Lenovo Ideapad Yoga 13 umfjöllun

Lenovo er búið að standa sig vel á fartölvumarkaðinum undanfarið.  Lenovo er nú með stærstu sneiðina af fartölvumarkaðinum og tók nýlega fram úr HP. Lenovo hefur verið að hreyfa sig hratt og eru óhræddir við að prófa nýja hluti. Lenovo gaf út Android spjaldtölvu (Thinkpad Tablet) fyrir fyrirtækjamarkaðinn, snjallsímalínu (Le Phone) sem hefur gengið vel í Kína og eru nú búnir að gefa út Windows 8 fartölvu sem er með auðveldum hætti hægt að breyta í spjaldtölvu. Skjárinn á Yoga tölvunni fer alla leið til baka og fellur saman þannig að hægt er að nota hana sem spjaldtölvu. Simon fékk að prófa Yoga tölvuna í nokkra daga og hér er okkar umfjöllun.

lenovo_intel_5x35

Innvols

Yoga er ultrabook og er því útbúin sem slík með sparneytinn Intel i5 örgjörva, 4GB af vinnsluminni og 128GB SSD drif. Hún er því nokkur lipur en margir munu líklega þurfa að stækka minnið upp í 8GB til að tölvan virki sem best þegar keyrð eru mörg forrit í einu eða margir flipar í vafra. SSD drifið er velkominn staðalbúnaður og styttir ræsingu og vakningu tölvunnar talsvert. Það er mjög góður 13,3″ skjár á tölvunni með 1600×900 upplausn og Intel HD 4000 skjástýringu. Upplausnin er til fyrirmyndar fyrir þessa stærð og virkar vel með stýrikerfinu. HD 4000 skjástýringin er þokkalega og nær að sinna háskerpumyndböndum  og einföldum tölvuleikjum.

Tölvan er með eitt HDMI, eitt USB 3.0 og eitt USB 2.0 tengi. Einnig er 4-1 minniskortalesari í boði. Þetta er ekki mikið af tengjum og það er þægilegra að vera með þrjú USB tengi og netkort. Tölvan hentar því kannski nógu vel fyrir fyrirtæki, en hún virkaði þó fyrir okkur í Simon (meðlimir eru flestir í fullu starfi).  Fyrirtæki gera þó flest kröfur um Displayport (sem er hægt að raðtengja við marga skjái) og Ethernet rauf upp á örugga gagnaflutninga innanhúss. Þetta eru samt svipaðir tengimöguleikar og eru á öðrum ultrabooks eins og Macbook Air og Asus Zenbook.

Simon framkvæmir ekki mikið af afköstunarmælingum, en reynir að framkvæma álag með mörgum flipum í vafra, YouTube áhorfi og með því að opna mörg forrit í einu. Tölvan er snögg að opna forrit þökk sé SSD drifinu, en róðurinn fer að þyngjast þegar 4GB vinnsluminnið fyllist. Hægt er að skoða nánari mælingar hjá vinum okkar á Notebookreview.com.

Hönnun

Tölvan er mjög stílhrein og praktísk í hönnun. Tölvan er 17 mm á þykkt og vegur 1,5 KG, sem gerir hana svipað þykka og Macbook Air (þykkasti partur hennar) og 150 grömmum þyngri. Hún er því þægileg í hendi og auðvelt að ferðast með hana. Lyklaborðið er með chiclet hönnun, takkarnir eru eins og eyjur með bil í kringum sig. Það er mjög þægilegt að skrifa á lyklaborðið en það tekur smá tíma að venjast hægri Shift takkanum (sem er í minna lagi) og Home/End/Page up/Page up tökkunum sem eru alveg til hægri. Ég var lengi að reyna finna hátalarana og áttaði mig svo loks á því að þeir væru undir lyklaborðinu. Svæðið í kringum lyklaborðið er mjög sérstakt og minnir á frauð. Það er mjúkt viðkomu og gefur aðeins eftir, sem er mjög þægilegt. Snertimúsin er því miður ekki eins þægileg, þrátt fyrir góða stærð. Hún er ekki jafn næm og til dæmis Macbook snertimýsnar og gefur eftir þegar smellt er neðst á músina. Ytra byrði Yoga er einnig mjúkt viðkomu en gefur ekki eftir (e. soft touch rubberized plastic). Það gerir tölvuna mjög stama og er því mjög erfitt að missa tölvuna þegar maður heldur á henni (ólíkt Macbook Air sem er mjög sleip). Tölvan kemur í tveimur litum: gráum (graphite grey) og appelsínugulum (clementine orange). Hún er mjög töff í appelsínugulum og mjög fyrirtækjaleg í gráum. Ég er persónulega mjög skotinn í þeim appelsínugula.

