Hvað verður heitast á CES raftækjasýningunni?

Stærsta raftækjasýning heims, CES (Consumer Electronics Show) hefst í Las Vegas á þriðjudaginn og stendur fram á föstudag, nánar tiltekið dagana 6. – 9. janúar.  Á þessari árlegu sýningu kynna framleiðendur allt það heitasta og nýjasta þegar kemur að tækni og verður sýningin í ár engin undantekning.  Það eru nokkrar vörur eða vörulínur sem talið er að verði heitastar á sýningunni í ár og verður spennandi að fylgjast með.

LG

Quantum Dot sjónvarpsskjáir

Talað er um að Samsung muni kynna til leiks sjónvörp búin Quantum Dot (QD) tækninni á sýningunni. LG ákvað að láta Samsung ekki hirða athyglina og var á að undan að gefa út að fyrirtækið myndi kynna sjónvarp með QD á CES sýningunni.

Í mjög einfölduðu máli má segja að í QD felst að í LCD skjái eru notaðir mjög litlir kristallar (á bilinu 2-10 nanómetrar á stærð) fyrir framan LCD bakljósin (e. backlight) sem gefur myndinni skarpari liti og bjartari mynd. Hér má lesa fína grein CNET um Quantum Dot.

Það er óþarfi að vera andvaka næstu nætur úr spenningi því eins og við vitum þá tekur svona tækni sinn tíma að ná á markað í almenna dreifingu. Sem dæmi má nefna að HD sjónvörp voru kynnt neytendum á CES sýningunni 1998. Við gætum því þurft að bíða í nokkur ár eftir að fá kúpt, 4K, Quantum Dot LCD sjónvörp með 3D og allskonar öðru!

P.s. LG mun einnig sýna 8K sjónvarp með 55″ skjá sem hefur yfir 33 milljón pixla! Það verður c.a. árið 2030 sem slík sjónvarpsútsending á sér stað á Íslandi.

Drone

Drónar

Drónar eða flygildi eru framtíðin segja sumir (flestir?). Eitt er víst og það er að þessi tækniþróun er rétt að byrja og hefur enn varla náð almennilega til Íslands. Í Bandaríkjunum eru drónar að verða æ algengari almenningseign með öllum sínum kostum og göllum. Einn helsti gallinn í Bandaríkjunum í dag er fullorðnir karlmenn að perrast eins og m.a. er komið inn á í þessari grein CNET. Þetta álitaefni var líka tæklað á eftirminnilegan hátt í Sout Park í október s.l. í þættinum Magic Bush. Aðal vandamálið er samt væntanlega regluleysið þegar kemur að þessum flygildum. Það getur hver sem er keypt dróna og flogið honum hvar sem er. Þetta getur og mun eflaust á endanum skapa vandræði.
Hvað sem því líður er tæknin til staðar og henni fleygir hratt fram. Örgjörvar eru orðnir svo litlir og öflugir og myndavélaíhlutir líka. Nú er því hægt að fá mjög litla dróna sem taka mjög góðar myndir. Eins og svo oft þegar kemur að tækni eru rafhlöðurnar og ending þeirra kannski aðal vandamálið. Það er stundum ekki nóg að geta bara flogið í nokkrar mínútur.

lg-g-watch-cover-11

Wearables

Wearables, eða “klæðanleg snjalltæki” eins og við hjá Simon.is kölluðum það einhvern tímann, munu eiga sinn sess á sýningunni í ár alveg eins og á sýningunni í fyrra. Þegar kemur að tækni er ár langur tími og margt sem gerist á heilu ári. Í fyrra voru margir framleiðendur að kynna klæðanleg snjalltæki sem voru ekki endilega þau bestu. Apple sagði í haust að fyrirtækið gæfi út snjallúr á fyrri hluta þessa árs (nýjustu fréttir segja snemma á þessu ári) sem setti aðra framleiðendur á tærnar. Það er ekki ólíklegt að LG og Motorola og jafnvel Samsung komi fram með sínar nýjustu útgáfur á sýningunni. Umfjöllun CNET um klæðanleg snjalltæki.

Internet of Things – Mynd: CNN.com

Internet of things

Internet of Things (IoT) eða “hlutir á internetinu” (stundum er talað um Smart Home eða Snjallt heimili sem myndi falla undir sama flokk). Það er svo sem engin nýjung að ýmsir hlutir tengjast internetinu og maður hefur sýn og stjórn á hlutunum í gegnum snjallsíma eða tölvu. Á UTmessunni í febrúar í fyrra var fyrirlestur um IoT sem Simon.is fjallaði um. Þar var sagt frá hlutum eins og Tile spjöldum til að hengja við hluti og koma í veg fyrir að maður týni þeim, Bleep Bleeps allskonar tæki og tól til að auðvelda foreldrum hlutverkið, Nest hitastýringar, LIFX ljósaperur og ýmsum öðrum hlutum.

Á WWDC kynningunni síðasta sumar kynnti Apple nýjung sem kallast HomeKit sem hefur þó enn ekki litið dagsins ljós. Með HomeKit er pælingin sú að þú getir stjórnað öllu því helsta á heimilinu á einum vettvangi, gegnum snjallsímann. Opna og loka bílskúrnum, tékka á stöðunni í ísskápnum, kveikja/slökkva eða minnka/auka birtuna á ljósum, hækka/lækka hitastigið á heimilinu, opna útidyrahurðina, láta renna á baðkarið og svo framvegis (nánar um HomeKit hérna)

Þegar Apple kynnir svona nýjungar þá setur það ný viðmið fyrir aðra framleiðendur. Það má því búast við að framleiðendur ýmissa raftækja og snjalltækja muni kynna nýjungar og hugmyndir á ráðstefnunni í ár. Í raun eru möguleikarnir jafn margir og hugmyndaflugið nær og því er ómögulegt að segja hvert tæknin mun leiða okkur. Hlutirnir gerast allavega hratt og á sýningunni í ár munum við sjá ýmsar nýjungar. Má meðal annars nefna kaffivél sem hægt er að stýra með snjallsíma.

 

Að ofan höfum við minnst á nokkrar vörur/vörurlínur/tækninýjungar sem munu fá athygli á sýningunni en þetta er þó síður en svo tæmandi talning. Annað sem mun væntanlega fá nokkra athygli eru til dæmis nettengdir sjálfkeyrandi bílar og snjallgleraugu sem reyna að “toppa” Google glass.  Sem sagt er margt spennandi fram undan, eins og ávallt þegar svona sýningar fara fram. Við hjá Simon.is munum fylgjast með sýningunni og reyna að setja inn færslur þegar eitthvað áhugavert kemur fram. Í Tæknivarpinu sem kemur út 15. janúar munum við svo fara ítarlega yfir það fréttnæmasta frá ráðstefnunni.