Samsung Galaxy Tab 7.7

Samsung er búið að vera duglegt að dæla á markað spjaldtölvum með Android stýrikerfinu. Tölvurnar koma í mismunandi stærðum allt frá 10,1″ niður í 7″ tommur. Hér erum við að skoða Galaxy Tab 7.7 spjaldtölvuna sem er með 7,7″ Super AMOLED Plus skjá, alveg eins og Galaxy S2 síminn. Tölvan býður upp á 3G netsamband og er auk þess sími. Já, þið lásuð rétt, þetta er 7,7″ snjallsími.

Innvols

Tab 7.7 er með tvíkjarna 1,4 GHz Exynos örgjörva frá Samsung með Mali 400MP skjástýringu. Það höndlar alla leiki og þungar aðgerðir mjög vel. Ég fann ekki fyrir miklu hiksti nema þegar það voru komin mörg skjától (e. widget) í gang og ég var að skauta á milli skjáa. Ástæðan bakvið það er samt líklega stýrikerfið. Android 3.2 er ekki alveg með svona fínar hreyfingar og snöggt skipti milli mynda. Þetta á að lagast í Android 4.1 (Jelly Bean) sem er nýlega komið út á Nexus 7 tækinu. Tab 7.7 er að fá uppfærslu upp í Android 4.0 (Ice Cream Sandwich) og það mun bæta þetta til muna. Tölvan er með 1GB í vinnsluminni og 16GB geymsluplássi. Bæði tvennt hentar vel, en ef 16GB er ekki nóg þá er hægt að bæta við allt að 32GB með microSD minniskorti. Tölvan kemur einnig í 32GB og 64GB útgáfum. Hún er því vel útbúin en kemur illa út í samanburði við Apple Nýja iPad (3) og Asus Transformer TF300 sem eru þær öflugustu á markaði í dag.

Rafhlaða

Tölvan er með 5200 mAh rafhlöðu sem endist í 80 tíma samkvæmt GSMArena sem telst vera góður tími, sérstaklega ef það er horft á þetta sem snjallsíma. Tölvan kemur ágætlega út í samanburði við iPad2 og 3 og nær lengri tíma við myndbandsspilun, en kemst ekki nálægt þeim í vöfrun þar sem munur næstum þremur tímum. Þetta er á heildina litið fín ending. Sérstakt 30 pinna tengi er til að hlaða tölvuna og fylgdi sú snúra með. Snúran er hinsvegar með áfastri rafmagnskló og það fylgir enginn kapall með til að tengja tölvuna við USB. Það er mikill galli, en hægt er að kaupa snúruna hjá söluaðila.

Mynd og hljóð

Skjárinn er þvílík dásemd, enda einn besti skjár sem hefur verið settur á snjalltæki. Super AMOLED Plus tæknin sýnir bjarta og fallega liti. Svartur er alveg svartur og notar ekki rafmagn. Upplausnin er 800 x 1280 sem er hentar ágætlega þessari stærð. Ef þeir gefa út Tab 7.7 númer 2 þá vil ég sjá 1080 x 1820 upplausn á þeirri tölvu, enda Apple búnir að toppa alla með upplausn iPad3 (1536 x 2048). Þessi upplausn slær þó út flestar 7″ Android spjaldtölvur á markaði. Ég bar þennan skjá við Samsung Galaxy S3 og HTC One X og tók eftir því að það munar talsvert í birtu. Tölvan er með minni birtu en símarnir, en það líklega ekki eins mikið þörf á birtu þar sem hún er aðallega notuð innandyra. Hægt er að tengja tölvuna við HDMI með snúru frá Samsung í gegnum 30 pinna tengið sem er neðst.

Aftan á tölvunni er 3,2 MP myndavél með LED flassi. Hún er hræðileg, eins og á öllum öðrum spjaldtölvum. Framan á 2 MP myndavél fyrir myndsímtöl, sem er líka hræðileg en dugar þó.

