Nokia Lumia 930 umfjöllun

Nokia Lumia 930 er einn síðasti Nokia síminn sem verður gefinn út í bili, svona alveg þangað til gamla Nokia fer aftur á símamarkaðinn með Android símtæki. Þetta er flaggskipið þeirra og er nokkuð vel útbúið. Síminn er með frábæran AMOLED FHD 5” skjá, skarpa 20 megadíla myndavél, 32GB geymslupláss, Snapdragon 800 tvíkjarna örgjörva og 2GB vinnsluminni.

 

Hönnun

P1060369 (cropped)Síminn er allt öðruvísi en forfeður sínir, Lumia 900 og 920. Þeir voru úr plasti og ávalari með mjúkar línur. Lumia 930 er með beina álkanta og plast bakhlið. Hann er því ekkert sérstaklega góður í hendi, út af hvössum könntum. Plasthliðin er ekki fjarlægjanleg og kemur í fjórum litum: svörtum, hvítum, hræðilegum neon appelsínugulum og neon eiturgrænum. Þessi appelsínuguli er svo slæmur að Nokia lógóið sést varla. Síminn er í þyngra lagi, eða 168 grömm. Það er reyndar mikil framför frá Lumia 920 sem var 185 grömm. Hann er líka þykkur eða 9,8 mm.

image7

Skjárinn er 5” og er nú AMOLED skjár, sem skilar dýpri svörtum og ýktum litum. Hann er vel varinn með Gorilla Glass 3 skjávörninni. Skjárinn er mjög skarpur og er með 1080 x 1920 upplausn. Fyrir neðan skjáinn eru snertitakkar til að þessa að bakka, fara heim og leita. Skjárinn er frábær og takkarnir fínir. Mér fannst samt mjög erfitt að hitta á bakk-takkann. Ég vil helst hafa þá hægra megin, eins og á Samsung og LG símunum, sérstaklega þegar síminn er svona stór um sig.

Viðmót

Mikið er búið að breytast hér. Windows Phone 8.1 er nú þroskað snjallsímastýrikerfi. Microsoft náði að gera betri tilkynningargardínu en Apple í fyrsta kasti, sem er afrek. Hún er þó ekki eins öflugt og á Android. Efst í gardínunni eru fjórir fastir flýtitakkar til að kveikja eða slökkva á þráðlausu neti, Bluetooth, Airplane Mode og snúningi (rotation lock). Tilkynningar hópast saman eftir appi og er hægt að strjúka þær burt (þær fara reyndar allar saman út inn í grúppu). Viðmótið er mjúkt, óhökktandi og einfalt. Mér finnst allar þessar hreyfingar milli skjáa reyndar verða þreyttar með tíma og hægja á stýrikerfinu að óþörfu.

Lifandi reitir eru enn þá hornsteinar viðmótsins. Þeir eru nú til í nokkrum stærðum og rúmast fleiri reitir á heimaskjánum. Eins mikið og ég fíla gagnvirknina á þessum lifandi reitum, þá finnst mér þetta líka oft mjög truflandi og pirrandi. Táknið fyrir Spotify breyttist t.d. í nafn á einhverjum lagalista og einhverja mynd þaðan, þannig að ég fann ekki Spotify táknið í fljótu bragði.

Stillingarsíðan (e. settings) er líka í tómu tjóni (eins og á iOS) og er búið að hlaða inn í hana endalaust af atriðum. Það virðist ekki vera nein hugsun bakvið röðum og það vantar skárri hópa en “System” og “Applications”.

Lyklaborðið býður nú loksins upp á íslenskt útlit. Það vantar þó íslenska orðabók og skautun (flow / swype lyklaborð). Fyrir mér, er þetta mikið vandamál og hægir verulega á mér í vinnu og í lífinu almennt.

Myndavél

Lumia-930-Camera

Lumia 930 er með 20 megadíla Pureview myndavél með tvítóna flassi og hristivörn. Myndavélin getur tekið FHD myndbönd á 30 römmum með Dolby víðóma hljómgæðum þökk sé tveimur hljóðnemum á bakinu. Ég saknaði þó slow-mo 120 ramma myndbandsupptöku eins og er í boði á iPhone og mörgum Android tækjum. Myndavélin er þó heilt yfir mjög góð. Myndir voru skýrar og hún virkaði vel við flest birtuskilyrði. Við gerðum óvísindalegan samanburð á myndatöku við lág birtuskilyrði. Þrátt fyrir að Lumia 930 sé eini síminn í samanburðinum sem flassaði áður en hann tók myndina, þá kemur sú mynd áberandi verst út. LG G3 náði bestu myndinni af svíninu Sópi (myndirnar eru skalaðar niður).

 

Rafhlaða

Það er 2420 mAh rafhlaða í Lumia 930. Það er frekar langt frá rafhlöðum Sony Xperia Z3, LG G3, og iPhone 6 Plus sem eru allir í kringum 3000 mAh. Endingin er mjög góð hvað varðar símtöl, en þegar það kemur að vöfrun eða myndbandsspilun þá styttist endingin talsvert. Síminn var að endast mér rétt fram yfir kvöldmat, sem er nokkuð gott. Ég verð samt að viðurkenna að ég notaði hann mun minna en aðra síma þar sem mikið af Google þjónustum, öppum og leikjum vantar á Windows Phone.

Kostir

  • Myndavélin er frábær og skjárinn í hæsta gæða flokki.
  • Windows Phone er einfalt í notkun og viðmótið hratt.
  • Lumia 930 er með nóg af plássi og er snöggur.
  • Lumia 930 er 10-20 þúsund krónum ódýrari en önnur flaggskip.
  • Nokia here kortaappið er snilld

Það slæma

  • Það vantar fullt af góðum öppum. Íslensk öpp vantar sárlega. Það er mikið um beta útgáfur (Instagram) og flest öpp með færri fídusum en á iOS og Android.
  • Lifandi reitir er takmarkað og óþjált viðmót, en skömminni skárra en iOS.
  • Síminn er þungur og þykkur.

Niðurstaða

Þetta er fínn sími. Stýrikerfið hefur tekið miklum framförum, en það vantar samt enn þá öpp. Þróunaraðilar eru ekki heillaðir af hálf lokaða kerfinu. Microsoft býr til of mikið af öppum sjálft sem hræða burt samkeppnisaðila. Það er lítill peningur þarna fyrir þróunaraðila, eins og staðan er núna. Það eru bara of fáir að kaupa Windows Phone síma. Aðalmálið við snjallsíma eru öpp. Þannig urðu þeir vinsælir. Einmitt þess vegna sætti fólk sig við það að fara úr því að hlaða símann sinn einu sinni í viku, í einu sinni á dag. Íslensk öpp munu ekki koma eða koma seint á iPhone. Öpp hreyfast hratt. Þau eru með mjög stuttan líftíma. Þegar Windows Phone fær loksins appið eða app frá þriðja aðila, þá er það app kannski bara ekki lengur vinsælt. Næstum undantekningalaust þá eru öppin lélegri en á iOS og Android. Það er það sem við hjá Simon köllum deal-breaker.

Nokia Lumia 930 fær fjórar stjörnur af fimm mögulegum frá Simon.is