HTC One X kominn til Íslands

HTC One X er kominn í sölu á Íslandi og hefur Simon.is verið með hann í prófun síðustu daga. HTC One X er stærsti síminn úr One línunni frá HTC en það koma tveir aðrir símar í sömu línu: One V sem er lítill og nettur og One S sem er mjög svipaður One X nema aðeins minni og ódýrari.

HTC One símarnir

HTC One X er fyrsti síminn í Evrópu sem kemur með Android 4.0 úr kassanum fyrir utan Samsung Galaxy Nexus. One X vakti mikla athygli á Mobile World Congress vörusýningunni og var kosinn sími sýningarinnar. Síminn hefur nú þegar fengið frábæra dóma frá vefsíðunum The Verge og Engadget og er One X er sagður vera einn besti Android sími sem hefur verið framleiddur. Þetta er fyrsti síminn sem ég hef rekist á í langan tíma sem getur mögulega slegið Galaxy Nexus við, sem er besti snjallsími sem ég hef notað. Þrátt fyrir að vera með mjög stóran skjá þá er síminn fisléttur og rúmast vel í hendi og vasa. Síminn kemur í tveimur litum: gráum og hvítum. Hvíta útgáfan er líklega einn fallegasti snjallsími sem ég hef augum litið. Síminn er með nýjustu útgáfu Android (ICS) og HTC Sense viðmótinu (4.0). HTC Sense hefur algerlega verið tekið í gegn og einfaldað til muna, enda var það orðið of þungt og óþægilegt.

Innvols

Þetta er best útbúni snjallsíminn á markaðinum í dag og hann verður það líklega fram að Galaxy S3 (sem er þó væntanlegur bráðlega). Hann er einnig fyrsti síminn með Tegra 3 örgjörva, sem hefur verið notaður í nokkrar spjaldtölvur. Tegra 3 er fjórkjarna 1,5 Ghz örgjörvi með auka kjarna sem notar minna rafmagn en hinir, sem er keyrt á þegar lítið er að gerast. Afköstin eru mjög góð og þá sérstaklega í tölvuleikjum. Ég náði 4890 í Quadrant prófi sem er það hæsta sem ég hef séð á snjallsíma. Til samanburðar má benda á að Samsung Galaxy Nexus nær yfirleitt rétt yfir 2000. Síminn er ótrúlega hraður og nýtir sér getu sína með ótrúlega fallegu viðmóti sem er teiknað í þrívídd (HTC Sense 4.0). Vinnsluminnið er 1GB, sem er staðalbúnaður í dýrari týpunum af símum í dag, og virkar vel. Síminn er með 32GB af innbyggðu plássi en 7GB eru tekin frá fyrir stýrikerfi og forrit. Það er ekki MicroSD minniskortarauf til staðar, sem er galli en ætti ekki að skipta miklu máli með svona miklu plássi. Skjárinn er 4,7″ að stærð sem er stórt, en ekki þó of stórt. Síminn er svo nettur að öllu öðru leiti að hann virkar miklu minni í hendi en hann er í raun og veru. MicroUSB hleðsluraufin getur einnig verið MHL tengi sem hægt er að nota til að tengja við sjónvarp. Heyrnatólin sem fylgja með eru ekki in-ear og frekar léleg. Það kemur á óvart því HTC Sensation línan kom öll með rándýrum og fínum Beats heyrnatólum. Hönnun ytra byrðis og efnin sem eru notuð við byggingu símans eru til fyrirmyndar. Þetta er þó fyrsti síminn frá HTC sem er úr hertu plasti en ekki áli. Ég get ekki séð að það sé eitthvað verra og líklega bara kostur ef þú missir símann. Plastið heldur einmitt sama lit ólíkt álinu sem er málað og við það verða allar rispur sjáanlegar.

