Flappy Bird Title

Flappy Bird: Einfaldur og ávanabindandi

Það er ómögulegt að segja til um hvaða öpp eða leikir slá í gegn. Candy Crush sló gjörsamlega í gegn á Facebook og í snjalltækjum, þrátt fyrir að formúlan væri ekki ný af nálinni. Nýjasta leikurinn sem æði hefur gripið um sig er leikurinn Flappy Bird. Leikurinn er ótrúlega einfaldur, þú stjórnar asnalegum fugli sem á að fljúga í gegnum endalaust borð og komast hjá því að klessa á rör. Það eina sem er hægt að gera í leiknum er að ýta á skjáinn og þá flýgur fuglinn aðeins upp. Ef þú ýtir ekkert þá dettur hann niður og deyr. Þú færð svo stig fyrir hvert rör sem þú flýgur í gegnum. Þetta er allt og sumt, fljúga, ekki deyja og fá stig.

FlappyBird gif

Myndbútur úr Flappy Bird gerður af Simon.is

Leikurinn hljómar mjög einfaldur, en hann er engu að síður fáránlega erfiður. Ég er ekki búinn að eyða miklum tíma í leiknum og hef hæst komist upp í 12 stig. Ég fann þó strax hversu ávanabindandi leikurinn er. Félagi minn náði 25 stigum og ég þurfti að ná honum, félagi hans náði 55 stigum og svona gekk þetta koll af kolli. Helsta aðdráttaraflið við leikinn er að mínu mati hversu einfaldur hann er. Grafíkin er mjög einföld 16-bita  grafík og svipar mjög til Super Mario World sem kom út á Super Nintendo fyrir um 14 árum síðan. Í leiknum eru litlar borða auglýsingar sem trufla spilun ekki neitt og birtast eingöngu í valmyndum. Nú þegar eru um 50 milljón notendur í leiknum og halar leikurinn inn um $50.000 á dag frá auglýsingatekjum segir hönnuður leiksins í viðtali við The Verge. Dong Nguy frá Víetnam hannaði leikinn á nokkrum kvöldum og var í raun enga stund að. Það er því ekki seinna vænna fyrir klára kóðara að fara að hanna frumleg öpp!

Flappy Bird má nálgast á iOS í App Store og á Android í Play Store. Leikurinn er væntanlegur á Windows Phone á næstu dögum.