Lumia 520 – örumfjöllun

Við hjá Símon leggjum mikinn metnað og vinnu í okkar umfjallanir. Það er gott fyrir lesendur en gallinn er að við erum of fáliðuð til þess að geta fjallað um alla síma sem koma út. Örumfjallanir eru tilraun til þess að bæta úr því. Þær munu koma út um sem flesta síma í lægri verðflokkum. Þær verða um eða undir 300 orð og eiga að taka saman kjarnann í því sem gott og slæmt við tækin.

Lumia 520 er, að mörgu leiti, mikilvæagasti snjallsími Nokia (og nú Microsoft). Hann er ekki eins glæsilegur og Lumia 925, ekki með (vægast sagt) jafn góða myndavél og 1020 né eins stóran skjá og 1520 en hann hefur einn mikilvægan punkt: hann selst betur en allir hinir. Lumia 520 er sá sími sem laðar nýja notendur að Windows Phone.

Snilld: Allir kostir lumia 520 eru „miðað við verð“ en verðið er einmitt stærsti kostur símans. Hann kostar 29.990 kr hjá helstu söluaðilum. Hann fer vel í hendi og er vel byggður og er til í mörgum, björtum, litum. Það er ekki jafn falleg hönnun og á 625 eða 920 en hún betri en á flestum öðrum símum í þessum verðflokki.  Skjárinn er einnig mun betri en á öðrum símum á sama bili.  Stýrikerfið keyrir mjúklega án hökts eða hiks. Sama er ekki hægt að segja um alla leiki eða forrit sem ég prófaði en þau keyrðu flest þolanlega. Microsoft sannar það með Lumia 520 að Windows Phone er virkilega vel uppsett stýrikerfi sem keyrir vel á eldri vélbúnaði.

Drasl: Myndavélin er frekar slöpp. Hvort hún er 10% betri eða verri en hjá öðrum símum í sama verðflokki skiptir ekki öllu máli. Hún nýtist illa nema í allra bestu birtuskilyrðum.  Skortur á mörgum vinsælum öppum í WP app store er ennþá galli, þó lykilöpp bætist reglulega við. Mest er þetta áberandi með íslensk öpp sem eru í miklum meirihluta ófáanleg. T.d. er ekkert af öppum 365 í boði, já.is né Kjarninn. Einnig vantar ennþá íslenskt lyklaborð, sem er farið að verða vandræðalegt.

Niðurstaða: Einn allra besti síminn á minna en 30.000 kr. sem fáanlegur er í dag. Skortur á öppum er vandmál en flest öpp eru hinsvegar í boði. Góður valkostur sem fyrsti snjallsími.

Lumia 520 fær 3,5 / 5 stjörnur.