Sony Vaio SVT13 umfjöllun – Falleg ultrabook

Sony Vaio fartölvur eru lítið þekktar hér á landi, enda komu þær seint á markað. Vaio tölvurnar eru almennt vel hannaðar fartölvur (og borðtölvur) og njóta nokkurra vinsælda á vestrænum mörkuðum. Nýherji sendi okkur nýlega Vaio SVT13 sem er  falleg, þunn og nett fartölva með 13″ skjá. Tölvan ætti því að henta vel fyrir heimili og skóla.

 

Innvols

Eintakið sem við fengum er vel útbúið með nýjasta kubbasettinu frá Intel: Ivy bridge. Tölvan er því með Intel i5 1,7 GHz örgjörva, 4GB vinnsluminni og Intel HD 4000 skjástýringu. Örgjörvinn er tvíkjarna og getur skalað sig upp í 2,6 GHz þegar þess þarf. Örgjörvinn stóð sig vel og höndlaði marga flipa í vafra og fullt af samkeyrandi myndböndum. Intel HD 4000 skjárstýringin er velkomin uppfærsla frá síðustu útgáfu (HD 3000) og nær tvöfaldar afköstin. Það hentar samt ekki nógu vel í tölvuleiki en nær þó að spila einhverja eldri leiki án þess að hiksta. Tölvan kemur með 320GB 5400 snúninga diski ásamt 32GB mSATA SSD diski. SSD diskurinn er nýttur til þess að stytta tímann sem það tekur tölvuna að fara í og úr dvala (e. hibernation), sem eykur endingu rafhleðslu og ánægju. Tölvan er bara nokkrar sekúndur að vakna.

Það er ágætt úrval af tengimöguleikum á tölvunni og má þar helst nefna tvö USB 3.0 tengi, HDMI, VGA, ethernet, 3-1 minniskortalesara og hljóðtengi (samnýtt). VGA tengið er velkomin viðbót fyrir þá sem nota eldri skjávarpa, en er líklega óþarfi fyrir marga. En ég er einmitt í þeim hópi sem var ánægður að sjá tengið. Tölvan er með Bluetooth sem er hægt að nota til að tengja heyrnatól, lyklaborð og/eða mús.

Mynd og hljóð

Það er 13,3″ skjár á tölvunni með 1366×768 upplausn. Ég get ómögulega mælt með minni skjá, nema um sé að ræða spjaldtölvu, en þessi sleppur. Skjárinn er mjög bjartur og með góða liti, en litirnir gufa upp þegar horft er á skjáinn frá halla (e. bad view angles). Upplausnin þyrfti að vera hærri til að auðvelda vefráp, ritvinnslu og gluggareikning. Skjárinn er því á heildina litið ekki góður.

Hátalararnir eru staðsettir fremst á tölvunni og þar eru tvö pínulítil göt sem minna á farsímahátalara. Þeir gefa frá sér gott, en lágt hljóð. Þeir duga engan veginn til að spila tónlist hátt fyrir hóp af fólki, en hljóðið var samt betra en ég hef heyrt á öðrum sambærilegum tölvum.

Rafhlaða

Ending rafhlöðu er til fyrirmyndar og nær tölvan vel yfir fimm klukkustundum. Til samanburðar má þó benda á að dýrari fartölvur í sama flokki eins og Samsung Series 9 og Macbook Air 13 ná mun betri endingu. Þessi tölva kostar 160.000 kr. eða talsvert minnan en þær tvær, sem kosta um 250 þúsund krónur á Íslandi. Endingin er því góð miðað við verð.

Hönnun

Tölvan er mjög flott og nett. Hún er einungis 1,8 cm á þykkt og 1,6 kg þung, sem gerir hana mjög ferðavæna. Þetta er líklega ein flottasta Windows fartölvan sem ég hef séð, ásamt Asus Zenbook. Tölvan er úr áli og magnesíum og hún ætti að þola ýmislegt á ferðinni.. Þegar tölvan opnast alveg, þá lyftist hún aðeins aftast þar sem neðri hluti skjásins snertir borðið. Það virkaði frekar furðulega, en losar hita líklega betur.

Sony setur óþarfa forrit sem fylgja með tölvunni sem eru bara til þess að þyngja hana og gera hana leiðinlega. Vaio Gate er dokka staðsett efst sem náði eiginlega alltaf að vera fyrir mér þegar ég skipti milli flipa í vafra og ég var fljótur að slökkva á því.

Snertimúsin er sérstaklega góð og er því næst að jafna Apple snertimýs. Það er hægt að smella með neðri helming músar og var það sérstaklega vel hannað. Það er í boði að stilla músina fram og til baka (e. gestures).

Niðurstaða

Við getum auðveldlega mælt með þessari tölvu, en það er augljóst að hún hefur fórnað einhverju til að náð þessu verði.

Kostir

  • Falleg og góð hönnun
  • Þunn og létt
  • Snögg þrátt fyrir smæð
  • Góð snertimús

Gallar

  • Lélegur skjár
  • Venjuleg ending rafhlöðu
  • Hægur harður diskur

Sony Vaio SVT13 fær 7,5 af 10 mögulegum í einkunn.