KR appið – Elska allir KR ?
Stundum hefur verið sagt að elski allir KR, beint eða óbeint. Annað hvort elskarðu félagið eða elskar að hata það. Hvort það sé rétt þori ég ekki að dæma um en hvað sem öðru líður er eitt sem KR hefur fram yfir önnur knattspyrnulið á Íslandi. Það er app fyrir iOS tæki (iPhone, iPad, iPod touch).
Appið er ekki nýtt, það kom út í síðari hluta júlí í fyrra, en það er fínt að minna á það þar sem deildin er nýlega hafin. Ég verð að segja að þetta er virkilega flott framtak hjá Jónasi Óla Jónassyni aðdáanda KR. Appið er skemmtilegt og nytsamlegt þeim sem fylgjast með Pepsí-deildinni, ekki bara KR liðinu.
Í appinu er hægt að sjá safn af nýjustu fréttum helstu netmiðla af liðinu. Þá er hægt að sjá yfirlit yfir næstu leiki og síðustu úrslit sem og stöðuna í deildinni. Þá er hægt að fá smá kynningu á leikmönnum og þjálfurum liðsins, lesa um sögu KR og ýmislegt fleira.
Einnig er það KR-útvarpið sem er hægt að hlusta á með appinu. Ef þú heldur með öðru liði í Pepsí-deildinni geturðu allavega hlustað þegar þitt lið spilar við KR.
Það er einn galli við þetta allt saman. Appið sjálft hefur ekki verið uppfært frá síðasta ári og því er hluti af upplýsingunum þess orðinn úreltur. Hluti appsins eru upplýsingar sem eru sóttar á aðra vefi svo þær uppfærast sjálfkrafa og eru nýjar. Aðrar upplýsingar eru svo hluti af appinu sjálfu, t.d. kynning á leikmönnum og þjálfurum. Samkvæmt okkar upplýsingum er unnið að uppfærslu appsins og er hún væntanleg fljótlega. Þá er jafnframt verið að smíða Android app sem er væntanlegt á næstu vikum. Við fylgjumst með og látum ykkur vita þegar uppfærslan kemur, sem og appið fyrir Android tæki.
Heilt yfir myndi ég segja að þetta app væri til eftirbreytni og væri gaman að sjá fleiri svona öpp tileinkuð öðrum liðum í Pepsí-deildum karla og kvenna og neðrideildum líka. Það eiga jú öll lið einhverja aðdáendur. Þá má nefna það að app fyrir Pepsí-deildina í heild er eitthvað sem væri gaman að sjá.
Trackbacks & Pingbacks
[…] dögunum sögðum við ykkur frá KR-appinu og lýstum jafnframt eftir svipuðu hjá fleiri liðum og helst appi fyrir alla Pepsi deildina. […]
Comments are closed.