LG G2 umfjöllun

G2 er flaggskip LG í dag og tók við af Optimus G. LG hefur ákveðið að losa sig við Optimus vörumerkið og verður “G” merki flaggskipssíma þeirra. LG hefur gengið mjög vel undanfarið og fengu bæði Optimus G og Nexus 4 (sem LG framleiðir fyrir Google) góða dóma víðsvegar. LG fer aðeins út fyrir boxið með G2 og nær að koma með nýjungar að borði. Þetta er Android (Jelly Bean) snjallsími með 5,2″ skjá, 13 megadíla myndvél, 4G, fjarstýringu (IR-sendi) og allt annað sem snjallsími ætti að hafa.

LG-G2 black back

Hönnun

Síminn er mjög einfaldur og stílhreinn í hönnun: svartur að framan, línur á baki og létt krómrönd á hliðum. Það eru einungis þrír takkar á símanum, og eru þeir ekki á hliðunum eins og venja er heldur á baki símans rétt fyrir neðan myndavélina. Þetta er mjög sérstakt en venst þokkalega. Með þessu þá nær LG að spara pláss og nær því skjárinn næstum alveg út í kantana. Síminn er ekki sá léttasti né sá þynnsti, en hann er ekki of þungur né of stór.  Hann er ávalur og fer vel í hendi. Auk þess er hann  minni og þægilegri í notkun en t.d. Galaxy Note 3, Xperia Z1 og fleiri símar með yfir 5″ skjái. G2 dansar á öllum línum; hönnum sem móðgar ekki, stærð sem pirrar ekki, eðlileg þykkt og til í svörtum og hvítum. Ég tók samt eftir því að plastið utan um símann er ekkert sérstaklega slitgott. Bakið á símanum var orðið máð eftir tveggja vikna notkun. Ég mæli því með að fá sér hulstur strax.

36

Viðmót

LG viðmótið er mjög litríkt og stíllaust, en hefur verið að þróast í rétta átt frá Optimus 4XHD og Optimus G. Það er alltaf að verða stílhreinna, en á því miður enn langt í land. Viðmótið býður þó upp á fullt af valkostum og mismunandi útlit. Það er hægt að stilla aflæsingarskjáinn og setja mismunandi útlit á hann. Einnig er hægt að breyta útliti hreyfinga milli skjáborða, sem sumar eru mjög flottar. Það eru fullt af fídusum sem geta komið sér vel. Hægt er að fá smærri útgáfur appa eins og síma appinu og reiknivélinni, sem fljóta ofan því appi sem er í gangi, sem opnar á fjölverkun (e. multitasking). Q-memo getur tekið skjáskot af því sem er að gerast og hægt er að breyta og skrifa inn á skotin auðveldlega. Svo er ekkert mál að klæða símann í nýjan og fallegri búning með öppum eins og Nova launcher.  Það er allt hægt með Android.

Síminn kemur með íslensku viðmóti, lyklaborði, orðabók og raddgreiningu (Android eiginleiki) og fær því sérstakt hrós ásamt Sony Xperia og Samsung Galaxy vörulínunum.

Það sem algerlega heillaði mig var Knock-On eiginleikinn. Þetta er eitthvað sem allir símar ættu að hafa. Hægt er að kveikja á skjá símans með því að smella tvisvar á skjáinn ákveðið með einum putta. Svo er hægt að læsa skjánum aftur með því að smella tvisvar á stöðustikuna efst.Þetta er ótrúlega þægilegt, sérstaklega fyrir síma með tökkum sem eru staðsettir öðruvísi en venjulega. Ég hélt ósjálfrátt áfram að reyna kveikja á skjá næsta síma sem ég prófaði. Hér er smá sýnishorn hvernig þetta virkar frá vinum okkar hjá Android Central.

