Nexus 7 (2013) umfjöllun

Fyrir mér var Nexus 7 fyrsta spjaldtölvan sem náði eitthvað að klóra í iPad. Allar Android spjaldtölvur fram að henni voru að mínu mati drasl. Android Honeycomb (Android 3.X) var mjög sérstök útgáfa, sem var þróuð í samvinnu með Motorola fyrir XOOM spjaldtölvuna. Það var slæmt viðmót ofan á stýrikerfi hannað fyrir síma og var þar að auki uppfullt af villum. Enda var það fasað út fram að Nexus 7 eftir nokkrar slappar útgáfur. Það komu nokkrar arfaslakar spjaldtölvur með Honeycomb og vil ég helst ekki muna eftir þeim. Nexus 7 var hetjutæki, sem lagði niður línurnar. Með henni kom Jelly Bean (4.1), fyrsta Android útgáfan sem kom til móts við stærri skjái. Svona átti að gera þetta og það ódýrt. Fyrsta Nexus 7 tölvan fékk mjög góða dóma frá okkur í Simon og nokkrir í hópnum sem keyptu hana (m.a. ég og Axel Paul). Hún fékk þó mikla gagnrýni fyrir tvennt: hægt vinnsluminni og slæma stýringu á geymsluplássi. Það fyrra er ekki hægt að laga og það seinna var lagað með hugbúnaðaruppfærslu. Það voru einnig nokkur atriði sem hefðu mátt betur fara. Ætli Google hafi lagað öll þau atriði með seinni útgáfunni?

Innvols

Nexus 7 hefur hefur fengið talsverða uppfærslu á innvols með 2013 útgáfunni. Örgjörvinn er einhver spes týpa af Snapdragon 600, sem hefur verið breytt þannig að hann verður eiginlega að Snapdragon 800 (samkvæmt Anandtech). Þetta er 1,5 gígariða fjórkjarna örgjörvi með 2GB af vinnsluminni (sem eru mun hraðvirkara en í 2012 útgáfunni). Hægt er að fá tölvuna með 16 eða 32GB geymsluplássi og er hægt að fá 3G/4G stuðning ofan á það eftir óskum. Hún er mjög hraðvirkt, en samt hægari en nýi Nexus 5 síminn sem er með betri örgjörva og minni.

Skjárinn

Skjárinn var ekki slappur á fyrri útgáfu, en á henni var 720p LCD skjár með nokkuð góða liti, sem voru aðeins þvoðir. Nýi skjárinn er nú með 1080p skjá og er því miklu skarpari. Hann er líka með mun betri liti og svartari svartann. Spjaldtölvan er því með 323 pixla per tommu (e. ppi) og skilar mjög góðri mynd. Ég nota minn aðallega í lestur og vöfrun, og hann kemur mjög vel út.

Nexus-7-2013

Rafhlaðan

Rafhlaðan er minni en á 2012 útgáfunni (3950 mAh). En endingin er miklu betri og þá aðallega þökk sé betra innvolsi og hugbúnaði (reklum aðallega). Það er búið að fínpússa allt saman í þessu tæki til að nota sem minnst rafmagn þegar tölvan er í bið (idle). Þetta skilar sér í mun lengri endingu sem er svipuð því sem við þekkjum af iPad. Þannig má segja að er sé mun betri yfir höfuð en á fyrri útgáfu (Anand segir 35% betri). Nexusinn er samt alltaf dauður á undan iPad mini spjaldinu mínu, sem endist alveg fáranlega lengi í biðstöðu.

Hönnun

Fyrri tölvan er nokkuð einföld í hönnum, en bara nokkuð fín. Hún komst fyrir í einni hendi auðveldlega og var þægileg viðkomu. Takkarnir voru helsta umkvörtunarefnið, sem virtust ódýrir og einfaldir viðkomu. Bakið var alsett hringlaga holum, sem var öðruvísi en samt þægilegt. Nýja tölvan er þynnri, fallegri og mun látlausari. Það er ekkert sérstakt við hana útlitslega, fyrir utan einfaldleikann. Hún er svört, með mjúku plasti í kringum skjáinn og er með þremur tökkum (ræsa og hljóð). Framan á tölvunni er bara skjár og smá pláss fyrir þumla uppi og niðri. Efst er 1,2 megadíla myndavél fyrir sjálfsmyndir og vídeó spjall. Neðst er ljós fyrir tilkynningar. Aftan á bakinu er nexus logo, Asus logo og 5 megadíla myndavél. Myndavélin á bakinu er ný og var ein helsta gagnrýni margra, sérstaklega í samanburði við iPad. Ég finn engan mun og hef tekið samanlagt þrjár myndir, enda eiga spjaldtölvur ekki að vera notaðar fyrir myndatökur.

nexus-7-2013-5

Viðmót

Nexus 7 hefur ekki mikið breyst í viðmóti frá fyrri útgáfu, þar sem hér er um að ræða “hreint Android”.  Við höfum nokkrir í hópnum keypt okkur nexus 7 2013 og erum allir mjög heillaðir af viðmótinu og hve þægilegt það er. Gripurinn hefur Nexus stimpilinn á sér frá Google og er því í meðhöndlun eins og Google vill að upplifunin á Android sé og fær uppfærslur um leið og þær eru gefnar út af Google.

Niðurstaða

Þetta er frábær spjaldtölva, sérstaklega í samanburði við fyrri nexus 7. Hún er mun hraðari, með betri skjá, þynnri og fallegri. Hún er ódýr (sérstaklega erlendis) og býður upp á gott virði. Apple hefur þó nýlega séð að það er mikill áhugi fyrir þessum minni spjaldtölvum og séð sér leik og gefið út sitt eigið eintak. iPad Mini Retina hefur þó fengið verri dóma en bæði Nexus 7 vélin og Kindle Fire HDX þá einna helst út á skjáinn og lita birtu. Við reynum þó að renna yfir þessa gripi bráðlega og gefa ykkur okkar skoðun á þeim, en eins og er mælum við eindregið með Nexus 7 fyrir ykkur sem eruð að leita ykkur að 7″ spjaldtölvum.

Simon gefur Nexus 7 2013 fjóra og hálfa stjörnu af fimm mögulegum. Frábært tæki, en við værum til í sömu rafhlöðuendingu og á iPad.