Facebook kynnir nýtt app: Paper

Facebook tilkynnti í morgun nýtt app fyrir iPhone. Appið nefnist Paper og umbyltir Facebook upplifuninni til hins betra. Það er fyrsta appið sem er gefið út af nýrri deild innan Facebook sem kallast Creative Labs Appið tekur fréttastreymið (e. news feed) og birtir það á nýjan og glæsilegan máta. Appið snýst alfarið um efni og er því lögð áhersla á að myndir og texti séu birt á læsilegan og þægilegan máta. Þannig er hægt að fletta í gegnum fréttastreymið á sjónrænan hátt og njóta betur þess sem þar er að finna. Það eru nánast engir takkar í appinu og er því stjórnað nánast alfarið með flettingum.

[vimeo id=”85421325″ width=”600″ height=”350″]

Eitt það besta við nýja appið er að þegar að fréttir og aðrir áhugverðir tenglar birtast er hægt að fletta niður til þess að lesa fréttina innan í appinu. Þetta svipar mjög til Flipboard, en Paper virkar þægilegra en Flipboard fyrir þessa notkun. Facebook hefur lagt áherslu á að efni sé birt á sjónrænan máta og má því ímynda sér að notendur appsins fletti hægt og rólega í gegnum það efni sem birtist. Paper svipar mikið til Facebook Home, sem var upphafsskjár á Android sem tengdist beint við Facebook, en það app náði aldrei fótfestu hjá notendum. Paper virðist ekki ætla að falla í sömu gryfju og er eingöngu hugsað sem app, en ekki sem byltingarkennd leið til þess að breyta símanum í Facebook tæki. Facebook ætlar sér að gefa út fleiri öpp til þess að gera Facebook notkun enn betri, en nú þegar er til Messenger appið sem að er gríðarlega vinsælt.

Paper kemur út fyrir iPhone 4. febrúar og verður frítt. Í fyrstu verða engar auglýsingar í appinu en þær munu að öllum líkindum koma seinna. Android og Windows Phone notendur eru skildir eftir úti í kuldanum og hafa engar formlegar tilkynningar borist um hvort appið verði gefið út utan iPhone.