarna 1,4GHz örgjörva sem Samsung framleiðir sjálft og heitir hann Exynos 4212 Quad. Örgjörvinn er sá öflugasti sem við höfum mælt ( 5899) og er síminn mjög hraður.  Með þessu fylgir 1GB í vinnsluminni, en það gerir símanum kleyft að skoða þungar vefsíður og hoppa auðveldlega milli appa. Síminn kemur í þremur mismunandi útgáfum (auk tveggja lita) með mismunandi stóru geymsluplássi: 16, 32 og 64GB. Ofan á þetta er hægt að setja í hann microSD minniskort og bæta við allt að 64GB. Hver vill ekki 128GB geymslupláss á símann sinn? Skjárinn er stór og litríkur, eða 4,8″ Super AMOLED skjár sem Samsung er þekkt fyrir. Það eru tvær myndavélar á símanum: ein að aftan með 8MP skynjara og LED flassi og önnur að framan fyrir myndsímtöl. Til að halda þessu öllu gangandi er síminn með 2100 mAh rafhlöðu, sem telst vera mjög stórt í dag. Endingin er frábær og endist síminn vel fram á næsta dag. Það er sjaldan sem við náum tveggja daga endingu á snjallsíma hér hjá Simon.is, sérstaklega á símum með svona stórum skjá. Þetta eru án efa topptölur og það sýndi sig við notkun. Vöfrun og tölvuleikjaspilun er án hiksta og við höfum aldrei staðið okkur eins vel í .

 

Hönnun 

Ytri hönnun símans er einföld og góð. Galaxy SIII er þó ekki mjög fallegur, en hann hefur sinn stíl. Hann er kúptur og ávalur og fer mjög vel í hendi. Hann er líka örþunnur, eða um 8,6 mm á þykkt. Síminn er ekkert líkur Galaxy SII og minnir mun meira á Galaxy Nexus símann (sem er einmitt í uppáhaldi hjá okkur). SIII er mun fágaðri og fíngerðari en SII og með því er hönnunin hlutlaus.  Síminn er gerður úr plasti og það er ekki einu sinni málmgrind inni í honum eins og flestum öðrum símum. Plastið er þægilegt viðkomu og síminn er ekki sleipur þökk sé “hyperglaze” meðferðinni frá Samsung. Simon.is fékk hvítu útgáfuna til að prófa og virkar hún mun betur í sjón en á myndum. Okkur finnst hinsvegar mjög skrítið að síminn komi ekki í svörtu, en hann kemur samt í bláum lit með málmáferð. Síminn er með risastóran skjá, en mjúkar línur og ávöl horn ná einhvern vegin að láta mann taka lítið eftir stærðinni. Þegar síminn er borinn saman við iPhone 4S þá virkar hann helmingi stærri. Síminn er það stór að það erfitt að nota hann einhentur við ákveðnar aðstæður fyrir þá sem eru með hendur í minna lagi. Á heildina litið er síminn vel hannaður þrátt fyrir stærðina.

Samsung fær stórt hrós fyrir takkaval og fara þeir sínar eigin leiðir í þeim efnum. Ólíkt Google þá bjóða þeir upp á heim-takka (e. home) og skiptu þeir út yfirlitsmynd forrita (e. app switcher) snertitakkanum fyrir valmyndartakka (e. menu), en Google hefur verið að fasa hann út og er hætt að nota annað en snertitakka. Að okkar mati þá gagnast valmyndartakkinn margfalt betur á snjallsíma en yfirlitsmynd forrita. Takkinn til að kveikja á skjánum er vel staðsettur á hægri hliðinni, en margir framleiðendur (HTC og LG) setja þann takka efst á símann sem virkar illa á svo stórum símum. Takkinn til að hækka og lækka hljóðið er hinsvegar ekki alveg nógu vel staðsettur á vinstri hliðinni og rakst ég oft í hann við notkun. Í heildina þá er þetta besta hönnun takka sem við höfum rekist á og slær út bæði Lumia 900 og HTC One X.

Samsung þróar sitt eigið viðmót ofan á Android sem kallast TouchWiz. Það er ekki jafn stílhreint og fallegt eins og óbreytt Android (e. stock), en reynir að nýta sér skjátæknina (Super AMOLED) með björtum og ýktum litum. Það er hinsvegar vel nothæft og býður upp á ýmsa skemmtilega eiginleika eins og S-Voice og appið Flipboard. S-Voice svipar til Siri appsins frá Apple sem hægt er að tala við.  S-Voice mun þó ekki gagnast Íslendingum mikið þar sem það skilur ekki íslensku. Það er þó hægt að nýta sér appið til að leita eftir hlutum á ensku eða hringja í tengiliði með því að gefa þeim ensk nöfn. Flipboard er mjög skemmtilegt app sem setur allt þitt fréttaefni og samskiptavefi upp eins og glanstímarit. Læsingarskjár símans er sniðugur og býður upp á að birta veður, aflæsa beint í yfirlit ósvaraðra símtala eða smáskilaboða og margt fleira. Allt annað sem fólk þekkir af snjallsímum er í boði eins og: tölvupóstur og dagatal

Viðmótið gerir hinsvegar lítið til að koma til móts við stærð símans, þannig getur verið erfitt að draga niður tilkynningargardínuna (e. notification window) og nota símahluta símans. Þegar talað er um stærð síma þá skiptir mestu máli að maður getur gert sem flestar aðgerðir með einni hendi. Því miður er það ekki svo með SIII.  Í símavaldmyndinni er skipt á milli símaskráar, mest hringt í, símtalsskrár og lyklaborðs með fjórum hnöppum sem Samsung setur efst á skjáinn. Það er nánast ómögulegt að ná til þessara hnappa með þægilegu móti ef aðeins ein hendi er notuð. HTC hugsar út í þetta á One X og hefur þessa hnappa mun neðar. Google hugsaði líka út í þetta í Android 4.0 (ICS) því á Galaxy Nexus er hægt að skipta á milli þessa glugga með því að skima hratt til vinstri eða hægri. Ef þessir stóru símar eru framtíð Android þá þarf Samsung (og Google) að hanna stýrikerfið með þetta í huga og færa algengustu aðgerðir neðar á skjáinn.

