Þetta er Samsung Galaxy S5 og nýju Gear úrin

Nýr sími með öðruvísi nýjungum

Samsung kynnti í gærkvöld nýjasta flaggskipið í S línunni, Samsung Galaxy S5. Að þessu sinni er Samsung ekki með neina byltingu frekar en með S4. Síminn er aðeins betri en S4 og lítur aðeins öðruvísi út. Það helsta sem má nefna er að síminn er með 5,1” Full HD skjá, 2,5 ghz Snapdragon 805 örgjörva, 2 GB í minni og 2800 mAh rafhlöðu. Aðal breytingarnar eru í hugbúnaði og byggingu símans.

Galaxy-S5-7

Samsung Galaxy S5 er ekki lengur gerður úr sama sleipa plastinu og S3 og S4. Nú er búið að skipta yfir í einskonar matta bakhlið úr plasti, með áferð sem svipar mjög til Nexus 7 sem Google gaf út 2012. Síminn er vatns- og rykvarinn samkvæmt IP67 staðlinum, líkt og Sony Xperia Z símarnir. Samsung leggur miklar áherslur á myndavélina sem er nú orðin 16 megadíla og hefur síminn sérstakan örgjörva til að vinna úr myndum. Myndavélin getur tekið myndbönd í 4K upplausn. Hún skartar nýju viðmóti, bættum autofókus sem tekur víst einungis 0.4 sekúndur að ná fókus, bættu HDR sem á að taka enn betri myndir þegar birtan er of lítil eða of mikil.


Galaxy-S5-36

Nýjung í símanum er fingrafaralesari til að aflæsa símanum. Með því að opna símann með fingrafaralesaranum fer síminn í svokallað “private mode” og fæst þá aðgangur af öllum skjölum símans. Ef fingrafaralesarinn er ekki notaður til að opna símann fæst ekki aðgangur að þessum persónulegu skjölum. Þá verður hægt að hlaða símann þráðlaust líkt og á Nokia og LG símunum.

Önnur nýjung er “Kids mode”, sem er ekki ósvipað og þekkist á Windows Phone 8. Með símanum fylgja  konar öpp og leikir  fyrir krakkana og læsir Kids mode þeim hlutum símans sem krakkar eiga ekki að komast í.

Samsung heldur áfram að tala fyrir bættri heilsu og er m.a. innbyggður púlsmælir í símanum sem skilar niðurstöðum mælingarinnar inn í S Health appið frá Samsung og væntanlega önnur heilsu-öpp sem styðja púlsmælingu.

Í símanum er einnig að finna Samsung Knox, sem er sérstök skel sem heldur utan um tölvupóst og viðkvæm skjöl vegna vinnu, á læstu svæði á símtækinu. Ein áhugaverðasta nýjungin er án efa Download Booster, þar sem að hægt er að sameina hraðann frá þráðlausa netinu og 4G til þess að fá enn meiri hraða. Hvort þetta kemur til með að virka eins og Samsung segir verður að koma í ljós.

3 ný snjallúr

Samsung kynnti einnig 3 ný snjallúr: Gear 2, Gear 2 Neo og Gear Fit. Það ber að nefna að úrin eru ekki lengur byggð á Android stýrikerfinu, heldur keyra þau nú á Tizen stýrikerfi Samsung.

Galaxy-S5-10

Gear 2 er bein uppfærsla frá fyrra Gear úrinu. Samsung lagði áherslu á að bæta allt sem notendum fannst vera að Gear. Úrið á að vera einfalt og þægilegt í notkun. Búið er að færa myndavélina, hátalarann og hljóðnemann úr ólinni yfir í úrið sjálft, þannig að nú er hægt að skipta um ól. Hægt er að fá ólina svarta, brúna og appelsínugula, en einnig verða designer ólar fáanlegar.

Samsung bætti við “Home” takka á úrið til að komast alltaf beint í heimaskjá og ætti því ekki lengur að vera vandamál að sjá hvað klukkan er. Hægt er að breyta útlitinu á úrinu t.d. með því að skipta um leturgerð, liti og tegund klukku. Í Gear 2 er einnig púlsmælir og áhersla lögð á að úrið sé fullkominn félagi í ræktina. Í úrinu er nú 4GB pláss og því hægt að setja tónlist í úrið og hlusta beint úr hátalaranum. Þannig vill Samsung að fólk sleppi við að taka snjallsímann með í ræktina og noti eingöngu úrið.

Gear 2 er hægt að tengja við marga hluti og leggur Samsung áherslu á að það sé hinn fullkomni félagi. Búið er að bæta við innrauðum sendi í úrið og er því hægt að stjórna sjónvörpum með því í gegnum WatchOn appið. Einnig opnaði Samsung á SDK-inn og geta því aðrir hannað ný öpp fyrir úrið. Batteríið hefur verið bætt töluvert og á úrið nú að endast í allt að 18 tíma, sem er töluverð viðbót við það fyrra. Úrið er einnig orðið vatns- og rykhelt og er því hægt að fara með úrið út í rigninguna eða sandstorminn.

Gear 2 Neo er ódýrari útgáfa af Gear 2 sem er með færri af eiginleikum þess dýrara. Það kemur í svörtum, grænum og appelsínugulum litum og er minna. Neo styður þó enn fleiri tæki og virkar með 18 Samsung tækjum. Það er því hugsað fyrir þá sem eiga ódýrari Samsung tæki og tíma ekki að eyða jafn miklu í úrið.

Gear Fit er með beygðum super amoled skjá og er töluvert minna en hin tvö úrin. Það vegur aðeins 27 grömm og minnir mikið á Fitbit. Það kemur í svörtu, gráu og appelsínugulu, en líkt og Gear 2 verður hægt að fá designer ólar. Tilkynningar úr snjallsímanum fara sjálfkrafa í úrið og er hægt að vinna með þær í úrinu. Í Gear Fit er innbyggður púlsmælir sem segir notandanum hvort hann eigi að slaka á eða reyna meira á sig. Í Fit er einnig innbyggður skrefamælir sem fylgist með skrefum notandans og reiknar út fjarlægðir sem hann hefur gengið eða hlaupið. Í appinu sem kemur með úrinu er hægt að setja inn hæð, þyngd og fleiri upplýsingar til þess að fá enn betri ráðleggingar um þjálfun. Samsung gefur einnig út nýtt app sem heitir Coach og með því er hægt að bæta þjálfunina enn meira að sögn Samsung. Appið kemur með tillögur að æfingum, matarplani og slíku.

Vonbrigði í mikilli samkeppni

Samsung Galaxy S5 virðist vera nokkur vonbrigði. Það er fátt um nýjungar sem breyta miklu og er ávinningurinn frá S4 ekki mikill. Það virðist sem að Samsung sé búið að toppa sig í innvolsi og sé að reyna við hugbúnaðarbaráttuna sem þeim hefur aldrei tekist af neinu viti. S4 var uppfullur af tilgangslausum hlutum eins og að skrolla með augunum eða með því að halda höndinni fyrir ofan símann, en S5 ætlar að halda sig meira á jörðinni. Þær áherslur sem Samsung hefur sett fram eru bætt útlit, betri myndataka, hraðari tenging, öryggi og heilsubót. Hvort að notendur vilji þessar breytingar og muni nota þær verður að koma í ljós. Eitt er víst og það er að samkeppnin hefur aldrei verið meiri á snjallsímamarkaðinum.

Tækin koma öll út 11. apríl um allan heim og enn er enginn verðmiði kominn á þau.