[youtube id=”LyXi83twc3A” width=”600″ height=”350″]

 

Afköst

Síminn er með Snapdragon 800 örgjörva og 2GB vinnsluminni. Þetta er einn hraðasti örgjörvinn í dag og maður sér það strax. Það er ekkert hökt á símanum og vöfrun er leifturhröð. Ég hef bara upplifað svona hraða á iPhone 5S, Sony Xperia Z Ultra og Note 3 (seinni tveir eru með sama örgjörva). Það er 32GB pláss á símanum og eru rétt yfir 26GB í boði eftir að stýrikerfið hefur tekið sitt.

Myndavél

G2 er með 13 megadíla myndavél með sterku flassi, sjálfvirkum fókus og hristivörn (IOS). Hún er hreint út sagt frábær og tekur skarpar og góðar myndir. Ég var sérstaklega ánægður með flassið, sem lýsir til fyrst til að ná fókus í miklu myrkri og tekur svo mynd. Svo er einnig hægt að segja símanum að taka mynd með því að segja “cheese” sem mér fannst nokkuð skemmtilegur fídus. Þetta er án efa ein af bestu snjallsímamyndavélunum í dag ásamt iPhone 5S, Lumia 1020, HTC One og Xperia Z1.

Skjárinn

Skjárinn er nokkuð góður og skarpur. Hann er með FHD upplausn og notar LCD-IPS tækni, eða eitthvað sem LG kallar “True HD-IPS”. Skjárinn er 5,2″ og er því með 424 dílaþéttni (við erum löngu hætt að geta aðgreint mismunandi díla upp úr 300 þéttni). Í samanburði við HTC One og iPhone 5x sést greinilegur gæðamunur. Litir dofna þegar horft er frá hlið á skjáinn og svartur hvítnar upp. Skjárinn er því í klassa fyrir neðan þá skjái, en þeir eru auðvitað þeir bestu á markaði í dag. Það mun enginn taka eftir þessum mun, nema þegar símarnir eru bornir saman hlið við hlið. Skjárinn er bjartur, en ekki hefur verið ástand hér á landi til að reyna á skjáinn í sólarbirtu. Þó þykir mér mjög líklegt að hann þoli sólarljós nokkuð vel.

Rafhlaða

Rafhlaðan er með 3000 mAh getu, sem er alveg hreint ótrúlegt miðað við stærð. LG þróaði tækni til að geta verið með sveigðar rafhlöður (líklega fyrir Flex símann sem er á leiðinni) og með því ná þeir að koma fyrir mun stærri hleðslu. Þetta er besta ending rafhlöðu á snjallsíma sem ég hef upplifað. Það að rafhlaðan sé svona góð, er eiginlega eitt og sér nóg til þess að við mælum með símanum umfram aðra í hans flokki. Loksins! Snjallsími sem endist mér í tvo daga með mikilli notkun. Sími sem ég þurfti ekki að hafa áhyggjur af á hverjum degi né slökkva á bluetooth/GPS/lækka birtu/passa að nota lítið.

Niðurstaða

LG G2 nær að tikka í öll boxin: fullt af fídusum, látlaus hönnun, stillanlegt viðmót, íslenska, góð myndavél og án efa besta rafhlaðan á markaðinum í dag. Eina sem ég get gagnrýnt er það að venjast þessum tökkum á bakhliðinni og plastið í kringum símann.

Kostir

  • Frábær rafhlaða
  • Góð myndavél
  • Þynnstu kantarnir

Gallar

  • Ódýrt ytra byrði úr plasti
  • Tekur tíma að venjast tökkum á bakhlið
  • Ekki besti skjárinn í dag, en þó góður

LG G2 fær því 5 stjörnur af 5 mögulegum frá Simon.

p.s. þessi sími ætti að fá 4,5 stjörnur í einkunn miðað við eiginleika og getu, en við vorum svo hrifnir af rafhlöðuendingunni, að við viljum hækka hann upp í 5 stjörnur. Svona á að gera það.