Sony Xperia Z Ultra – Spjaldsími

Þetta er nú meira tryllitækið. Við vitum ekki hvort þetta sé sími eða spjaldtölva. Xperia Z Ultra er stærri útgafan af Xperia Z með 6,4” skjá. Sem er aðeins minna en 7” spjaldtölvurnar. Z Ultra kemst eiginlega ekki fyrir í vasa og gægjist síminn aðeins upp úr. Það er þó ekki mikið mál að halda á símanum einhendis. Við ætlum því ekki að fjalla um Z Ultra í samanburði við síma né spjaldtölvur. Við ætlum að tala um Z Ultra sem almenna græju.

Aðeins um tækið

Þetta er örþunnt tæki með glæsilegum 6,4” FHD skjái (1080×1920 upplausn). Það er vatns- og rykhelt. Það keyrir á Android og nýtir sér símaviðmótið fyrir Xperia línuna. Það er sími í tækinu og er því ekkert mál að hringja, senda SMS og vafra um netið á 4G hraða. Tækið er í raun nógu stórt til að nota sem spjaldtölvu og hentar skjárinn frábærlega í lestur og myndbandsgláp. Það eru rakvélablaðsþunnir kanntar á lengri hliðunum en á þeim styttri er smá pláss fyrir þumla sitthvoru megin við skjáinn. Breiddin á símanum langsum er nokkuð fín og auðvelt er að halda á tækinu einhentur. Það er þó aðeins erfiðra að nota viðmótið einhentur.

Innvols

Það er skuggalega hraður örgjörvi í Z Ultra: Snapdragon 800 (sem er líka í Xperia Z1 og LG G2). Viðmótið er nánast hnökralaust og vafrinn sjúklega hraðvirkur. Það er líka 8 megadíla myndavél í símanum sem tekur skarpar og flottar myndir. Svo er nóg af öllu öðru: 2GB vinnsluminni, allt að 64GB pláss og mSD rauf.

6.4-Sony-Xperia-Z-Ultra-unveiled

Skjár

Skjárinn er frábær og hentar vel í myndbönd og vöfrun. Mér fannst líka mjög þægilegt að lesa af skjánum. Stærð á skjá og stærð í hendi skiptir máli þar. Allt í kringum skjáinn er líka fáranlega nett í hendi.

Niðurstaða

Þetta er alger lúxus spjaldtölva. Líklega besta Android spjaldtölvan sem ég hef notað. Svo er þetta líka sími, sem er reyndar aðeins of stór samt. Það öskrar allt gæði við þetta tæki, en markhóparnir eru mjög óljósir og takmarkaðir. Þetta er því ekki sími sem er hægt að mæla með, en ég myndi klárlega mæla með tækinu fyrir græjusjúklinga sem vilja meðfærilega og flotta spjaldtölvu.

Kostir

  • Frábær skjár
  • Falleg hönnun
  • Vatns- og rykheldni
  • Skuggalega hratt tæki

Gallar

  • Of stór í vasa
  • Klunnalegur við einhendisnotkun

Simon gefur Sony Xperia Z Ultra þrjár og hálfa stjörnur af fimm mögulegum. Skemmtilegt tæki fyrir græjusjúka, en dýr spjaldsími.