Ideapad-Yoga-11_08

Hjarirnar á tölvunni gera skjánum það kleift að snúast í 360°og þar með allan hringinn. Með því er hægt að breyta henni í nokkurs konar spjaldtölvu. Lyklaborðið liggur þá á borðinu eða í kjöltu, sem er mjög furðulegt í fyrstu en venst þó. Það slökknar á lyklaborðinu þegar skjárinn fer aftur á bak, þannig að maður sé ekki óvart að ýta á takka með kjöltunni. Hjarirnar virðast sterkbyggðar og halda spennu á skjánum þannig að hann sé á réttum stað. Skjárinn er samt það þunnur að það blakar aðeins þegar ýtt er á snertiskjáinn, en það er hægt að vinna með því til lengdar. Yoga stenst kannski illa samanburð við aðrar spjaldtölvur þegar horft til þyngdar og þykktar. Nýi nýi iPad er t.d. ein þyngsta spjaldtölvan í dag og vegur rétt undir 700 grömm. Það er samt erfitt að bera þetta saman, enda Yoga með 13,3″ skjá og lyklaborði. Spjaldtölvumöguleikinn er þó skemmtileg viðbót og eykur nota- og afþreyingargildi hennar til muna.

Hugbúnaður og viðmót

Windows 8 start skjár

Yoga er auðvitað með nýjasta Windows stýrikerfið, eða Windows 8 sem er sérstaklega hannað með tilliti til snertiskjáa og spjaldtölva. Start-takkinn gamli er farinn og nú er komið heill skjár fyrir forrit og valmöguleika. Enn er í boði að fara í gamla góða “desktop” viðmótið og er það app sem maður ræsir. Þar getur maður unnið í gluggaumhverfinu sem Windows varð frægt fyrir og hoppað á milli forrita auðveldlega, nema þau séu hönnuð fyrir Windows 8. Strax og þú ferð yfir í Windows 8 app, þá ferðu frá gluggaumhverfinu og yfir í nýja viðmótið. Mér fannst þetta mjög óþægilegt, sérstaklega þar sem nýja viðmótið vill alltaf vera með allan gluggann (nema þú hafir skipt glugganum með öðru forrit). Hægt er að ræsa sum öpp í nýja viðmótinu, eða gamla gluggaumhverfinu og er það mjög ruglingslegt til að byrja með. Windows 8 er með fullt af innbyggðum öppum sem eru sérstaklega hönnuð fyrir snertiskjái. Internet Explorer 10 er frábær uppfærsla og er þægilegt að nota hann með snertiskjám við aðdrátt og skrun. Ég hafði gaman að flestum þessum öppum, eins og fréttum og veðri en ég endaði alltaf í mínum eigin vafra (Chrome með öllum mínum stillingum og viðbótum).

Niðurstaða

Þetta er skemmtilegur samruni fartölvu og spjaldtölvu sem er þægilegt að nota. Hér þarf maður ekki að rífa af lyklaborðseiningu né nota útvatnaða útgáfu af lyklaborði til að skrifa. Þetta er alvöru fartölva með möguleika á spjaldtölvu. Hönnunin er falleg og nothæf og mun tölvan endast vel.

Kostir

  • Fartölva og spjaldtölva
  • Nothæf hönnun
  • Flott verð

Gallar

  • Of þung til að vera góð spjaldtölva
  • Slöpp snertimús

Lenovo Ideapad Yoga 13 fær 4 stjörnur af 5 mögulegum.

 

 

2 replies

Trackbacks & Pingbacks

  1. […] 11 er minni útgáfa af Yoga 13 frá kínverska einkatölvurisanum Lenovo. Ein helsta gagnrýni okkar við Yoga 13 var að hún er of þung (og stór) til að vera góð spjaldtölva. Hvernig […]

  2. […] hefur orðið stóraukning á fartölvum með snertiskjám.  Við fjölluðum nýlega um Lenovo Ideapad Yoga 13 sem fékk fína dóma hjá okkur og var ein fyrsta tölvan á vestrænum markaði með snertiskjá […]

Comments are closed.