Þarftu ekki að tilnefna eitthvað?
Opnað hefur verið fyrir innsendingar til Íslensku vefverðlaunanna 2014 á vef SVEF.
Íslensku vefverðlaunin eru orðin að árlegum viðburði í íslensku viðskiptalífi en verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 2000.
Íslensku vefverðlaunin eru uppskeruhátíð vefiðnaðarins á Íslandi, haldin með það að markmiði að efla iðnaðinn, verðlauna framúrskarandi verkefni og hvetja þá sem starfa á þessum vettvangi til dáða.
Í ár verða veitt verðlaun í 15 flokkum en fjöldi flokkanna endurspeglar breidd þeirra verkefna sem vefiðnaðurinn á Íslandi kemur að. Í ár hefur bæst í flóruna einn glænýr flokkur: Besta þjónustusvæðið, sem tekur til aðgangsstýrða þjónustusvæða sem einnig eru oft nefnd Mínar síður.
Opið verður fyrir innsendingar til miðnættis 30. desember 2014. SVEF hvetur fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og einstaklinga til að senda inn sína vefi eða verkefni en innsendingar eru öllum opnar.
Dómnefnd Íslensku vefverðlaunanna er á hverju ári skipuð 7-8 einstaklingum með sérþekkingu og brennandi áhuga á vefmálum. Félagar SVEF tilnefna í dómnefnd en dómnefnd er endanlega skipuð af stjórn SVEF. Mikil áhersla er lögð á að setja saman breiðan hóp einstaklinga með ólíka sérfræðiþekkingu og bakgrunn. Varamenn eru einnig skipaðir.
Hlutverk dómnefndar er að fara vandlega yfir öll innsend verkefni og velja þau fimm sem skara fram úr í hverjum flokki. Hljóta þau tilnefningu til Íslensku vefverðlaunanna innan síns flokks.
Í síðari umferð dómnefndar er eitt verkefni valið sem sigurvegari í hverjum flokki.
Í ár verða verðlaunin afhent 30. janúar 2015 við hátíðlega athöfn. Athöfnin er öllum opin og er það von SVEF að sem flestir sjái sér fært að mæta og taka þátt í gleðinni.
Verðlaunaflokkar til Íslensku vefverðlaunanna 2013:
- Aðgengilegasti vefurinn
- Besti innri vefurinn
- Besta þjónustusvæðið
- Besta appið
- Besta markaðsherferðin á netinu
- Besti einstaklingsvefurinn
- Besti non-profit vefurinn
- Besti vefmiðillinn
- Besti opinberi vefurinn
- Besti fyrirtækjavefurinn (Lítil og meðalstór fyrirtæki)
- Besti fyrirtækjavefurinn (Stærri fyrirtæki)
- Frumlegasti vefurinn
- Athyglisverðasti vefurinn (að mati félagsmanna SVEF)
- Besta hönnun og viðmót
- Besti íslenski vefurinn 2013