óhAPPið: einfaldari tjónaskýrslur með snjallsímanum

óhAPPið er nýtt app á vegum Áreksturs sem auðveldar þeim sem lenda í umferðaróhappi að leysa úr sínum málum. Fyrir þá sem ekki vita er Árekstur óháð fyrirtæki sem sérhæfir sig í vettvangsrannsóknum umferðaróhappa. Árekstur mætir frítt á staðinn og tekur ljósmyndir og vinnur tjónaskýrslu fyrir þá sem hafa lent í umferðaróhappi. Þeir senda skýrsluna síðan á tryggingafélögin og sleppur fólk því við vesenið að þurfa að díla við tjónaskýrslur og tryggingafélög.

óhappid-poster

óhAPPið, með sínu rándýra nafni, er sáraeinfalt app sem er hægt að nota til þess að setja sig í samband við Árekstur. Ef þú lendir í umferðaróhappi og ert á höfuðborgarsvæðinu geturðu náð beinu sambandi við Árekstur í gegnum appið. Þeir mæta á staðinn, taka myndir og skrifa skýrslu og sjá svo um að senda fullunna tjónaskýrslu til tryggingafélaganna. Verði umferðaróhappið hinsvegar utan opnunartíma Áreksturs eða annarstaðar en á höfuðborgarsvæðinu er hægt að senda þeim þær upplýsingar sem þarf til þess að vinna tjónaskýrsluna beint úr appinu.

Þar er einfaldlega smellt á takkann ‘Gera tjónaskýrslu’ og eru notendur þá leiðbeindir skref fyrir skref hvað skal gera. Í fyrsta skrefinu tekur á að taka tvær ljósmyndir af árekstrinum, í næsta skrefi þarf að setja inn persónuupplýsingar og í því síðasta eru grunnupplýsingarnar sem þarf fyrir tjónaskýrsluna settar inn. Appið sér svo um að senda upplýsingarnar og ljósmyndirnar til Áreksturs sem vinnur svo úr þeim og sendir fullunna tjónaskýrslu á tryggingafélagið þitt.

ohappid-screenshot

Það þarf ekki að eyða fleiri orðum í óhAPPið, því einfaldara gerist það ekki. Appið gerir nákvæmlega það sem það á að gera og er ekki með neinu skrauti. Það er reyndar fréttaveita á forsíðunni á appinu sem er tekin frá Árekstur.is. Hún hefur reyndar ekki verið uppfærð síðan í janúar, en með nýja appinu ættu fleiri uppfærslur vafalaust að berast. óhAPPið er gott að hafa á símanum fyrir þá sem vilja vera með öryggið á oddinum þegar kemur að umferðaróhöppum.

Appið er frítt og má nálgast fyrir Android á Google Play Store og fyrir iPhone í App Store. En er ekki komið í ljós hvort appið komi á Windows Phone, en miðast það sennilega að því hversu vinsælt appið verði.
Þjónusta Áreksturs er frí fyrir viðskiptavini Sjóvá, Tryggingamiðstöðvarinnar, Vátryggingafélags Íslands og Varðar.