Samsung Galaxy S4 umfjöllun: Konungur snjallsímanna?

Samsung Galaxy S4 er nýjasta flaggskip Samsung. Þetta er Android snjallsími í topp klassa og tekur við af hinum geysivinsæla Galaxy S3. Samsung tekur mjög virkan þátt í spekkastríðinu svokallaða  með þessum síma og er síminn meðal annars með fimm tommu skjá með fullri 1080p háskerpu, 13MP myndavél, fjórkjarna 1,9 GHz örgjörva og 2GB vinnsluminni. Þetta er því topp innvols og á síminn að geta unnið hratt og vel.

[youtube id=”RZbKSoFi-6I” width=”600″ height=”350″]

Síminn er fullhlaðinn af eiginleikum sem eru byggðir á hugbúnaði og skynjurum símans. Síminn notar myndavélina að framan til að fylgjast með hvert þú horfir og getur slökkt á skjánum þegar þú lítur frá honum eða skrollað fyrir þig þegar þú horfir niður eða upp. Þú getur líka stýrt skjánum án þess að snerta símann með hjálp birtuskynjarans og veifað fyrir framan símann til að framkvæma ýmsar aðgerðir. Þetta eru skemmtilegir eiginleikar, en þeir reynast illa við raunverulegar aðstæður. Hreyfingarnar þurfa að vera mjög ýktar til þess að síminn nemi þær og þær virka ekki alltaf. Þetta sást best við prófanir á augnaskrollinu, þar sem síminn hætti oftast ekki að skrolla fyrr en síðan var búin. Það er ekkert mál að tengja símann við nýleg Samsung sjónvörp og spegla myndir og myndbönd yfir. Síminn býr einnig yfir heilum her af öðrum eiginleikum eins og öryggisafritun, staðsetningu símtækis og mörgu fleira. Það bitnar á lausu plássi símans, því á 16BG útgáfunni eru einungis 9 GB laus.

uk_GT-I9505ZWABTU_005_Left-Angle_white

Hönnun

Síminn er örþunnur og léttur. Hann er búinn til úr plasti sem gerir hann sleipan og verða hendur manns oft þvalar við að halda á honum. Hann er því ekki sá þægilegasti í hendi. Ofan á það þá er skjárinn frekar stór og mjög erfitt er fyrir marga að nota 5 tommu síma einhendis. Takkavalið er þó frábært, neðst á framhliðinni er alvöru takki til að komast heim, start-takki er á hægri hlið og takki til að stýra hljóðstyrk á þeirri vinstri. Takkinn til að fara til baka er líka hægra megin, á réttum stað, ólíkt svo mörgum öðrum símum þar sem hann er staðsettur vinstra megin. Rafhlaða símans endist nokkuð vel, en hefði getað dugað lengur ef örgjörvinn væri ekki yfirklukkaður upp í 1,9GHz. Hún endist engu að síður út heilan dag við mikla notkun sem er mjög fínt.

 

uk_GT-I9505ZWABTU_008_Back_white

Viðmót

Viðmót símans er ýkt og kjánalegt. Litirnir eru sterkir, allt er skalað upp og sprengt upp. Síminn kemur nær ónothæfur upp úr kassanum og þarf að stilla hann í um hálftíma áður en síminn er orðinn eins og maður vill hafa hann. Mörg skjátæki eru foruppsett, þau taka óþarfa pláss og hafa áþreifanleg áhrif á hraða viðmótsins. Á læsingarskjánum er líklega tilgangslausasti texti sem við höfum séð, eða “Life companion”, sem er nokkuð skondið þar sem þú munt líklega skipta símanum út innan tveggja ára. Það er hinsvegar ekkert mál að stilla þetta allt til og setja upp nýtt viðmót eins og Nova launcher. Viðmótið kemur á íslensku en er ekki næstum því jafn vel þýtt og á Sony Xperia Z. Stundum eru hugtök og eiginleikar hálfþýddir og ekki samkvæmir sjálfum sér. Til dæmis kemur stundum fyrir að Air Gesture sé kallað Flot og stundum Air Gesture. Lyklaborðið í símanum er með góðum íslenskustuðningi og er byggt á einu besta lyklaborði sem til er á Android, SwiftKey. Samsung hefur þó tekist að taka besta lyklaborðið og gera það hálf glatað. Það er ekki hægt að stilla það næstum því jafn mikið og er búið að taka burt marga þægilega eiginleika, eins og til dæmis að renna beint í kommur eða punkta. Lyklaborðið er þó ágætt, en við mælum frekar með að nota appið SwiftKey (sem þetta lyklaborð er byggt á).

Síminn afkastar nokkuð vel, fyrir utan smá hökt hér og þar í viðmótinu sem kom á óvart. Síminn er greinilega drekkhlaðinn eiginleikum og má ekki við meiru. Vonandi kemur uppfærsla á þetta hökt frá Samsung mjög fljótlega. Síminn styður 4G sem fer í loftið hvað úr hverju hér á landi, sem býður upp á blússandi hraða.

Myndavél

Myndavélin er sú besta sem við höfum séð, nema þegar myndir eru teknar við slæm birtuskilyrði. Þar bera Nokia Lumia 920 og HTC One af. Í öllu öðru á S4 sigurinn. Myndirnar eru ótrúlega skarpar og góðar og er myndavélaviðmótið uppfullt af eiginleikum. Það er helst til nokkuð flókið og endar maður oftast á því nota sjálfvirku stillinguna. Hægt er að taka myndir eða myndbönd samtímis með báðum myndavélum, en við getum þó ekki ímyndað okkur að neinn sé að fara að nota það reglulega. Það er líka hægt að taka myndir á meðan maður tekur upp myndband.

Niðurstaða

S4 er svakalegur sími… á pappír. Spekkarnir eru flottir, skjárinn kristaltær og myndavélin ein sú besta, en viðmótið er óþægilegt og hönnun ytra byrðisins ekkert spes. Það er hreinlega kjánalegt að síminn sem á að teljast einn sá besti í heiminum sé að hiksta og hökta. Síminn er ekkert svakalegt stökk frá S3 og þeir eru nær óþekkjanlegir í sundur hlið við hlið. Upplifunarlega séð þá er varla munur. Það má segja að Samsung hafi tekið Apple á þetta og gefið út Galaxy S3S. Síminn er mjög þéttur, en ekkert  sérstaklega spennandi og lítið stökk fram á við. Samsung þarf að hysja upp um sig brækurnar fyrir næsta flaggskip, en S4 getur ekki talist The Next Big Thing.

Kostir

  • Skarpur skjár með góðum litum
  • Ein besta myndavélin í dag
  • Keyrir á Android 4.2

Gallar

  • Uppfullur af óþarfa hlutum sem hægja á símanum
  • Tekur marga góða möguleika úr Android og skiptir í verri
  • Hallærislegt viðmót

Simon gefur Galaxy S4 4 af 5 stjörnum mögulegum.