Bakið á Tab 7.7

Tölvan er með tvo steríó hátalara sem eru staðsettir undir skjánum á styttri hliðinni, sem er ólíkt flestum öðrum spjaldtölvum og líkara símum. Flestar spjaldtölvur setja hátalara á sitthvora styttri hliðina, þannig að hljóðið njóti sín við myndbandsspilun. Þetta gekk þó alveg upp og hljóðið var skýrt og gott. Hægt er að tengja heyrnatól efst á tölvunni, alveg eins og flestum símum. Tölvan með hlust efst fyrir ofan skjáinn (þegar hún stendur) og hljóðnema neðst fyrir símtöl. Það var frekar kjánalegt að nota spjaldtölvuna sem síma og fékk marga til að hlæja að mér þá vikuna.

Hönnun

Tölvan er vel hönnuð og þægileg í hendi. Hún er fislétt og vegur aðeins 340 grömm. Erfitt er að bera þyngdina saman við aðrar spjaldtölvur þar sem flestar þeirra eru með stærri skjá eða í kringum 10″. Nýi iPadinn og Asus Transformer eru til að mynda nær tvöfallt þyngri. Þessi stærð er einmitt gerð fyrir þá sem vilja ekki 10″ spjaldtölvur, sem ég sjálfur hef ekki áhuga á. Þessi stærð hentar mun betur til þess að ferðast með tölvuna með sér og lesa af henni bækur.

Framhliðinn er einföld og án takka. Í kringum skjáinn er einföld svört rönd, sem gerir manni kleift að halda á tölvunni án þess að snerta skjáinn (e. bezel). Bakið á Tab 7.7 er tvílita í gráum efst og neðst og svo er miðjan í litnum burstuðu áli. Tvílita er oftast ekki fallegt, en kemur vel út á Tab 7.7. Bakið er allt úr plasti en framhliðin er mest öll úr hertu gleri. Á hægri hlið er að finna ræsi- og hljóðstyrkstakkana. Á þeirri vinstri er að finna raufar fyrir microSD minniskort og símkort. Þetta er fín röðun á tökkum, en ég hefði samt viljað sjá ræsitakkann framan á tölvunni, hjá skjánum, eins og á iPad.

Tölvan kemur uppsett með Android 3.2 stýrikerfinu, en Android 4 var í boði lengi vel áður en þessi tölva kemur út. Android 3.2 er bara ekki nógu gott spjaldtölvustýrikerfi. Allar hreyfingar milli forrita og skjáa eru höktandi og ljótar. Framboðið af öppum er skammarlegt. Flest öppinn í Google Play eru hönnuð fyrir síma, ekki spjaldtölvur. Grunnvirknin í stýrikerfinu er fátæk þegar hún er borin saman við iOS (iPad stýrikerfið). Android er samt að taka sig á með nýjustu útgáfunni Jelly Bean og gáfu út sjálfir 7″ spjaldtölvu: Nexus 7. Vonandi verður Galaxy Tab 7.7 uppfærður með því á næstunni.

Tab 7.7 kemur með viðmóti frá Samsung sem þeir kalla TouchWiz og með því fylgja mörg nothæf öpp og dokka. Dokkan neðst minnir mikið á MacOSX dokkuna og er þar að finna ýmis öpp eins og forritastjórnun (e. task manager), glósuforrit, teikniforrit, síma, reiknivél og margt fleira. Ég var ekki mikið að nota þessi forrit, og setti upp mín eigin öpp fyrir bækur, tímarit og fleira sem ég nota. Vafrinn sem fylgir með er ekkert sérstaklega góður og vonandi lagast það með Android 4 og Chrome vafranum. Ég var við hökt þegar ég var að skrolla og stundum voru stórar síður mjög lengi að opnast.

Niðurstaða

Þetta er fín spjaldtölva en stýrikerfið er ekki nógu gott.

Kostir

  • Létt og nett
  • Frábær skjár
  • Falleg hönnun

Gallar

  • Úrelt og lélegt stýrikerfi
  • Fá öpp í boði

Simon.is gefur þessari spjaldtölvu 7,1 af 10 mögulegum í einkunn. Það verður spennandi að sjá uppfærsluna upp í Android 4. Ef hún kemur vel út þá hækkar hún í einkunn.

Simon.is á fleiri miðlum