IKUE nýr þrautaleikur í iOS frá íslensku fyrirtæki
Á dögunum gaf Gebo Kano, sem er íslenskt hugbúnaðarhús, út iOS leikinn IKUE. Leikurinn er þrautaleikur (eða heilabrotsleikur) sem er býsna áhugaverður.
Í stuttu máli gengur leikurinn út á raða formum, sem eru sett saman úr punktum, inn í tiltekið borð. Einfaldast er að segja að maður sé að púsla. Í byrjun eru borðin frekar einföld, á meðan maður er að ná tökum á leiknum en svo verður þetta erfiðara og erfiðara og getur orðið mjög krefjandi og reynt á heilann þegar líður á.
Leikurinn hefur virkilega fallega hönnun. Á meðan maður spilar hljómar undir róandi og falleg tónlist sem mér líkaði ágætlega. Það er að sjálfsögðu hægt að slökkva á tónlistinni og öðrum hljóðum kjósi maður svo.
Grunnpakki leiksins er ókeypis með auglýsingum (kostar $1,24 eða um 140 kr. að losna við auglýsingar). Í grunnpakkanum eru 100 borð sem endast í einhvern tíma en mig grunar að borðin klárist á nokkrum dögum eða vikum þegar maður er dottinn í gírinn. Þegar maður er búinn að klára grunnpakkann getur maður keypt expert pakka á 140 kr.
Ég er hef nokkuð gaman af þessum leik. Það er eitthvað við svona þrautaleiki sem gerir mann háðan spilun. Eins og svo margir þrautaleikir þá er þetta flottur leikur til að grípa í þegar maður á dauða stund, hvort sem það er á klósettinu eða í biðröð eða í strætó. Hvert borð tekur ekki of langan tíma í spilun (ekki hingað til!) og það er lítið mál að hætta í miðjum leik og byrja borðið upp á nýtt næst þegar maður vill spila.
Það er frekar mikill munur á upplifun á leiknum í iPad og í iPhone (líka hægt að spila á iPod Touch). Skjárinn nýtist ekki nægjanlega vel í símanum að mínu mati og má varla við því þegar skjárinn er svona lítill. Mögulega (líklega) er þetta skárra í 5 og 5S sem hafa stærri skjái en ég hefði viljað sjá hönnuðina nýta skjáinn í símanum betur. Leikurinn er svolítið flókinn til að byrja með, á meðan maður er að átta sig á honum og munar þá mjög miklu að vera í leiknum í spjaldtölvu. Þegar maður er búinn að átta sig á leiknum og aðeins kominn af stað gengur alveg ágætlega að spila hann í símanum. Maður þarf líka aðeins að komast upp á lagið með að setja staka punktinn á sinn stað þegar maður spilar í símanum, því maður sér hann lítið ef nokkuð þegar maður dregur hann til. Þið þurfið að spila leikinn í síma til að átta ykkur á því hvað ég á við með þessu.
Samantekið þá er þetta fínn leikur og sérstaklega gaman að sjá flotta leiki frá íslenskum fyrirtækjum. Það tekur smá tíma að átta sig á leiknum og komast í gírinn. Eftir nokkrar mínútur er maður kominn á skrið og er farinn að spila á fullu. Og ég mæli með því að þið spilið leikinn á iPad ef þið hafið á annað borð val þar um.
Myndband sem sýnir hvernig leikurinn er spilaður [youtube id=”S83tFaYJNiA” width=”600″ height=”350″]