Rafhlaða

Það fylgir 1750 mAh rafhlaða með símanum og það er ekki hægt að skipta henni út sjálfur. Síminn er alveg lokaður og kemur með svipaðri símkortarauf eins og Nokia N9 og iPhone 4/4S, sem þarf að stinga út með einhverju mjóu (pinni fylgir með). Rafhlaðan endist svipað og á öðrum dýrum snjallsímum, eða rétt um sólarhring. Það er örugglega hægt að pína hann í 35 klukkustundir við litla notkun, en ég vil hafa allt í gangi og mæli síma eftir því. Það eru einhverjar vonir um uppfærslu sem á að lengja endinguna.

Skjár og myndavélar

Síminn kemur með 4.7″ LCD2 IPS skjá og er upplausnin 720X1280 og ættu flestir iPhone notendur fá minnimáttarkennd þegar þeir sjá símann (og spyrja hvort þetta sé spjaldtölva). Það er gaman að vera með stóran skjá, svo lengi sem það er þægilegt að nota símann og að hann rúmist vel í vasa.  One X er alveg á línunni þar og það eru örugglega einhverjir puttasmáir sem munu eiga erfitt með að aðlagast stærðinni. Ég var samt snöggur að því og það er mjög þægilegt að vafra og skoða myndbönd með þessum skjá. Helstu tæknibloggsíður erlendis segja að þetta sé einn besti skjárinn sem hefur sést á snjallsíma og ég er sammála því. Litirnir eru bjartir og skýrir, og það er þægilegt að lesa af honum í mikilli sól.

Myndavélin að aftan er 8MP og sú fremri er 1.3MP sem hentar vel í myndbandssímtöl. Aftari myndavélin er með björtu og góðu LED flassi.  HTC hefur virkilega einbeitt sér að því að bæta hugbúnaðinn fyrir myndavélina og Þeim tókst mjög vel til á One X og skarar hugbúnaðurinn framúr! Það er hægt að byrja að taka myndband og taka ljósmyndir á sama stað, sem og taka ljósmyndir á meðan myndband er tekið upp (e. double shutter). Boðið er upp á þægilegan snertifókus en það er einmitt enginn sérstakur myndavélatakki á símanum sem er galli. Myndavélin býður upp á að taka myndir með ákveðnum stíl eða filter, áður en hún er tekin. Þetta er mjög skemmtilegur eiginleiki og eitthvað sem iPhone unnendur geta tengt  við strax. HTC Sense getur hent myndunum þínum sjálfkrafa beint á netið (e. auto upload) og það í gegnum marga miðla (Dropbox, Skydrive og Google+). Ofan á það þá fylgja með 25GB fyrir Dropbox í 2 ár, sem er mjög rausnarlegt. Síminn getur tekið upp myndbönd í 1080p upplausn á 30 römmum með steríóhljóði. Ég var mjög ánægður með þær myndir sem ég tók og fannst skemmtilegt að geta notað hina ýmsu filtera ofan á þær.

Stuðningsmenn Börsunga

Hönnun

Læsingarskjár HTC One X

Þetta er fallega hannaður sími, búinn til úr hágæða efnum og með besta skjá sem þú getur fengið á síma í dag. Allir kantar eru mjúkir og þægilegir. Hliðarnar eru sveigðar sem er mjög flott og er það eini staðurinn þar sem ytra byrðið glansar, en það er matt annars staðar. Þeir hefðu þó mátt setja aflæsingartakkann á betri stað en efst á svona stórum síma, eins og t.d. á aðra hvora hliðina. Það er líka frekar slappt að bjóða upp á MLH tengi, en samnýta microUSB hleðsluraufina fyrir það. Þá er ekki hægt að hlaða símann á tíma og hann er tengdur við sjónvarp.

HTC Sense er loksins orðið nothæft aftur þökk sé einföldurnar. Læsingarskjárinn er mjög sniðugur og hægt er að aflæsa símanum beint inn í ákveðna staði eða þau forrit sem eru í flýtistiku símans (e. launcher). Læsingarskjárinn getur einnig gefið þér yfirlit yfir það nýjasta eins og tölvupóst, símtöl og uppfærslur af samfélagsmiðlum.

