Mogginn og Appið

Í gær kynnti Morgunblaðið með miklum látum nýtt app fyrir iPad. Á sama tíma kynntu þeir einnig tilboð þar sem iPad fylgir sérstökum iPad áskriftum ef gerður er 30 mánaða raðgreiðslusamningur. Þetta er í takt við það sem mörg dagblöð víða um heim hafa gert á síðustu árum til að bregðast við hruni í áskriftarsölu og lestri. Vandamál dagblaða um allan heim eru augljóst: gríðarlegt framboð af vönduðu efni frítt á netinu. Íslensku blöðin eru engin undantekning frá þessu. Morgunblaðið horfir auk þess upp á það að stærsti samkeppnisaðilinn ber sitt blað frítt inn á flest heimili. Morgunblaðið vill augljóslega breyta þessari þróun og ná til lesenda sem hafa engan áhuga á því að fá dauð tré inn um bréfalúguna reglulega. Nálgun morgunblaðsins er hinsvegar mikil vonbrigði. Fyrir þá sem vilja geta lesið Moggann eins og hann er í iPad þá gerir appið það reyndar þokkalega. Appið er frekar einfalt: Ein valmynd þar sem blöð dagsins sjást og blöð síðustu daga og með einum hnappi er þeim halað niður. Blöðin eru svo sótt sem PDF skrár. Eitt pirraði mig þó við appið, þegar nokkrum síðum er flett í einu þá birtast síðurnar úr fókus fyrstu sekúndunar á meðan forritið hleður. Fyrir þá sem eru vanir að skima hratt yfir blaðið er þetta mjög leiðingjarnt og óþægilegt.

En stóru vonbrigðin við appið er einmitt það að þetta er sama Morgunblaðið og hefur verið hægt að sækja af mbl.is. Dautt PDF skjal án allrar gagnvirkni. Ekkert er gert til þess að nýta frábæra skjáinn sem iPad kemur með, engin myndbönd, engar hreyfimyndir heldur aðeins dauð ljósmynd af hverri síðu. Til dæmis er upplifunin að fara á mbl.is margfalt betri, þar eru vel unnin myndbönd sem bæta við texta fréttanna, áhugaverðir netþættir og myndaalbúm við greinar. Þetta er efnið sem Morgunblaðið á að pakka í vandaðar umbúðir og bæta við ítarlegum fréttaskýringum ásamt vönduðum viðtölum sem birtast einungis í prentuðu útgáfu blaðsins.

Þarna er kjarni málsins. Öll sú athygli sem appið hefur fengið sýnir okkur það að fólk hefur ennþá áhuga á gömlu dagblöðunum. Hvort það skili sér í aukinni sölu er erfitt að segja til um. Fyrir flestum er tilboð Moggans í raun raðgreiðslusamningur á nýjum iPad, vaxtalaust. Það að Mogginn fylgi frítt með er í raun aukaatriði, sérstaklega þegar hann er jafn óaðlaðandi og raun ber vitni. Það hlýtur að vera tilgangur þessa verkefnis að eftir þessa 30 mánuði hafi upplifunin af Morgunblaðinu verið það góð að áskriftin sé endurnýjuð. Ég er sjálfur áskrifandi af nokkrum blöðum í gegnum Appstore og myndi vel hugsa það að kaupa iPad áskrift af Morgunblaðinu. En til þess að risinn í Hádegismóum fái minn pening þá þarf hann að gera betur, miklu betur.

Appið má finna á App Store.

Simon.is á fleiri miðlum