HTC One mini örumfjöllun

HTC One mini er minni útgáfa af HTC One, sem margir vilja meina að sé sími ársins 2013. Við vorum alla vega mjög hrifin af One hér í Simon hópnum og gáfum tækinu 4,5 stjörnur. Spekkarnir eru þó aðeins lakari á One mini: hægari örgjörvi (tvíkjarna 1,4 GHz Krait 200), 1GB vinnsluminni, 16GB geymslupláss, 4,3″ skjár (sem mörgum finnst vera fín stærð) og engin hristivörn á myndavélinni (OIS). Þetta er samt í grunninn sama hugmyndin: ótrúlega fallegt eintak af snjallsíma sem er smíðaður úr áli með “ultrapixel” myndavél sem tekur mjög góðar myndir við léleg birtuskilyrði. Hliðunum hefur samt aðeins verið breytt. Í stað þess að plasti sé sprautað á milli tveggja hliða símans, þá eru hliðarnar plast alla leið. Þetta hefur líklega verið gert til að ná niður kostnaði.

htc-one-mini

Kostir

Síminn fer mun betur í hendi en HTC One fyrir hinn almenna notanda. Það er mjög þægilegt að handleika símann og hann kemst mun betur fyrir í vasa. Ég hef alveg næstum því missti HTC One símann minn. Hann er alveg aðeins of stór fyrir mig og smá sleipur út af álinu. One mini er bæði með plasthliðar og minni. Myndavélin er mjög skemmtileg og nær flottum skotum við lág birtuskilyrði. Þær eru hinsvegar einungis 4 megadílar og því ekki mjög skarpar. Hátalarnir á þessum síma eru alger snilld og þeir næstbestu sem ég hef prófað.

Gallar

Síminn er mun hægari en stóri bróðir. Maður finnur aðallega fyrir því við vöfrun og þyngri 3D tölvuleikjaspilun. Síminn er samt ekki hægur, hann er bara ekki útbúinn eins og flaggskip. Þetta hefur alltaf farið í taugarnar á okkur hjá Simon. Af hverju þarf minni útgáfan af einhverju síma að vera með lakari spekkum? Af þarf hann að vera minni og hægari? Af hverju getur hann ekki bara verið minni? Svo virðist sem Sony hafi hlustað á þessa skoðun og eru nú að gefa út Sony Xperia Z1 compact, sem er nákvæmlega eins spekkaður og Xperia Z1 (sem er flaggskip Sony) nema með 4,3″ skjá (eins og iPhone 5x). Samt sem áður, þá er HTC One mini mun betri mini útgáfa en við höfum séð fram að Z1 compact.

Niðurstaða

Ég var í heild ánægður með HTC One mini, þrátt fyrir að hann sé hægari en HTC One. Ef maður hefur aldrei átt flaggskip, þá tekur maður ekki mikið eftir lagginu. Síminn er ekki beint hægur, hann er bara ekki sjúklega hraður og laggfrír. Myndavélin er skemmtileg og mjög nothæf. Alls ekki sú besta þarna úti, en góð kaup samt sem áður. Verðmunurinn á milli One og One mini er þó ekki nógu mikill. Munurinn er 20 þúsund og fyrir það færðu hraðari síma, hristivörn og meira geymslupláss. Fyrir þá sem þola ekki stóra síma þá er þetta hinsvegar einn besti síminn á markaðinum í dag fyrir utan iPhone 5X.

HTC One mini fær 4 stjörnur af 5 mögulegum.