GTA3 fyrir Android og iOS – Bylting í vasann
Árið 2001 gerði Rockstar byltingu í tölvuleikjum með leiknum Grand Theft Auto 3. 10 árum seinna gerði sami leikur aðra byltingu með komu sinni á Android og iOS. Leikurinn hefur verið endurhannaður til þess að virka á símum og spjaldtölvum. Leikurinn kom út fyrir þrem mánuðum en er á tilboði á $0,99 til 28. maí.
Leiknum er stjórnað með snertitökkum neðst á skjánum. Hægra megin eru 4 takkar: hlaupa, hoppa, kýla/skjóta og ræna bíl. Vinstra megin birtist svo stýripinni þar sem þumallinn er staðsettur og breytist staðsetning hans ef maður færir þumalinn. Ef maður fer í bíl þá breytast takkarnir. Hægra megin verða þeir sex: bensíngjöf, bremsa, skjóta, handbremsa, fara úr bílnum og flauta. Vinstra megin birtast svo tveir takkar sem eru ekki færanlegir og eru notaðir til þess að stýra bílnum til vinstri eða hægri. Myndavélinni er stjórnað með því að ýta á miðju skjásins og færa puttann til.
Það er ekki auðvelt að stjórna leiknum til þess að byrja með, maður rekst á vitlausa takka og endar venjulega á því að keyra út í skurð. Það tekur þó ekki langan tíma að venjast tökkunum og eftir nokkur mission er maður búinn að ná góðri stjórn á leiknum.
Grafíkin í leiknum er mjög góð. Hún er mjög svipuð og í PS2 og leikurinn spilast mjög vel. Ekkert virðist hafa verið tekið úr leiknum og ekkert skafið af til þess að gera hann einfaldari til keyrslu. Hann á það til að hiksta þegar að mjög mikið er í gangi, eins og sprengingar á mörgum bílum. Því til varnar má minnast á að það sama gerðist þegar maður spilaði upprunalega leikinn á PS2 og PC.
Leikurinn gefur manni góða nostalgíu-tilfinningu og mér finnst ótrúlegt að leikurinn sé orðinn 10 ára gamall. Hönnuðum leiksins hefur tekist með prýði að grípa upplifunina við leikinn og færa hana í símann. Öll tónlistin sem var í upprunalega leiknum er á sínum stað ásamt sprenghlægilegu spjallrásunum. Leikurinn er vel hannaður, vel útfærður og virkilega skemmtilegur. Ég mæli þó með því að spila leikinn frekar á spjaldtölvum en símum, en leikurinn er það góður að ég læt mig hafa það að spila hann á 4,65″ skjá.
Hægt er að fá leikinn á Android Market og iTunes AppStore. Hann kostar venjulega $4.99 eða um 620 krónur og er hverrar krónu virði. Eins og stendur er hann á tilboði á $0,99. Athugið að leikurinn virkar ekki á öllum símum eða spjaldtölvum. Leikurinn mun vonandi virka á fleiri tækjum í framtíðinni, þannig að fylgist með uppfærslum á appinu.
Leikurinn virkar á eftirfarandi tækjum:
iOS: iPad, iPad 2, iPad 3, iPhone 4, iPhone 4S, iPod Touch 4G.
Android símar: Galaxy Nexus, HTC Rezound, LG Optimus 2x, Motorola Atrix 4G, Motorola Droid X2, Motorola Droid Bionic, Motorola Photon 4G, Samsung Galaxy R, Samsung Galaxy S2, Sony Ericsson Xperia Play og T-Mobile G2x
Android spjaldtölvur: Acer Iconia, Asus Eee Pad Transformer, Asus Eee Pad Transformer Prime, Dell Streak 7, LG Optimus Pad, Medion Lifetab, Motorola Xoom, Samsung Galaxy Tab 8.9 and 10.1, Sony Tablet S, Toshiba Thrive og Kindle Fire.
Leikinn má nálgast á og App Store. Hann er á sérstöku tilboði til 28. maí á aðeins $0,99.