Sony kynnir snjallsíma, spjaldtölvu og fittness-armband á MWC 2014

Eins og við var að búast þá var mikið um dýrðir á Sony-básnum á MWC 2014. Sony kynnti á sýningunni til sögunnar nýja spjaldtölvu, nýjan snjallsíma og fitness-armband sem virkar með snjalltækjum frá Sony.

Sony Xperia Z2 Tablet er með þynnstu spjaldtölvum sem hafa komið á markað í 10 tommu stærð en spjaldtölvan keyrir á fjórkjarna Snapdragon 801-örgjörva, er með 3GB vinnsluminni og er með FullHD-skjáupplausn sem er nýtt útspil í spjaldtölvudeildinni hjá Sony.

Myndavélin er 8 megapixlar og rafhlaðan heil 6.000 mAh en Sony Xperia Z2 Tablet er væntanleg í sölu í mars og mun keyra á Android 4.4.

Sony kynnti einnig nýjan flaggskipssíma frá sér sem heitir einmitt einnig Sony Xperia Z2. Það sem vekur strax athygli við það tæki er að það er m.a. með möguleika á því að taka upp myndskeið í 4K-upplausn. Að auki er skjárinn 5,2 tommur að stærð með FullHD-uplausn ásamt því að vera með 3GB vinnsluminni og 2,3 GHz fjórkjarna örgjörva.

Sony Xperia Z2 mun verða fáanlegur í mars og mun keyra á Android 4.4 og verða í boði í svörtum, hvítum eða fjólubláum lit.

Bæði spjaldtölvan og síminn er með IP-58 vottun sem þýðir að bæði tækin eru með meir þol gagnvart bleytu, ryki og hnjaski en hefðbundin tæki.

Síðast en ekki síst þá kynnti Sony til sögunnar nýtt fitness tæki sem nefnist Sony SmartBand. Tækið er væntanlegt í sölu núna í mars en það var gefið smá sýnishorn af virkni þessa tækis á CES 2014 í Las Vegas. Þó svo að fitness-virkni sé það helsta sem Sony SmartBand býður upp á þá er margt fleira sem tækið getur gert eins og að halda utan um staði sem maður fer á, bækur sem maður les, hvernig svefninn er hjá manni  og margt fleira.

Enginn skjár er á Sony SmartBand og því eru allar upplýsingar úr tækinu aðgengileg í gegnum sérstakt app. Hinsvegar lætur Sony SmartBand mann vita ef það er eitthvað um að vera með því að víbra.

Heimild: TheVerge