Hvað er Google Pixel?
Google staðfesti þær sögusagnir sem höfðu verið sett á kreik fyrir nokkrum vikum að Pixel tölvan er í raun og veru til. En hvað er Pixel?
[youtube id=”d2dhMKSKGBg” width=”600″ height=”350″]
Pixel er tölva hönnuð alveg af Google, hægt er að segja að Pixel sé PC útgáfan af Nexus snjallsímalínunni. Nexus símana má kalla einskonar sýnishorn Google fyrir framleiðendur um hvert skal almennt stefna í þróun snjallsíma fyrir Android. Að sama skapi er Pixel hönnuð sem viðmið fyrir tölvuframleiðendur og vísbending Google hvert skal stefna í þeim málum.
Tölvan kemur með snertiskjá sem er með 2560 x 1700 upplausn, eina tölvan í framleiðslu í dag sem kemur nálægt því eru Apple tölvur með Retina Display tækni. Einnig eru hlutföllin öðruvísi á skjánum, en hún er í 3:2 hlutföllum í stað 16:9 sem er algengast í dag. 3:2 hlutföllin heta betur fyrir notendur til að lesa og skoða heimasíður frekar en annað. Örgjörvinn er öflugur, en þar er að finna tvíkjarna 1,8 GHz Intel i5 örgjörva sem er margfalt öflugri en venja er að finna í tölvu sem keyrir ChromeOS að staðaldri. Tölvan kemur með 4 GB í vinnsluminni og Intel HD 4000 skjástýringu eins og í flestum sambærilegum tölvum. Tölvan getur keyrt myndbönd í HD, þó eru fregnir af hægagangi þegar myndbönd eru keyrð af harða disknum, en það er líklega hægt að skrifa á spilara eða rekla sem verður lagfært með uppfærslu.
Tvennt ber þó af þessari tölvu, en það er þyngdin annarsvegar og hönnuni hinsvegar. Tölvan er 1,5 kilogrömm á móts við 1,36 sem Macbook Air frá Apple er, sem dæmi. Umgjörðin og hönnunin virðist vera með þeirri bestu sem gerist í tölvum, en það er sjaldan sem tölva kemur út sem nálgast Apple í einfaldleika og útliti.
En svo kemur það sem hvað flestir kvarta um en það er verðmiðinn á tölvunni. Tölvan mun kosta $1.299, en með 3G/4G möguleika mun hún kosta $1.449 í Bandaríkjunum, sem gerir um 160 til 180 þúsúnd krónur.
Þeir sem þekkja til ChromeOS stýrikerfisins munu hingað til hafa hugsað um tölvu sem hefur lítið sem ekkert minni og ekkert sérstaklega öflugan örgjörva. Með Pixel er Google að kynna fyrstu skrefin í þeirri þróun að gera ChromeOS að alvöru stýrikerfi fyrir almenna notendur. Það hafa margir hlaupið til eftir þessa tilkynningu og hrópað hástöfum að verðmiðinn sem fylgir tölvunni sé of hár fyrir einfaldan vafra. En þar liggur misskilningur manna ef þeir halda að ChromeOS sé fyrir almenna notendur. Google er að hanna þessa tölvu fyrir aðra tölvuframleiðendur sem munu á næstunni hanna tölvur fyrir ChromeOS og Google mun biðja þá um að nota Pixel sem fyrirmynd í þeim efnum, eins og þeir gerðu með Nexus línuna fyrir snjallsíma. Einnig opnar þetta á nýja stefnu fyrir Google í hönnun á ChromeOS sem mun taka miklum breytingum á næstunni, en fyrst þurfti að opna vettvanginn fyrir þeim breytingum með stefnubreytingu í hönnun á tölvum sem munu keyra ChromeOS.
Þessar tölvur munu líklega einar og sér ekki seljast í mörgum eintökum, en allt fjölmiðlafárið í kringum tölvuna sjálfa er Google enn verðmætara en salan. Sögusagnir eru einnig á kreiki að tölvan muni vera gefin þeim sem munu fara á I/O ráðstefnu Google, en hefðin er sú að forritarar sem leggja leið sína þangað ganga út klyfjaðir af því nýjasta sem er í boði frá Google, enda eru þeir frekar markhópurinn í þessari fyrstu kynslóð sem við sjáum af Pixel.