iPhone hrynur í verði á Íslandi
Nú rétt í þessu voru Vodafone og Síminn að senda frá sér fréttatilkynningar um að þau hafi náð samningum við Apple um sölu á iPhone á Íslandi. Þetta þýðir að hér eftir munu allir nýjir Apple símar koma til landsins á skikkanlegum tíma og á eðlilegu verði. Hingað til hafa símtækin verið keypt eftir krókaleiðum á öðrum mörkuðum. Það er ljóst að iPhone mun hrynja í verði hér á landi. iPhone 5S mun kosta 109.900 kr. hjá Símanum og Vodafone. Það er lækkun upp á um 50.000 kr. iPhone 5C mun kosta 92.900 kr. hjá Símanum og 94.900 kr. hjá Vodafone. Bæði fyrirtækin selja svo iPhone 4S á 69.990 kr. iPhone 5S og 5C munu styðja 4G kerfi Vodafone. Síminn minnist ekki á 4G en líklegt er að sama verði upp á teningnum þar. Hvað Nova gerir er óljóst en ekki er ólíklegt að duglegur farandsölumaður Apple hafi landað samningum við öll fyrirtækin í einu. Má því allt eins búast við tilkynningu frá Nova fljótlega. Þetta eru frábærar fréttir fyrir íslenska Apple notendur og ljóst hvað verður undir jólatrénu á mörgum íslenskum heimilum þessi jólin.
Uppfært 29.11 kl. 09:52: Nova hafa nú einnig tilkynnt samstarf við Apple. Ekki eru komin nein verð á símana þar. Lív Bergþórsdóttir,forstjóri Nova, segir í samtali við Vísir.is að ekki sé ljóst með 4G aðgang og sé það undir Apple komið. Heimildir Símon.is herma að Apple hafi farið fram á tekjuskiptasamning af 4G notkun. Orð Lív eru vísbending um það að Nova hafi ekki verið tilbúið að samþykkja kröfur Apple, a.m.k. ekki strax.
Uppfært 29.11 kl. 10:17: Símarnir verða seldir ólæstir og án skuldbindingar.
Uppfært 29.11 kl. 13:57: Lív Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, hafði samband við okkur og vildi koma því á framfæri að það er ekki rétt að Apple hafi farið fram á tekjuskiptingu til þess að hægt sé að opna á 4G. iPhone símar Nova munu styðja 4G um leið og Apple opnar fyrir það. Sama gildir um hin íslensku símafyrirtækin. Ekki er búið að taka endanlega ákvörðun um verð á iPhone 5S/5C/4S hjá Nova. Verðið verður kynnt fljótlega og verður vel samkeppnishæft við það sem hin símafyrirtækin eru að bjóða.