Samsung Galaxy Tab 2 10.1 umfjöllun

Samsung hefur gefið út nýjar útgáfur af Android spjaldtölvunum sínum Galaxy Tab 10.1 og Galaxy Tab 7. Simon fékk að skoða Galaxy Tab 2 10.1 með 3G nettengingu í sumar. Tölvurnar eru talsvert frábrugðanir í hönnun og fá mann til að hugsa hversu mikil áhrif lögsóknir Apple hafi haft áhrif á þær. Skoðum nú nánari umfjöllun.  

Innvols

Tölvan kemur með tvíkjarna 1 GHz örgjörva, 1GB í vinnsluminni, 16/32 GB geymslupláss, 3G móthald, Bluetooth og GPS sendi. Þetta er mjög svipað því sem við sáum í fyrri útgáfu Galaxy Tab 10.1, nema þar var Tegra2 örgjörvi og nú er þetta Texas Instrument OMAP örgjörvi. Tölvan var ekkert sérstaklega hröð og átti mjög erfitt með skjáborðtæki (e. widgets) og vöfrun. Það er hægt að auka við geymsluplássið með microSD rauf og er því hægt að vera með allt að 64 GB (32+32).

Rafhlaða

Rafhlaðan er með 7000 mAh getu og endingin allt að níu tímar. Tölvan entist mér vel og þoldi þriggja daga helgi af ferðalagi með talsverði notkun. Sérstakt 30 pinna tengi er til að hlaða tölvuna og fylgdi sú snúra með. Snúran er hinsvegar með áfastri rafmagnskló og það fylgir enginn kapall með til að tengja tölvuna við USB. Það er mikill galli, en hægt er að kaupa snúruna hjá söluaðila.

Mynd og hljóð

Ólíkt Samsung snjallsímum, þá notar spjaldtölva TFT skjá (LCD) frekar en Super AMOLED. Skjárinn sýnir því réttari litinn fyrir utan svartan, sem kemur út aðeins grár. Þetta er 10,1 tommu skjár með 800 x 1280 upplausn (~150 ppi.) sem er ekki skarpur, sérstaklega í samanburði við leiðtogann á markaðinu: iPad 3 sem er með 1536 x 2048 upplausn (~264 ppi.).  Svona stór skjár þyrfti að vera með skarpari upplausn til að njóta sín. Skjárinn er höggheldur og rispuvarinn, en ekki kámvarinn (e. oleophobic). Margar spjaldtölvur  og snjallsímar eru með hátalara á bakhlið sinni, og fer þá hljóðið frá notanda. Þessi tölva er með tvo hátalara framan á tölvunni sem skilar sér í frábærum gæðum. Bestu hljómgæði sem ég hef heyrt á spjaldtölvu. Hægt er að nota tölvuna sem síma og er hljóðnemi á tölvunni. Það er reyndar mjög erfitt að halda á henni til að tala í hana og ég mæli því með að setja símtöl á hátalara. Tvær myndavélar eru á tölvunni: 3,15 Mp myndavél að aftan og VGA myndavél að framan fyrir myndsímtöl. Báðar myndavélar voru mjög lélegar og sú að aftan nær ónothæf (hún er ekki einu sinni með sjálfvirkan fókus).

Hönnun

Þessi tölva er skref aftur á bak. Hún er þykkari, þyngri og ljótari. Bakhliðin er sérstaklega slæm og er búin til í ódýru gráu plasti. Tölvan sem við vorum með var ekki almennilega föst við bakhliðina og stóð aðeins upp úr henni. Þetta kemur mjög á óvart þar sem Samsung er þekkt fyrir góða hönnun. Mögulega hefur einhver annar prófari misst tölvuna áður en við fengum hana. Tölvan er þó léttari en iPad 3 og er frekar þægilegt að halda á henni einhentur (iPadinn er frekar þungur).Tölvan kemur með Android 4.0 stýrikerfinu (Ice Cream Sandwich) og verður uppfærð í Android 4.1 (Jelly Bean) á næstunni, sem er sérstaklega hannað fyrir spjaldtölvur. Vonandi mun Jelly Bean lagað höktið sem við upplifðum á mörgum stöðum. Samsung býr til sérstök mini-öpp sem má nota samhliða öðrum öppum sem kemur sér að notum ef þú ert að fjölverka. Helsti gallinn við þau eru að það eru bara ákveðin tilgreind öpp, og þú getur ekki bætt við frá öðrum framleiðendum.

Niðurstaða

Þessi tölva er vonbrigði og eina sem réttlætir svona skref aftur á bak væri gott verð. Tölvan er einmitt á ágætu verði í dag, en var fyrst alltof dýr. Í dag kostar 16 GB útgáfan 70 þúsund og með 3G nettengingu um 90 þúsund. Við mælum með því að fólk kynni sér iPad 2, Asus Transformer TF300 eða Asus Nexus 7 áður en fólk kaupir sér Galaxy Tab 2 10.1.

Kostir

  • Vel staðsettir hátalarar
  • Gott verð

Gallar

  • Léleg hönnun
  • Veikbyggt ytra byrði
  • Lítil skerpa í skjánum

Simon gefur Samsung Galaxy Tab 2 10.1 6,0 í einkunn af 10 mögulegum.