Sony Xperia Z3 umfjöllun

Zeta línan hjá Sony endurnýjast hratt, eða á sex mánaða fresti. Hún hefur allt það besta sem Sony hefur upp á að bjóða. Það sem hefur verið sérstakt við Zeta símana er vatns- og rykþéttni, skarpar myndavélar, látlaust viðmót og hversu þunnir þeir eru. Xperia Z3 kom út í haust og er hann þynnri, léttari og með nýja kanta. Síminn er einnig aðeins meira vatns- og rykheldur (IP68) þökk sé smá breytingum. 

Hönnun

636x900-sony-xperia-z3-bronze-vue-3-22041

Þetta er fallegur sími. Hann snýr hausum. Fram- og bakhlið eru úr háglansandi höggheldu gleri. Kantarnir eru úr áli og eru nú mun mýkri og rúnaðri en áður. Z3 er því aðeins þægilegri í hendi en Z2. Það er þægilegt að halda á símanum, en guð minn góður hvað hann er sleipur. Ég sá Z3 renna á flötu yfirborði og næstum detta í gólfið. Við mælum með hulstri fyrir þennan.

Síminn er enn þá með flipa til að komast að mUSB hleðsluraufinni, símkortaraufinni og mSD raufinni. Heyrnatólatengið er hinsvegar ekki með flipa. Það er frekar óþægilegt að opna flipa til að hlaða en Sony kemur aðeins til móts við okkur og býður upp á vatnshelt pogo hleðslutengi á vinstri hlið símans. Til að nota það þarf spes dokku. Dokkan er plastdrasl með seglum sem á að hjálpa þér að koma símanum í hleðslu. Það virkar ekki nógu vel og þarf talsvert margar tilraunir til að koma símanum á réttan stað svo hleðsla hefjist.

Takkarnir á hægri hlið Z3 til að eiga við hljóð og aflæsa símanum eru vel staðsettir og þægilegir. Það er mjög auðvelt að finna aflæsingartakkann því hann er stór og kringlóttur.

Þessi sími kemur í nokkrum litum, þar á meðal bronsi. Það er ótrúlega aðlaðandi tæki.

14_Xperia_Z3_Angle-54072b667aa2e

Síminn er með 5,2″ skjá með FullHD upplausn. Skjárinn er góður, en alls ekki sá besti í dag. Símar yfir 5″ eru líka orðnir erfiðir í notkun einhendis, en á sama tíma ótrúlega góðir að vafra netið og birta myndir og myndbönd. Það eru steríóhátalarar á Z3 sem eru háværir og góðir. Þeir eru líka framan á símanum, sem er mun betra en á LG og Samsung símum sem eru með hátalara á bakinu (og mono) eða neðst eins og á iPhone. Þeir eru þó ekki eins góðir og á HTC One, sem eru þeir bestu á snjallsíma í dag.

Viðmót

Viðmótið hefur aðeins breyst frá Xperia Z2, tákn fyrir forrit eru nú aðeins stærri og nú er keyrt ofan á Android 4.4.4 (kitkat). Viðmótið er, eins og alltaf, látlaust, einfalt og lítið breytt frá Android stock. Það gleður okkur. Viðmótið hikstar aldrei, býður upp á þægilegar flýtileiðir úr tilkynningargardínu og er með fullt af skemmtilegum græjum (e. widgets). Það er hægt að tvísmella á skjáinn þegar hann sefur til að vekja símann, rétt eins og á LG G3, sem er mjög þægilegt.

Myndavél

275629

Myndavélin er snögg og skörp. Hún tekur líka 4K myndbönd og slow-mo, sem er svakalegt. Myndavélin er þó klassa fyrir neðan aðra flaggskip síma, en skilar þó sínu. Ég bara hana aðeins saman við LG G3 og  iPhone 6, iPhone 6 plus og það eru allt betri myndavélar. iPhone 6 plus ber hreinlega af, sérstaklega í dimmum skotum. Myndavélatakkinn sem er á hægri hlið er þægilegur, hægt er að þrýsta á hann til að aflæsa símanum beint í myndavélaappið.

Rafhlaða

Dj*full neglir Sony það hér. Rafhlaðan er frábær, enda risastór eða 3100 mAh. Entist mér fram yfir kvöldmat, eða mun betur en allir iPhone símar sem ég hef prófað. Þessi rafhlaða er í sama klassa og LG G2 og G3 (aðeins betri en G3). Alveg nógu stór plús til að gleyma að myndavélin er ekkki í sama klassa og önnur flaggskip.

Kostir

  • Ein besta rafhlöðuendingin í dag
  • Falleg hönnun, snýr hausum
  • Þægilegt viðmót
  • Vatns- og rykvarinn
  • 4K og slowmo myndbandsupptaka

Gallar

  • SLEIPUR
  • Bjóst við betri myndavél
  • Leiðinlegt að opna flipa til að hlaða

Sony hefur algerlega snúið við blaðinu og er nú komið með tvo frábæra síma í sölu. Sony Xperia Z3 og minni týpan Z3 compact sem er næstum því með sömu spekka. Þessir símar hafa verið að raða inn frábærum dómum hjá kollegum okkar. Við erum alveg sammála þeim. Frábærir símar.

Simon gefur Sony Xperia Z3 fjóra og hálfa stjörnur af fimm.