Enn og aftur þá sakna ég Google Music forritsins, enda á það að vera staðalbúnaður í Android símum. Líklega er það tekið út fyrir evrópska markaðinn þar sem Google Music er í raun og veru ekki í boði þar. HTC Sense kemur vel útbúið tólum (e. widgets) til að sýna veður, dagatöl, myndir og fleira nytsamlegt. Ég nýtti mér sérstaklega mikið að aflæsa beint í myndavélina, til þess að reyna ná rétta augnablikinu.

Tölvupósturinn er mjög þægilegur og býður upp á möppur, leit, flöggun, sjálfvirka svörun og margt fleira sem ég nýtti mér við vinnu. HTC hefur reyndar alltaf haft þetta á hreinu, enda hafa þeir verið sterkir á fyrirtækjamarkaði frá því að Windows Mobile var og hét. Sense er með sitt eigið útlit fyrir yfirlitsglugga forrita og svipar það til Windows 7 Areo. Með öðrum orðum sagt, það er í þrívídd og er óþægilegt. Þú sérð einungis þrjú forrit í einu þannig, en í Google viðmótinu sérðu mun fleiri.

Ég er almennt séð ekki hrifinn af viðmótum framleiðenda og hallast frekar að því að nota Android eins og það kemur frá Google. Ég verð samt að gefa HTC Sense það að þetta er nothæfasta viðmótið sem ég hef notað. Þeir nota einnig nýju leturgerðina Roboto sem kemur með Android 4.0 sem þeir fá plús í kladdan fyrir. Sense fær þó feitan mínus fyrir tungumál, en það er enginn stuðningur fyrir íslensku. Það er þó hægt að ná sér í tól til að laga það.

Niðurstaða

Eftir nokkur mögur ár er HTC loksins komið til baka. HTC One X er einfaldlega æðislegur snjallsími og líklega sá besti sem ég hef notað. Það eru nokkur hönnunatriði sem mættu betur fara, eins og staðsetning aflæsingartakka og samnýting MLH tengis og microUSB en ekkert af því dregur nokkuð úr gæðum símans.

Kostir

  • Frábær hönnun
  • Besti skjár sem þú færð í dag
  • Skemmtileg myndavél
  • Góður hugbúnaður

Gallar

  • Aflæsingartakki illa staðsettur
  • Samnýting MLH og USB ekki sniðug
  • Léleg heyrnatól fylgja með
  • Engin íslenska
  • Mjög dýr

Simon.is gefur þessum síma einkunina 8,5 / 10 mögulegum.

 

7 replies

Trackbacks & Pingbacks

  1. […] í fyrra sem hét One og voru þar þrír þéttir símar (X, S og V) sem fengu allir góða dóma (hér og erlendis). Sú lína fór því miður aldrei á flug í sölu. HTC gaf nú út í sumar arftaka […]

  2. […] helsta sem aðgreinir þessa tvo síma en fyrir þá sem vilja kafa dýpra þá mæli ég með umfjöllun Símon um HTC One […]

  3. […] og er miðjubarnið í One fjölskyldunni frá HTC. Simon er nú þegar búinn að fjalla um One X sem er flaggskipið og One V sem er ódýrari valkosturinn, sem fengu góða dóma hjá okkur. One […]

  4. […] flestar 7″ Android spjaldtölvur á markaði. Ég bar þennan skjá við Samsung Galaxy S3 og HTC One X og tók eftir því að það munar talsvert í birtu. Tölvan er með minni birtu en símarnir, en […]

  5. […] verðugan arftaka SII.  Margir munu pæla mikið í því hvort þeir eigi að fá sér SIII eða HTC One X. Við erum sjálfir í vandræðum með að gera upp á milli þeirra en eitt er víst: Galaxy SIII […]

  6. […] henni eru þrír símar og eru nú tveir af þeim í sölu á Íslandi. Simon hefur áður skoðað One X og þótti mikið til hans koma. Nú fer One V undir smásjána, en hér á ferðinni er minnsti og […]

  7. […] efni sem er merkt með Android á síðunni geturðu smellt hér. Ég mæli síðan með að skoða umfjöllun þeirra um HTC One X, færslu um hvað er gott að byrja á að gera með nýtt Android tæki og góð ráð frá þeim […]

Comments are closed.