Samsung hefur tekist vel með að nýta sér hreyfingar til að framkvæma aðgerðir. Það er hægt að strjúka yfir allan skjáinn með lófanum til að taka skjáskot, slá hann létt að ofan til að hoppa efst í langan lista eða setja alla hendina yfir símann til að stöðva myndbandsafspilun. Það hefði samt verið kjörið að nýta sér slíkar hreyfingar til að draga niður tilkynningargluggann eða hoppa á milli valmynda í símahlutanum.

 

Skjár og myndavél

Mikið hefur verið fjallað um skjáinn á SIII því Super AMOLED skjárinn sem  hann notar er með Pentile pixlatækni. Án þess að fara mjög djúpt í tæknina á bak við farsímaskjái þá er gallinn við pentile sá að litadreyfing er ójöfn og myndin verður ekki eins góð. En hvað varðar SIII þá skiptir þetta afskaplega litlu máli því skjárinn er mjög góður og með háa upplausn. Super AMOLED skjár eiga það einnig til að sýna mjög ýkta liti og er blái liturinn mjög ríkjandi, sérstaklega þegar skjárinn sýnir mikið af hvítum lit.

Sjálfvirka birtustillingin er hinsvegar mjög léleg. Í flestum tilvikum stillir hún birtuna lægra en okkur þótti þægilegt. Skjárinn er hinsvegar ekki eins góður og á HTC One X símanum, sem er án efa með besta skjáinn á nokkrum snjallsíma í dag. Við tókum einnig eftir því að skjárinn þoldi illa sólskin. Við tókum símann með niður í bæ á Sjómannadaginn og ætlaði að taka myndir og það reyndist of erfitt þar sem við sáum lítið á skjáinn.

Eins og nánast allir símar í hæsta gæðaflokki kemur SIII með tveimur myndavélum. Sú á framhliðinni er 1.9 MP með sjálfvirkan fókus (e. autofocus). Hún tekur skýrar og góðar myndir og virkar vel í myndsímtölum. Myndavélin á bakhliðinni er hinsvegar aðalmálið. Til að gera langa sögu stutta þá er myndavélin á bakhlið SIII einfaldlega besta símamyndavélin sem í boði er í dag. Hvorki iPhone 4S eða HTC OneX eiga séns í hana. Hún tekur góðar myndir og virkar vel við léleg birtuskilyrði. Sá sem kaupir SIII getur selt sína heimilismyndavél á bland.is því hún er óþarfi. SIII tekur einfaldlega frábærar myndir. Myndavélin er með snertifókus (e. tap to focus) sem virkar mjög vel til að ná einhverju ákveðnu í fókus.  Myndavélin tekur einnig myndbönd í fullri HD upplausn (1080P) á 30 römmum á sekúndu sem koma vel út. Myndavélin fær því toppeinkunn hjá okkur.

Niðurstaða

Samsung er nú fyrsta fyrirtækið annað en Apple sem nær að fanga athygli heimsins með frábærum síma. Þeir eru að tikka við öll boxin í markaðssetningu og eru búnir að skapa mikla eftirvæntingu. Margir hafa beðið í ofvæni eftir símanum og er nú þegar búið að panta 9 milljónir tækja frá Samsung. Það eru reyndar ekki tæki seld í forsölu, heldur forpantanir frá söluaðilum. En það er augljóst hvað veldur þessari miklu athygli: SII var frábær sími (svo frábær að við hjá Simon.is völdum hann síma ársins 2011) og með SII eignaðist Samsung marga dygga aðdáendur. Ef þú kannt vel við Android síma frá Samsung þá ertu á heimavelli og færð einfaldlega frábæran síma og verðugan arftaka SII.  Margir munu pæla mikið í því hvort þeir eigi að fá sér SIII eða HTC One X. Við erum sjálfir í vandræðum með að gera upp á milli þeirra en eitt er víst: Galaxy SIII er öflugri og býður upp á meira (microSD, stærri skjá, þróaðri hugbúnað).

Kostir 

 • Stór og flottur háskerpuskjár
 • Öflugasti síminn í dag
 • Frábær myndavél
 • Flott hönnun
 • Besta stýrikerfið í dag

Gallar

 • Erfitt að nota með einni hendi sökum stærðar
 • Allur úr plasti
 • Mjög dýr

Simon mælir með Galaxy SIII og gefur honum þá hæstu einkunn sem við höfum gefið: 8,6.

Höfundar eru Atli Stefán og Gunnlaugur Reynir

 

Simon.is á fleiri miðlum

3 replies

Trackbacks & Pingbacks

 1. […] tiltekið var gerður samanburður á myndum úr Samsung Galaxy myndavél og Galaxy SIII, iPhone 5 og Nokia 808 Pureview snjallsímum auk Galaxy note […]

 2. […] ekki snjallsímar), góðri endingu rafhlöðu og svakalegum afköstum. Skoðið umfjöllun okkar hér. Síminn fæst á 120 þúsund krónur hjá flestum smásölum og fjarskiptafélögum og […]

 3. […] slær þó út flestar 7″ Android spjaldtölvur á markaði. Ég bar þennan skjá við Samsung Galaxy S3 og HTC One X og tók eftir því að það munar talsvert í birtu. Tölvan er með minni birtu en […]

Comments are closed.